Hoppa yfir valmynd
2. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 15/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. október 2007

í máli nr. 15/2007:

Fálkinn hf.

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

Með bréfi, dags. 21. september 2007, kærði Fálkinn hf. þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að hafna öllum tilboðum í útboðinu OR/07/019, Hreinsikerfi og dælubrunnar fyrir Bifröst, Hvanneyri, Reykholt og Varmaland, og hefja samninga­viðræður við einn bjóðanda. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1) Að nefndin úrskurði að ákvörðun kærða, að hafna öllum tilboðum í útboð nr. OR/07/019 Hreinsikerfi og dælubrunnar fyrir Bifröst, Hvanneyri, Reykholt og Varmaland, og hefja í framhaldinu samningaviðræður við einn bjóðanda án frekari málsmeðferðar skv. lögum um opinber innkaup, verði felld úr gildi sbr. 97. gr. laga um opinber innkaup.

2) Að nefndin gefi álit á hugsanlegri skaðabótaskyldu  kærða gagnvart kæranda

 

Til vara að:

1) Að kærða verði gert að auglýsa á nýjan leik útboð vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar við hreinsikerfi og dælubrunna fyrir Bifröst, Hvanneyri, Reykholt og Varmaland, án tafar sbr. 97. gr. laga um opinber innkaup.

 

Í öllum tilfellum er þess krafist að í niðurstöðu kærunefndar verði kærða gert að greiða kostnað við að hafa kæruna uppi.

 

Með vísan til 96. gr. laga um opinber innkaup er gerð sú krafa að innkaupaferli í tengslum við útboð nr. OR/07/019 verði stöðvað sem og gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.[?]“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Í bréfi kærða, dags. 27. september 2007, segir kærði m.a. að samningar vegna kaupanna hafi þegar verið undirritaðir við Vélaverk ehf. sem seljanda.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í maí 2007 auglýsti kærði eftir tilboðum í „miðlægar skólphreinsistöðvar sem byggja á líffræðilegum hreinsiferlum á Hvanneyri, Bifröst, Reykholti og Varmalandi í Borgarfirði ásamt tilheyrandi dælubrunnum.“

            Kærandi var einn þeirra sem gerði tilboð í verkið. Með bréfi kærða, dags. 24. ágúst 2007, var kæranda tilkynnt að kærði hefði ákveðið að hafna öllum tilboðum sem bárust í kjölfar útboðsins. Með bréfinu fylgdi listi yfir bjóðendur og tilboð þeirra. Kærandi og kærði áttu í tölvupóstssamskiptum í kjölfarið og í tölvupósti, dags. 17. september 2007, kemur m.a. fram að kærði hafi tekið ákvörðun um að „hafna öllum tilboðum og ganga til samninga við Vélaverk á grundvelli tilboðs þeirra.“.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála, eftir kröfu kæranda, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Heimild nefndarinnar til stöðvunar er þannig bundin við útboðsferlið og samningsgerðina. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur samningur verið undirritaður og þegar af þeirri ástæður er ekki hægt að stöðva samningsgerðina.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Fálkans hf., um stöðvun á samningsgerð Orkuveitu Reykjavíkur um hreinsikerfi og dælubrunnum fyrir Bifröst, Hvanneyri, Reykholt og Varmaland, er hafnað.

Reykjavík, 2. október 2007.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 3. október 2007.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum