Hoppa yfir valmynd
11. október 2007 Innviðaráðuneytið

Um þúsund hraðabrot mynduð á mánuði

Tvær sjálfvirkar hraðamyndavélar hafa verið í notkun á Hringveginum í Hvalfjarðarsveit frá byrjun júlímánuðar og hafa þær myndað alls 3.152 hraðabrot í júlí, ágúst og september. Verið er að koma upp sjö slíkum vélum til viðótar og síðari hluta næsta árs verða vélarnar alls orðrnar 16.

Samgönguráðherra á blaðamannafundi með ríkislögreglustjóra vegma umferðareftirlits.
Kristján L. Möller á blaðamannafundi með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Ólafi Ólafssyni, sýslumanni Snæfellinga.

Hlutfall brota vegna mynda úr stafrænu hraðamyndavélanna er um 20% allra hraðabrota á landinu þar sem hámarkshraðinn er 90 km á klukkustund fyrstu níu mánuði ársins. Um þriðjungur ökumanna sem myndaðir voru í Hvalfjarðarsveit óku á 96 til 100 km hraða, 56-58% óku á 101 til 110 km hraða og 9-11% óku á 111 til 120 km hraða.

Hér má sjá línurit yfir hraðakstur í janúar til júlí árin 2005 til 2007.

Kristján L. Möller samgönguráðherra ávarpaði blaðamannfund sem haldinn var hjá ríkislögreglustjóra í dag þar sem meðal annars var kynntur árangur af notkun stafrænu myndavélanna. Vélarnar voru keyptar fyrir fjárframlag samgönguráðuneytisins í umferðaröryggisáætlun en auk þessara véla verða í ár og næsta ár keypt lögreglumótorhjól, öndunarsýnamælar og myndavélar í lögreglubíla og hjól auk þess sem lögreglan fær fjármagn til að sinna auknum verkefnum við hraðaeftirlit og aukið umferðareftirlit.

Samgönguráðherra kvaðst binda vonir við að hraðamyndavélarnar skiluðu áframhaldandi árangri sem hann sagði annars vegar þann að ná þeim sem brjóta umferðarlög og hins vegar að þeim ökumönnum fari fjölgandi sem vilji vera til fyrirmyndar í umferðinni. Á næstu vikum verður tveimur myndavélum komið fyrir á Sandgerðisvegi, tveimur á Garðskagavegi, tveimur í Fáskrúðsfjarðargöngum og einni í Hvalfjarðargöngum.

Hér má sjá ýmsar upplýsingar um hraðamyndavélarnar.

Aðalatriðið er aðhaldið


Ávarp samgönguráðherra fer hér á eftir:

Samstarfssamningar um hraðaeftirlit og sérstakt umferðareftirlit sem gerðir voru fyrir hönd samgönguráðuneytisins milli ríkislögreglustjóra, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar eru gerðir á grundvelli umferðaröryggisáætlunar. Þessir samningar voru gerðir í byrjun ársins og ná yfir þetta ár og það næsta.

Markmið samninganna er að fækka banaslysum og alvarlegum slysum með því að efla eftirlit og bæta tækjakost til þess og er nánar kveðið á um útfærslu þessa verkefnis í samningunum. Í þessi verkefni eru lagðar 218 milljónir króna.

Þessum fjármunum er vel varið og árangurinn er sýnilegur á tvennan hátt. Þeir sem brjóta umferðarreglur eru gripnir og sektaðir og umferðarhraðinn hefur lækkað.

Með því að fá fleiri hraðamyndavélar, fleiri öndunarsýnamæla, fleiri lögreglumótorhjól, fleiri ratsjártæki með myndavélum í lögreglubíla og mótorhjól. Með því viðbótarfjárframlagi til aukins eftirlits náum við árangri. Af þeim 16 sjálfvirku hraðamyndavélum sem keyptar verða hafa aðeins tvær verið teknar í gagnið og því er ljóst að með þeim vélum sem settar verða upp á næstu vikum og þeim sem komast í gagnið á næsta ári verður árangurinn enn meiri.

Ég bind því miklar vonir við að hraðamyndavélarnar skili áframhaldandi árangri. Þær eru settar upp á vel völdum stöðum á þjóðvegum landsins. Eru meðal annars notaðar upplýsingar úr slysaskrá Umferðarstofu og litið til fleiri þátta svo sem umferðarþunga og gerðar slitlags.

Árangurinn felst ekki aðeins í því að ökumenn séu myndaðir og sektir innheimtar.

Aðalatriðið er það aðhald sem aukið eftirlit og hertar aðgerðir hafa í för með sér. Það leiðir til þess að þeim ökumönnum fjölgar sem vilja og ætla sér að vera til fyrirmyndar í umferðinni.

Ég held að við könnumst öll við þá tilfinningu að við ökum hægar þegar við vitum að hugsanlega verði tekin af okkur mynd ?

mynd sem við höfum alls ekki beðið um en okkur er samt sendur reikningurinn ? og við vitum að það dugar ekki að senda mynd af peningum til baka.

Ég vil líka benda á þann kost sem eðlilegur og löglegur akstur leiðir af sér en það er eldsneytissparnaður. Um leið og við spýtum í eyða bílarnir umtalsvert meira. Það er því bæði eðlilegt og sjálfsagt að aka löglega og um leið skynsamlega. Með því sýnum við ráðdeild og erum vistvæn.

Þó að reynslan sé ekki mjög löng af rekstri hraðamyndavéla er samt sem áður ljóst að við erum á réttri braut í þessum efnum.

Við munum því vinna eftir þessum samningum út næsta ár og áður en þeir renna út verður metið hvert framhaldið verður.

Okkur veitir ekki af þessu aðhaldi og þess vegna munum við halda því áfram.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum