Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 141 Endurkrafa

Grein

Fimmtudaginn 21. júní 2007

 

141/2007

  

A

f.h. dánarbús B

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi, dags. 24. apríl 2007, til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir A, f.h. dánarbús B, kröfu Tryggingastofnunar ríkisins í dánarbúið vegna ofgreiddra bóta.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins greiddi þann 1. febrúar 2007 inn á reikning B kr. 15.961, og kveður stofnunin það hafa verið bætur lífeyristrygginga vegna febrúar 2007 en B lést þann 31. janúar 2007.  Með bréfi, dags. 14. mars 2007, lýsti Tryggingastofnun kröfu í dánarbú B vegna framangreindrar greiðslu.  Þeirri kröfu var mótmælt af hálfu dánarbúsins.

 

Í kæru segir m.a. varðandi úrlausnarefni og rökstuðning:

 

  A. Óskað eftir að Úrskurðarnefndinn láti TR fella niður kröfu í dánarbúið.

 

1. Vegna sérstakra aðstæðna við lát foreldar minna kemur í ljós mismunandi meðhöndlun TR á endurkröfum í dánarbú.

Tökum sem dæmi ef faðir minn hefði látist mínútu fyrir miðnætti 31. janúar þá hefði TR gert endurkröfu í dánarbúið.

Ef faðir minn hefði látist mínútu eftir miðnætti, þ.e. 1. febrúar þá hefði TR ekki gert endurkröfu í dánarbúið. ( sjá útskýringar í bréfi TR dags 17. apríl.)

Í tilviki móður minnar tekur TR einhliða, ívilnandi ákvörðun, þ.e. að ekki eigi að endurkrefja hana um bætur.

Í ljósi jafnræðisreglunnar óskar dánarbúið er eftir að sama verði látið gilda um B.

 

2.   Í bréfi TR er sú réttlæting fyrir endurkröfu að bæturnar séu fyrirframgreiddar sbr. 49. grein laga nr. 117/1993.

Í lagatextanum stendur. "Bætur skal greiða fyrsta dag hvers mánaðar." Hér er einungis verið að fyrirskipa hvernær eigi að greiða bæturnar.

Ákvörðun TR byggir m.a. á oftúlkun á 49. grein laga nr. 117/1993.

 

3.  Í bréfi TR dags. 17. apríl stendur......."Þar sem bæturnar eru fyrirframgreiddar sbr. 49. grein laga nr. 117/1993 um almannatryggingar (alt.) og ætlaðar til framfærslu hvern mánuð þá voru ekki forsendur til að greiða B bætur fyrir febrúarmánuð 2007. Því hefur Tryggingastofnun fram á að bæturnar verði endurgreiddar."

Ákvörðun TR byggir m.a. á ætlaðri notkun á bótum og dánarbúið efast um að það sé ásættanlegur grundvöllur fyrir opinberan aðila að byggja á endurkröfu.

 

4.   Skv. símtali við þjónustuver TR þann 16. mars 2007, þá áttu dánarbú B og C ekki von á neinu frá TR fyrr en eftir álagningu skatta 1. ágúst 2007 og 1. ágúst 2008 og eftirfylgjandi endurreikning bótagreiðslna vegna tekjuárana 2006 og 2007.

TR gerir kröfu, í bréfum dagsettum 14. mars og 17. apríl, á hendur dánarbúsins áður en endanlegur útreikningur bótagreiðslna fyrir tekjuárið 2007 liggur fyrir.

Það er mjög alvarlegt mál þegar að opinber aðili beitir íþyngjandi aðgerðum án þess að hafa fulla sönnun fyrir hátterni sínu. Með þessu háttalagi fer TR offari og er stofnuninni til vansa að leggjast í innheimtuaðgerðir án þess að fyrir liggi sannanleg ofgreiðsla.

Til réttlætingar hátterni sínu vísar starfsmaður í grein 50. laga nr. 117/1993. Væntanlega á hann við fyrstu málsgrein þó það komi ekki fram........ "Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. "

TR hefur á engann hátt sýnt fram á að bætur hafi verið ofgreiddar þegar að krafa er lögð fram.

Fallist nefndinn á kröfu dánarbúsins skv. A. lið að fella niður ofgreiðslukröfu TR þá fer dánarbúið fram á að nefndinn sleppi því að fjalla um B. lið.

 

B.   Óskað eftir að Úrskurðarnefndinn skyldi TR til kanna hvort foreldrar mínir hafi átt rétt á meiri/öðrum bótum en þau fengu og þá mögulegan útreikning allt að tveimur árum aftur í tíman, sbr. 48. grein laga nr. 117/1993

 

1.     Í bréfi TR dags 17. apríl stendur...... "Tryggingastofnun telur að forsenda greiðslu bóta skv. almannatryggingalögum sé sú að bótaþegi sé á lífi, enda skuli greiðslunni beint að bótaþega persónulega. Greiðslur bóta samkvæmt fyrrgreindum lögum séu þannig bundnar við persónulegan rétt viðkomandi einstaklinga til bótana. Ekki eru því forsendur til þess að yfirfara hugsanlegan bótarétt til handa dánarbúi Högna á grunvelli fyrrgreindra laga þar sem hann og kona hans eru nú bæði látinn."

Hér kemur fram mjög alvarlegur skilningsskortur.

Að halda því fram að réttur bótaþega falli niður þegar þeir deyja er eins og að halda því fram að skyldur bótaþega falli niður líka.

Augljóslega er svo ekki.

 

2. TR ber skylda til að taka tillit til réttar beggja aðila þegar lagðar eru íþyngjandi ákvarðanir á bótaþega. TR hefur alls ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við afgreiðslu þessa máls og einblínt á einn þátt sem er einungis hagsmunir TR og kýs að hunsa mögulega hagsmuni bótaþega.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 25. apríl 2007, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 8. maí 2007 og þar segir:

  Kærð er sú ákvörðun Tryggingastofnunar að endurkrefja dánarbú B um ofgreiddar bætur lífeyristrygginga vegna febrúarmánaðar 2007. B lést þann 31. janúar sl. og var Tryggingastofnun ekki kunnugt um andlát hans þegar bæturnar voru greiddar út. Jafnframt gerir kærandi kröfu um það, verði ekki fallist á niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar, að úrskurðarnefndin skyldi Tryggingastofnun til að kanna hvort foreldrar hans (sem bæði eru látin) hafi átt rétt á meiri/öðrum bótum en þau fengu og þá mögulegan útreikning allt að tveimur árum aftur í tímann, eins og segir í fyrirliggjandi kæru.

Hinar ofgreiddu bætur, að fjárhæð 15.961, kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta voru greiddar inn á reikning hins látna þann 1. febrúar sl. sem bætur fyrir febrúarmánuð. Þar sem bæturnar eru fyrirframgreiddar, sbr. 49. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og ætlaðar til framfærslu hvern mánuð, þá voru ekki forsendur til að greiða B bætur fyrir febrúarmánuð þar sem hann var þá þegar látinn. Því hefur Tryggingastofnun fram á að bæturnar verði endurgreiddar.

Í kærunni segir meðal annars: "Vegna sérstakra aðstæðna við lát foreldra minna kemur í ljós mismunandi meðhöndlun TR á endurkröfum í dánarbú". Ekki er ljóst hverjar þessar sérstöku aðstæður eru sem kærandi vísar til, en hins vegar hafnar Tryggingastofnun þeim fullyrðingum að jafnræðisregla og rannsóknarregla stjórnsýslulaganna hafi ekki verið virtar við meðferð máls þessa. Í bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 17. apríl sl., sem fylgdi með kærunni til úrskurðarnefndar, var gerð grein fyrir því að ekki hafi verið um neina ofgreiðslu að ræða vegna móður kæranda, C. Hún lést þann 11. desember 2006, en bótaþegar fá andlátsmánuð greiddan að fullu og var því ekki um neina ofgreiðslu að ræða í því tilviki. Hvað varðar ofgreiddar bætur til B heitins, þá er óumdeilt að hann lést þann 31. janúar sl. Tryggingastofnun telur því að af þeirri ástæðu hafi ekki verið forsendur til að greiða honum ellilífeyri vegna febrúarmánaðar þar sem hann var þá þegar látinn og því séu þær bætur sannanlega ofgreiddar og beri því að innheimta samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga.

 

Eins og fram kom í fyrrgreindu bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, telur stofnunin að forsenda greiðslu bóta skv. almannatryggingarlögum og lögum um félagslega aðstoð sé sú að bótaþegi sé á lífi, enda skuli greiðslunni beint að bótaþega persónulega. Greiðslur bóta samkvæmt fyrrgreindum lögum eru þannig bundnar við persónulegan rétt viðkomandi einstaklinga til bótanna og telur Tryggingastofnun því ekki forsendur til að kanna hvort foreldrar kæranda, sem bæði eru látin, kunni að hafa "átt rétt á meiri/öðrum bótum en þau fengu og þá mögulegan útreikning allt að tveimur árum aftur í tímann", eins og gerð er krafa um í kærumáli þessu.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. maí 2007 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum á framfæri.

 

Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 21. maí 2007 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun ríkisins.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar kröfu Tryggingastofnunar ríkisins í dánarbú B, sem lést þann 31. janúar 2007, um endurgreiðslu lífeyrisgreiðslna stofnunar til hins látna sem greiddar voru 1. febrúar 2007.

 

Í kæru er óskað eftir að úrskurðarnefndin felli niður kröfu Tryggingastofnunar í dánarbúið en fallist nefndin ekki á það er þess óskað að úrskurðarnefndin skyldi Tryggingastofnun til að kanna hvort B og eiginkona hans, C, er lést þann 11. desember 2006, hafi átt rétt á meiri og/eða öðrum bótum en þau fengu.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að bætur þær sem greiddar hafi verið inn á reikning B þann 1. febrúar 2007 hafi verið bætur fyrir febrúarmánuð og ætlaðar honum til framfærslu þann mánuð en ekki hafi verið forsendur til að greiða B bætur fyrir febrúarmánuð þar sem hann hafi þá þegar verið látinn.  Vísar stofnunin í þessu sambandi til 49. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 með síðari breytingum.  Þá segir að greiðslur bóta samkvæmt almannatryggingalögum séu bundnar við persónulegan rétt viðkomandi einstaklinga til bótanna og því telji stofnunin ekki forsendur til að kanna hvort B og eiginkona hans kunni að hafa átt rétt á meiri og/eða öðrum bótum en þau höfðu fengið.

 

Í 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum, segir að hafi Tryggingastofnun ríkisins ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum eigi stofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

 

Samkvæmt 7. gr. almannatryggingalaga leggur óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á mál rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta samkvæmt lögunum.  Bæturnar sem um ræðir eru lögbundnar greiðslur til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laganna og eru greiðslurnar bundnar við persónulegan rétt viðkomandi einstaklings.  Orðalag 1. mgr. 50. gr. staðfestir þá túlkun en þar er tekið fram að Tryggingastofnun eigi endurkröfurétt á hendur bótaþega hafi honum verið ofgreiddar bætur.  Orðalagið lýtur þannig að réttarsambandi Tryggingastofnunar og bótaþegans sjálfs.

 

Í máli þessu hagar svo til að bótaþegi var látinn áður en Tryggingastofnun greiddi inn á reikning hans bætur þann 1. febrúar 2007.  Ágreiningur er milli Tryggingastofnunar og dánarbús hins látna varðandi endurkröfu Tryggingastofnunar á greiðslu þessari sem Tryggingastofnun kveður hafa verið ofgreidda vegna andláts bótaþegans.  Krafa dánarbúsins lýtur að því að úrskurðarnefndin, sem er úskurðaraðili á stjórnsýslustigi með afmarkað hlutverk, skeri úr um hvort Tryggingastofnun hafi rétt til endurkröfu á hendur dánarbúinu.  Þá óskar dánarbúið þess, fallist úrskurðarnefndin ekki á að fella niður kröfu stofnunarinnar á hendur dánarbúinu, að úrskurðarnefndin skyldi Tryggingastofnun til að kanna hvort hinn látni og látin eiginkona hans hafi átt rétt á meiri og/eða öðrum bótum en þau fengu greiddar.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga er úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi. Valdsvið nefndarinnar er markað í lögum, einkum lögum um almannatryggingar, 7. gr. Hlutverk nefndarinnar er að skera úr ágreiningi sem rís á milli bótaþega og Tryggingastofnunar ríkisins um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta. Um undantekningu er að tefla frá þeirri almennu reglu, að dómstólar leysa almennt úr ágreiningi aðila. Mál þetta er þannig vaxið, að Tryggingastofnun innir af hendi bótagreiðslu eftir að hann er látinn. Um mistök var að tefla og er endurkröfu eðli málsins samkvæmt beint að dánarbúi bótaþegans. Þegar þannig háttar að kröfunni er beint að þriðja aðila telur úrskurðarnefndin sig skorta vald lögum samkvæmt til að leysa úr ágreiningnum og telur slíkan ágreining eiga undir almenna dómstóla. Nefndin telur sig ekki geta tekið afstöðu til endurkröfu sem varðar hagsmuni annars aðila en bótaþega sjálfs.   Þegar af þeirri ástæðu er kæru málsins vísað frá.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Máli A, f.h. dánarbús B, er vísað frá úrskurðarnefnd almannatrygginga.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum