Hoppa yfir valmynd
22. október 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Brottvikning úr skóla

Ár 2007, mánudagurinn 22. október, er kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið.

Menntamálaráðuneytinu barst hinn 27. mars sl. stjórnsýslukæra D, hrl., f.h. E, (hér eftir nefndur kærandi), þar sem kærð var brottvikning hans úr skóla X (hér eftir nefndur kærði), dags. 19. mars sl.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærði krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Málavextir.

Málsaðilum greinir á um suma málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi.

1.

Við leit húsbónda, umsjónarmanns, heimavistar kærða í almennu rými, kvöldið 12. mars sl., fundust ætluð fíkniefni í hvítum íþróttasokki á bak við ofn á milli hurða inn í herbergi A og B á heimavistinni. Ennfremur fundust tæki til fíkniefnanotkunar í skáp á gangi heimavistar á sömu hæð. Herbergi kærða nr. C á heimavistinni er við hlið herbergis nr. B. Lögregla var þá kölluð til. Er hún kom á staðinn heyrðist vatnsniður úr herbergi kæranda, sem þá var læst. Samkvæmt frásögn húsbónda óskaði lögregla tvívegis eftir því að kærandi opnaði herbergi sitt. Er kærandi sinnti því ekki opnaði húsbóndi dyrnar með masterslykli og hætti þá vatnsniðurinn. Ummerki voru um vatnsgang við handlaug í herberginu. Sýni sem tekið var af lögreglu úr vatnslás gaf jákvæða svörun við amfetamínprófi lögreglu. Stroksýni sem lögregla tók af enni kæranda morguninn eftir gaf einnig jákvæða svörun við amfetamínprófi.

Í bréfi kærða til kæranda, dags. 14. mars sl., kom fram að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um hvort vísa bæri honum úr skóla X vegna brots á skólareglum um meðferð ólöglegra fíkniefna. Tekið var fram að kæranda væri veittur frestur til andmæla í tvo sólarhringa. Með bréfi F, hdl., f.h. kæranda, dags. 15. mars. sl., nýtti kærandi sér rétt til andmæla vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um brottvísun úr skóla. Með bréfi umboðsmanns kærða, dags. 16. mars sl., var andmælum kæranda svarað. Í niðurlagi bréfsins kom fram að stjórnendur kærða teldu sig ekki eiga annan kost en að víkja kæranda úr skólanum.

Í bréfi skólameistara kærða til kæranda, dags. 19. mars sl., var því lýst að sú ákvörðun hefði verið tekin á fundi skólaráðs kærða s.d. að vísa kæranda úr skólanum vegna brots á skólareglum um meðferð ólöglegra fíkniefna en viðurlög við slíku broti væru tafarlaus brottvísun. Með bréfi lögmanns. kæranda 26. mars sl., var ákvörðunin kærð til ráðuneytisins og þess krafist að hún yrði felld úr gildi.

Með bréfi ráðuneytisins 28. mars sl., var kærða veittur 2 vikna frestur til þess að láta ráðuneytinu í té umsögn og afstöðu til kærunnar, ásamt öllum gögnum og upplýsingum er þýðingu kynnu að hafa varðandi hina kærðu ákvörðun. Andsvör kærða við kærunni bárust ráðuneytinu 12. apríl sl.

Með bréfi ráðuneytisins til lögmanns kæranda 13. apríl sl., var veittur 14 daga frestur til að bregðast við athugasemdum kærða. Athugsemdir lögmanns kæranda bárust ráðuneytinu 26. apríl sl. Næsta dag barst ráðuneytinu bréf frá lögmanni kærða þar sem grein var gerð fyrir því að fyrir lægi niðurstaða um amfetamínmagn í blóði kæranda, sem dregið hafi verið úr honum við handtöku 12. mars sl., og óskað eftir fresti, á töku málsins til úrskurðar, uns endurrit niðurstöðunnar fengist afhent frá lögreglu til framlagningar í máli þessu. Framkomin ósk um frestun var kynnt lögmanni kæranda 27. apríl sl. Í símbréfi lögmanns kæranda til ráðuneytisins, 27. apríl sl., var eindregið lagst gegn því að frestað yrði töku málsins til úrskurðar.

2.

Með bréfi ráðuneytisins til lögmanns kærða, dags. 2. maí sl., var gerð grein fyrir afstöðu lögmanns kæranda til framkominnar óskar um frestun á töku málsins til úrskurðar. Í bréfi ráðuneytisins var því lýst að ekki þættu, í ljósi eindreginna mótmæla lögmanns kæranda og þess að niðurstaða lífssýnarannsóknar hafi ekki legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin, efni til þess að fresta töku málsins til úrskurðar. Í tölvubréfi, dags. 2. maí sl., sem ráðuneytinu barst frá lögmanni kæranda kemur fram að mótmæli hafi verið lögð fram hjá sýslumannsembættinu á Y gegn fyrirhugaðri afhendingu á rannsóknarniðurstöðum á framangreindu blóðsýni úr kæranda. Með bréfi ráðuneytisins til lögmanns kæranda, dags. 14. maí sl., var tilkynnt að í ljósi nýrra gagna í málinu, bréfs lögreglustjórans á Y, dags. 10. maí sl., sem barst ráðuneytinu 14. maí sl., væri fyrirhugað að taka um það ákvörðun hvort fresta ætti uppkvaðningu úrskurðar í málinu uns fyrir lægi hvort kærði fengi afhentar upplýsingar úr hendi lögreglu um niðurstöðu framangreindrar lífssýnarannsóknar. Til þess var vísað að í bréfi lögreglustjórans kæmi fram að kærði hefði umsjón með rekstri heimavistar fyrir nemendur kærða þar sem unglingar frá 16 ára aldri héldu til. Samkvæmt 8. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, væri skólameistara kærða ætlað að stjórna daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gæta þess að skólastarfið færi fram í samræmi við lög. Ennfremur lægi fyrir að samkvæmt skólareglum færi skólameistari með agavald og eftirlit í húsum kærða. Í bréfi lögreglustjórans á Y var jafnframt vísað til þess að samkvæmt reglum kærða væri bannað að neyta, varðveita eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna í húsum kærða. Þá sagði í bréfi lögreglustjórans að kærði hefði ríka hagsmuni af því að fá upplýsingar um niðurstöðu lífssýnarannsóknar á kæranda vegna rekstrar stjórnsýslumáls fyrir ráðuneytinu og ákveðið hefði verið að kærða yrðu veittar framangreindar upplýsingar úr því lögreglumáli sem tengdist hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt kom fram í bréfi lögreglustjórans að ákvörðun hans gæti sætt kæru til embættis ríkissaksóknara og af þeirri ástæðu þætti rétt að fresta afhendingu upplýsinga til kærða um niðurstöðu lífssýnarannsóknar uns afstaða kæranda til ákvörðunar lögreglustjórans lægi fyrir. Í bréfi ráðuneytisins 14. maí sl. var rakið að framangreint bréf lögreglustjórans á Y til aðila málsins hafi ekki legið fyrir, þegar ráðuneytið hafnaði ósk lögmanns kærða um frestun málsins. Við nánari skoðun teldi ráðuneytið nú að niðurstaða úr umræddri lífssýnarannsókn kynni að hafa þýðingu um sönnunarmat á forsendum hinnar kærðu ákvörðunar og því væri rétt að fresta meðferð málsins uns niðurstaða lægi fyrir um hvort gögn úr lífsýnarannsókninni yrðu notuð við úrlausn stjórnsýslumálsins og því væri lögmanni kæranda veittur frestur til að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar frestunar málsins.

Með bréfi lögmanns kæranda, 14. maí sl., var fyrirætlun ráðuneytisins um frestun andmælt og upplýst að tekin hefði verið ákvörðun um að kæra ákvörðun lögreglustjórans á Y um afhendingu gagna úr lögreglumáli er varðar kæranda til lögmanns kærða en það mál hefði verið fellt niður. Lögmaður kæranda vísaði til fyrri andmæla í bréfi, dags. 27. apríl sl., og fyrri ákvörðunar ráðuneytisins um að fresta ekki málinu. Að mati lögmanns kæranda væri ekkert nýtt fram komið sem réttlætt gæti fyrirhugaða frestun málsins. Vísað var til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga og þess krafist að ráðuneytið héldi sig við fyrri ákvörðun sína um að úrskurða í málinu innan tveggja vikna frá bréfi, dags. 2. maí sl. Kærandi hefði af því brýna hagsmuni að málið fengi sem skjótasta afgreiðslu. Þá lýsti lögmaður kæranda því viðhorfi að umrædd lífssýnarannsókn hefði ekkert sönnunargildi í stjórnsýslumálinu þar sem hún gæti ekki sannað hvort kærandi hefði gerst brotlegur við reglur skólans og að hin boðaða ákvörðun ráðuneytisins um frestun málsins gengi gegn meginreglum stjórnsýslulaga um málshraða, meðalhóf, frestun máls og töku ákvörðunar.

Með bréfi ráðuneytisins til lögmanns kærða, dags. 21. maí sl., var tilkynnt sú ákvörðun að fresta frekari meðferð málsins uns fyrir lægi endanleg ákvörðun um hvort skóla X verði veittur aðgangur að niðurstöðu lífssýnarannsóknar úr kæranda úr lögreglumáli því sem tengist hinni kærðu ákvörðun. Tekið var fram að frestur væri veittur þar til ríkissaksóknari hefði úrskurðað um afhendingu framangreindra gagna, þó eigi lengur en til 31. ágúst sl. Þeim tilmælum var jafnframt beint til lögmanns kærða að ef endanleg afgreiðsla ríkissaksóknara bærist honum fyrir 31. ágúst sl., yrði veittur 10 daga frestur frá dagsetningu ákvörðunar ríkissaksóknara til að tilkynna ráðuneytinu um hana og eftir atvikum til að leggja fram gögn um niðurstöður lífssýnarannsóknarinnar, verði fallist á afhendingu þeirra.

3.

Þar sem engar upplýsingar lágu fyrir um hvort ákvörðun lögreglustjórans á Y frá 12. maí sl. hefði verið staðfest eða felld úr gildi í kjölfar kæru til ríkissaksóknara sendi ráðuneytið bréf til lögmanns kærða, dags. 11. september sl., þar sem veittur var 10 daga frestur til framlagningar upplýsinga um niðurstöðu ríkissaksóknara og eftir atvikum upplýsingar um niðurstöðu framangreindrar lífssýnarannsóknar.

Með bréfi lögmanns kærða til ráðuneytisins, dags. 19. september sl., var ráðuneytinu gerð grein fyrir niðurstöðu ríkissaksóknara frá 11. júlí sl. vegna beiðni lögmannsins um upplýsingar um niðurstöðu áðurgreindrar rannsóknar á lífssýni úr kæranda vegna ætlaðs fíkniefnabrots hans. Fram kom í bréfi lögmannsins að gögn um niðurstöðu ríkissaksóknara hefðu borist honum sama dag. Í ákvörðun ríkissaksóknara kemur fram að meginregla réttarfarslaga um að meðferð opinbers máls sé háð fyrir opnum dyrum, þannig að nánast hver sem er geti fylgst með því sem fram fari, gildi ekki um lögreglurannsókn. Þvert á móti fari lögreglurannsókn í raun fram fyrir luktum dyrum og á opinberum starfsmönnum hvíli þagnarskylda um það sem fram komi við lögreglurannsóknina samkvæmt nánar tilgreindum lagaákvæðum. Þá segir í ákvörðun ríkissaksóknara að ljúki máli hjá lögreglustjóra eða öðrum ákæranda án höfðunar opinbers máls haldist þagnarskylda um það sem fram hafi komið við lögreglurannsóknina áfram. Aðgangur að því sem fram hafi komið við lögreglurannsóknina standi ekki opinn öðrum en þeim sem eigi lögvarinn rétt til að kynna sér málsgögnin. Í niðurstöðu ríkissaksóknara kemur fram að beiðni umboðsmanns skóla X sé ekki reist á tilteknum lagaákvæðum sem veiti skólanum rétt til að fá slíkar upplýsingar. Í því ljósi og hvernig staðið var að töku lífsýnis úr kæranda var beiðni kærða hafnað.

Að fenginni vitneskju lögmanns kærða um ákvörðun ríkissaksóknara ritaði hann sýslumanninum á Y bréf, dags. 24. september sl., þar sem óskað var eftir staðfestingu munnlegra upplýsinga sem lögregla hafði veitt kærða um að stroksýni sem tekið hafi verið af kæranda morguninn eftir handtöku hans hafi svarað jákvætt amfetamíni. Í rökstuðningi fyrir beiðninni kom fram að kærði teldi sig eiga rétt á að fá staðfestingu á framangreindum upplýsingum vegna þess að ákvörðun hans um að víkja kæranda úr skólanum byggðist m.a. á þeim. Í svarbréfi lögreglustjórans á Y, dags. 25. september sl., er vísað til niðurstöðu ríkissaksóknara 11. júlí sl. um að hafna sams konar beiðni kærða vegna sama máls. Hafi ákvörðun ríkissaksóknara einkum byggst á því að lagaheimild hefði skort til afhendingar gagnanna. Þar sem ekki væri vísað til lagaákvæða er heimiluðu afhendingu umræddra ganga var beiðninni hafnað.

4.

Að mótteknum framangreindum gögnum veitti ráðuneytið aðilum lokafrest til 5. október sl. til að koma að frekari gögnum. Frekari gögn hafa ekki borist.

Málsástæður.

Í máli þessu er deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum þegar kærði ákvað að vísa kæranda úr skóla X. Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður aðila hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda.

Kærandi telur að skyldu stjórnvalds skv. 10. gr. stjórnsýslulaga til að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin hafi ekki verið gætt af hálfu kærða við hina kærðu ákvörðun. Leit að fíkniefnum á heimavist kærða hafi eingöngu beinst að kæranda en þó sé ekkert sem tengi hann og þau fíkniefni sem fundust við leit lögreglu og engin tilraun virðist hafa verið gerð að rannsaka uppruna þeirra. Eftir fund fíkniefnanna hafi nokkrir starfsmenn kærða fengið símhringingar frá aðila sem hafi kynnt sig með nafni og sagst vera eigandi efnanna en enginn reki hafi verið gerður að því að ganga eftir þeim upplýsingum. Kærandi kveðst enga skýringu hafa á því að sýni úr vatnslás á herbergi sem hann hafði til umráða hafi reynst vera jákvætt við amfetamínsprófun. Kærandi bendir á að herbergi hans sé yfirleitt ólæst eins og herbergi annarra nemenda á heimavistinni og því hafi hver sem er getað átt hlut að máli. Þá sé lítið magn af efninu í umræddu sýni sem geti svarað til þess að neytandi amfetamíns hafi skyrpt í vaskinn. Kærandi bendir á að engin fíkniefni hafi fundist við leit í herberginu eða á honum sjálfum eða nokkuð annað sem gefur til kynna neyslu eða vörslu fíkniefna.

Lögmaður kæranda telur að regla 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt hafi verið brotin við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Tveggja sólarhringa frestur til að koma að andmælum á sama tíma og kærandi sat í gæsluvarðhaldi geti ekki talist uppfylla skilyrði 13. gr. stjórnsýslulaga. Lögmaður kæranda telur hina kærðu ákvörðun vera í andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, enda liggi ekki fyrir sönnun á því að amfetamín í vatnslás á herbergi kæranda tengi hann við neyslu eða vörslur fíkniefna andstætt skólareglum.

Á það er bent af hálfu lögmanns kæranda að lögregla á Y hafi haft fíkniefnafundinn til meðferðar en rannsókn hafi nú verið hætt og sú ákvörðun lögreglu að fella niður frekari rannsókn málsins verið tilkynnt lögmanni kæranda.

Þá gerir lögmaður kæranda athugasemdir við að kærði hafi ekki leiðbeint honum um kæruheimild vegna hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá bendir kærandi á að kærði geti ekki á grundvelli fyrirliggjandi gagna komist að þeirri niðurstöðu að vísa beri kæranda úr skóla fyrir vörslu fíkniefna gegn eindreginni neitun hans og áður en dómstólar séu búnir að fella um það dóm hvort kærandi hafi gerst sekur um vörslu fíkniefna.

Lögmaður kæranda bendir á að kærandi sé aðeins 9 einingum frá námslokum í framhaldsskóla og að hann hafi áformað að þreyta inntökupróf í læknadeild Háskóla Íslands í júní sl.

Af hálfu lögmanns kæranda hafa verið gerðar ýmsar athugasemdir við greinargerð lögmanns kærða í málinu og er hér gerð grein fyrir þeim sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga.

Málsástæður kærða.

Kærði bendir á að hafa verði í huga aðstæður nemenda í framhaldsskólum eins og hjá kærða þar sem eru um 120 nemendur á aldrinum 16-20 ára sem búi flestir á heimavist skólans. Kærði hafi takmarkaða möguleika á að afla upplýsinga og hafi þurft að bregðast skjótt við þegar framangreint fíkniefnamál hafi komið upp í skólanum. Eftir að lögregla hafi byrjað formlega rannsókn málsins hafi kærða verið neitað um upplýsingar varðandi rannsóknina og kærða því ómögulegt að afla frekari upplýsinga, umfram þær sem legið hafi fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Gera verði athugasemdir við að lögmaður kæranda blandi saman rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og sönnunarreglum laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 en hér sé um algerlega óskylda hluti því samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga sé sú krafa gerð að stjórnvald afli bestu fáanlegra upplýsinga og byggi ákvörðun sína á þeim. Um það hvort sekt sakaðs manns sé sönnuð í refsimáli gildi hins vegar 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga segi að stjórnvald skuli sjá um að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Kærði hafi verið búinn að afla þeirra upplýsinga sem kostur hafi verið á þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Fyrir hafi legið skrifleg yfirlýsing lögreglunnar á Y um að sýni sem tekið var í vatnslás í herbergi kæranda hafi svarað jákvætt amfetamínprófi. Ekki sé um það deilt í málinu. Strokpróf af enni kæranda sem tekið hafi verið morguninn eftir húsleitina, 13. mars sl., hafi svarað amfetamínprófi jákvætt. Ennfremur hafi verið tekið blóðsýni úr kæranda en niðurstaða þess hafi ekki fengist upplýst þar sem lögregla hafi ekki veitt frekari upplýsingar um rannsókn málsins en að framan greinir.

Þá hafi komið fram í samtölum við nemendur í skólanum að þeim hafi verið kunnugt um að kærandi hafi verið í verulegri neyslu fíkniefna frá áramótum og kærandi hafi gortað af því þegar hann hafi komið til baka í skólann eftir gæsluvarðhaldsvist 19. mars sl. að lögreglunni tækist ekki að sanna neitt á hann. Kærandi hafi einnig haft á orði við nemendur að hann yrði fyrir verulegu fjárhagstjóni af því að efnin sem fundust við leit lögreglu yrðu gerð upptæk. Nemendur hafi ekki þorað að koma fram undir nafni af ótta við kæranda.

Lögmaður kærða tekur fram að hin kærða ákvörðun styðjist ennfremur við ábendingar sem borist hafi í upphafi málsins og leiddu til þeirrar leitar sem var aðdragandi að handtöku kæranda. Tekið er fram að við könnun innan skólans hafi ekki komið upp grunsemdir um að aðrir nemendur væru viðriðnir meðferð fíkniefna í skólanum.

Í reglum skólans komi fram í 6. gr. að óheimilt sé með öllu að neyta, varðveita eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna í húsum skólans. Þar segi einnig að brot á ákvæðinu varði tafarlausri brottvísun úr skólanum. Reglurnar hafi verið kynntar nemendum þannig að þær séu sendar hverjum nemanda þegar umsókn um skólavist sé samþykkt, auk þess sem þær hangi uppi í húsnæði skólans.

Í stjórnsýslukærunni sé því haldið fram að ekki hafi verið gætt ákvæða 10. gr. stjórnsýslulaga áður en ákvörðun hafi verið tekin um að vísa kæranda úr skólanum. Í því sambandi sé bent á að rannsókn hafi verið áfátt og bent á að ekki hafi verið leitað hjá öðrum nemendum skólans. Í því sambandi sé rétt að benda á að rannsókn málsins hafi verið í höndum lögreglu svo að kærði hafi ekki haft áhrif á framgang rannsóknarinnar.

Í stjórnsýslukærunni sé því haldið fram að kærandi hafi enga hugmynd um hvað valdi því að sýni úr vatnslás á herbergi hans hafi svarað amfetamínprófi jákvætt en bendi á að herbergi hans sé yfirleitt ólæst og því hafi hver sem er getað átt hlut að máli. Í þessu sambandi bendir kærði á að þegar komið var að herbergi kæranda mátti greinilega heyra að vatn hafi runnið á baðherberginu af miklum krafti eins og nánar komi fram í yfirlýsingu G, húsbónda. Ummerki hafi verið um vatn á spegli og á vaskaskáp sem bendi eindregið til þess að það hafi verið þar skamman tíma. Vegna þessara vegsummerkja hafi lögregla tekið sýni úr vatnslásnum. Enginn annar hafi verið í herberginu en kærandi. Augljóst sé að mati kærða að um það bil sem lögregla kom að herberginu hafi framangreindur vatnsgangur staðið yfir á baðherbergi sem skýringar hafi ekki fengist á. Að mati kærða ber kærandi ábyrgð á herbergi sínu á heimavistinni og því sem þar hafi farið fram. Þrátt fyrir að um lítið magn af amfetamíni hafi verið að ræða í vatnslásnum er lögregla kom á vettvang bendi mikið rennsli vatns til þess að meira magni amfetamíns hafi verið skolað niður vaskinn skömmu áður. Að mati kærða sýnir framangreint að amfetamín sem fannst í vatnslásnum hafi verið í vörslum kæranda, sem sé skýlaust brot á skólareglum og því hafi borið að vísa honum úr skólanum.

Kærði bendir á að kærandi hafi ekki einungis brotið gegn reglum skólans um bann við vörslum fíkniefna, heldur liggi fyrir að hann hafi jafnframt verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann var handtekinn á heimavist skóla X að kvöldi 12. mars sl., því stroksýni sem tekið var af enni kæranda að morgni 13. mars sl. hafi svarað jákvætt amfetamínprófi. Að mati kærða liggur því fyrir að kærandi neytti amfetamíns í húsum skólans og braut því enn frekar gegn framangreindri 6. gr. skólareglna.

Að fengnum öllum framangreindum upplýsingum taldi kærði að ekki yrði undan því vikist að vísa kæranda úr skólanum í samræmi við skólareglur.

Varðandi það atriði í máli lögmanns kæranda að tveir sólarhringar teljist of skammur tími til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, bendir kærði á að skoða verði andmælarétt kæranda í ljósi rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Tilgangur andmælareglunnar sé að aðili máls eigi möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun er tekin. Í umræddu tilviki hafi andmæli komið fram af hálfu F, hdl., innan þess frests sem veittur hafi verið og ekki hafi verið óskað eftir frekari fresti. Kærði líti því svo á að andmælareglunnar hafi verið gætt.

Kærði vísar til þess að kærandi haldi því fram að ekki hafi verið gætt meðalhófs, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og að ákvörðun um brottvísun kæranda úr skóla hafi ekki verið í samræmi við reglur skólans, og ennfremur að kærandi hafi ekki neytt fíkniefna í húsum kærða. Um þessi atriði bendir kærði á að fyrrgreint stroksýni sem tekið var af kæranda að morgni 13. mars hafi svarað amfetamínprófi jákvætt. Kærða hafi því verið ómögulegt að líta öðru vísi á en svo að kærandi hafi neytt þessa efnis á heimavist kærða. Kærði vísar jafnframt til þess sem áður hafi verið rakið um ástæðu þess að lögregla tók sýni úr vatnslás í herbergi kæranda. Það hafi eingöngu verið gert vegna þess að þegar lögregla og húsbóndi á heimavist komu að herberginu hafi þeir heyrt mikinn vatnsnið. Enginn annar en kærandi hafi verið í herberginu og því vart um annað að ræða en að kærandi hafi verið að skola amfetamíni niður í vaskinn. Engin haldbær skýring um annað hafi komi fram af hálfu kæranda. Ómögulegt sé annað en að líta svo á að amfetamínið hafi verið í vörslum kæranda og hann þar með gerst brotlegur við reglur kærða um meðferð fíkniefna. Ekki hafi komið annað til greina en að vísa honum úr skóla af þeim sökum.

Lögmaður kærða ítrekar að þau sjónarmið sem fram komi í stjórnsýslukærunni og í bréfi F, hdl., um sönnunarreglur laga um meðferð opinberra mála eigi ekki við í máli þessu. Þess í stað beri að rannsaka málavexti eins og kostur sé og taka að því búnu ákvörðun á grundvelli tiltækra upplýsinga. Að mati kærða var ekki skynsamlegur vafi á því að kærandi hefði gerst brotlegur við reglur kærða um meðferð fíkniefna og því hafi ekki verið hjá því komist að vísa honum úr skólanum.

Rökstuðningur niðurstöðu:

1.

Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldur manna verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Í áliti umboðsmanns Alþingis í SUA 1994, bls. 295, kemur fram að almennt falli kennsla ekki undir stjórnsýslulög nr. 37/1993, en hins vegar geti ákvarðanir um agaviðurlög og skyld úrræði fallið undir lögin. Telur umboðsmaður Alþingis með hliðsjón af ummælum í greinargerð með stjórnsýslulögunum, að líta verði svo á að hin vægari úrræði sem beitt sé til að halda uppi aga og almennum umgengisvenjum, teljist almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir. Hins vegar kemur skýrt fram í álitinu, að ákvörðun um að víkja nemanda úr grunnskóla í fleiri en einn skóladag, teljist ákvörðun um réttindi og skyldur sem falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og því beri að fara með slík mál í samræmi við ákvæði laganna. Stjórnsýslukæra kæranda í máli þessu verður af þessum sökum talin byggjast á almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt þeirri grein er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Æðra sett stjórnvald getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvörðun lægra setts stjórnvalds. Viðbrögð æðra setta stjórnvaldsins ráðast af mati á hinni kærðu ákvörðun og séu annmarkar fyrir hendi er það æðra setta stjórnvaldsins að meta og ákveða hvaða afleiðingar þeir skuli hafa. Verður lagt mat á framangreint í úrskurði þessum.

Um skóla X gilda lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með áorðnum breytingum. Samkvæmt 4. gr. laganna fer menntamálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá. Samkvæmt 8. gr. framhaldsskólalaga veitir skólameistari framhaldsskóla forstöðu og tekur ákvarðanir í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Menntamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu skólanefndar, sbr. 2. mgr. 11. gr. framhaldsskólalaga. Skóli X heyrir þannig stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og er stofnunin og forstöðumaður hennar því lægra sett stjórnvald gagnvart menntamálaráðherra. Hin kærða ákvörðun var tekin af skólameistara skóla X í máli þessu og hún er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins.

Á grundvelli 21. gr. framhaldsskólalaga hefur menntamálaráðherra gefið út aðalnámskrá framhaldsskóla, almennan hluta, nr. 229/2003, sbr. auglýsingu nr. 138/2004. Í kafla 11 í aðalnámskránni segir að leitast skuli við að leysa ágreiningsmál innan skóla. Ágreiningsmálum er varði einstaka nemendur og ekki leysist í samskiptum einstaklinga skuli vísað til skólaráðs. Veita skuli nemanda viðvörun áður en til refsingar komi nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem vegna brota á almennum hegningarlögum. Til fyllingar ákvæðum í aðalnámskrá er kveðið á um í 1. mgr. 22. gr. framhaldsskólalaga að hver framhaldsskóli setji sér skólanámskrá. Þar skal m.a. mælt fyrir um skólastarfið og reglur þar að lútandi. Samkvæmt 6. gr. skólareglna fyrir skóla X er óheimilt með öllu að neyta, varðveita eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna í húsum skólans. Þar segir jafnframt að brot á ákvæðinu varði tafarlausri brottvísun úr skólanum. Um birtingu skólareglna skóla X er áður fram komið að þær hafi verið kynntar nemendum með því að senda þær hverjum nemanda þegar umsókn um skólavist er samþykkt, auk þess sem þær hangi uppi í húsnæði skólans.

Eins og þegar hefur fram komið má rekja upphaf máls þessa til brottvikningar kæranda úr námi hjá kærða í kjölfar þess að lögregla handtók kæranda í herbergi hans á heimavist kærða að kvöldi 12. mars sl. en ætluð fíkniefni höfðu skömmu áður fundust á gangi en á honum eru þrjú herbergi, þ. á m. herbergi kærða. Auk þess höfðu fundist tæki til fíkniefnaneyslu skammt frá. Ummerki voru um meðhöndlun amfetamíns við handlaug í herbergi kæranda. Sýni sem var tekið úr vatnslás handlaugar veitti jákvæða svörun við amfetamínprófi lögreglu og stroksýni sem lögregla tók af enni kæranda morguninn eftir handtökuna mun hafa veitt jákvæða svörun við amfetamínprófi.

2.

Í málinu er deilt um lögmætar forsendur hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. hvort nægilega hafi verið í ljós leitt af hálfu kærða að kærandi hafi brotið gegn 6. gr. skólareglna þannig að háttsemi hans hafi varðað fyrirvaralausri brottvísun úr námi hjá kærða.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Af hálfu kæranda er því haldið fram að slíkur réttur hafi verið brotinn á honum þar sem honum hafi einungis verið veittur tveggja sólarhringa frestur til að koma að andmælum í aðdraganda að hinni kærðu ákvörðun en á þeim tíma hafi hann setið í gæsluvarðhaldi. Í athugasemdum við nefnt ákvæði í því lagafrumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum segir að reglunni sé ætlað að tryggja að aðili máls eigi kost á því að neyta andmælaréttar síns. Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð en að kærandi hafi neytt þessa réttar síns með greinargerð F, hdl., dags. 15. mars sl., sem barst kærða innan veitts frests til andmælaréttar.

Í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að tiltekið skuli í stjórnvaldsákvörðun um kæruheimild, þegar hún sé fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hinni kærðu ákvörðun hafi verið áfátt að þessu leyti. Að mati ráðuneytisins veldur þetta atriði ekki ógildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda nýtti kærandi sér kærurétt sinn innan lögboðins kærufrest skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Að mati kæranda var þessa ekki nægilega gætt við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu kærða til að rannsaka uppruna þeirra fíkniefna sem fundust á heimavist kærða 12. mars. sl. og ekki hafi verið rannsakað hvernig amfetamín hafi verið tilkomið í vatnslás í herbergi kæranda á heimavistinni. Að mati kæranda er talið að kærði hafi ekki getað á grundvelli fyrirliggjandi gagna í málinu komist að þeirri niðurstöðu að vísa beri kæranda úr skóla fyrir vörslu fíkniefna gegn eindreginni neitun hans og áður en dómstólar hafi fellt um það dóm. Kærandi vísar jafnframt til þess að lögregla á Y hafi haft fíkniefnafundinn til meðferðar en hætt rannsókn og ákveðið að mál yrði ekki höfðað á hendur kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna í málinu. Af þessu tilefni bendir ráðuneytið á að það er við mat á forsendum hinnar kærðu ákvörðunar ekki bundið af reglum laga um meðferð opinberra mála um sönnunarfærslu fyrir dómi á ætluðu broti kæranda gegn 6. gr. skólareglna kærða. Um mat á forsendum hinnar kærðu ákvörðunar fer því eftir rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Samkvæmt gögnum málsins fundust amfetamínleifar í vatnslás handlaugar í herbergi kæranda á heimavist kærða við húsleit á vegum lögreglu 12. mars sl. Telja verður að skólameistara kærða hafi, í ljósi aðstæðna á vettvangi, verið rétt að draga þá ályktun að hér væri um að ræða fíkniefni sem hafi sannanlega verið í vörslum kæranda. Þá kemur einnig fram í greinargerð lögmanns kærða að strokpróf sem lögregla tók af enni kæranda daginn eftir handtöku hafi veitt jákvæða svörun við amfetamíni. Lögmaður kæranda hefur í svörum sínum við andsvörum kærða 25. apríl sl. hafnað því að stroksýnið sé sönnun þess að kærandi hafi gerst brotlegur við 6. gr. umræddra skólareglna. Að mati ráðuneytisins verður ekki fram hjá því litið að umrætt stroksýni var tekið af kærða og að honum hafi verið kunnugt um niðurstöðu þess.

Eins og rakið er hér að framan í málavaxtalýsingu liggur fyrir lífssýnarannsókn á magni amfetamíns í blóðsýni því sem dregið var úr kæranda í kjölfar handtöku hans á heimavist kærða. Fyrir liggur endanleg ákvörðun ríkissaksóknara um að kærða verði ekki veittur aðgangur að upplýsingum um niðurstöðu rannsóknarinnar. Ljóst má vera að ef kærði hefði fengið heimild til að leggja fram upplýsingar um niðurstöður lífssýnarannsóknarinnar í máli þessu, hefðu þær getað varpað frekara ljósi á forsendur hinnar kærðu ákvörðunar. Ekki verður þó talið að forsendur hinnar kærðu ákvörðunar ráðist af aðgangi að þeim upplýsingum, enda lágu niðurstöður rannsóknarinnar ekki fyrir fyrr en nokkru eftir að hin kærða ákvörðun var tekin.

3.

Á kærða hefur verið lögð sú skylda að hafa umsjón með rekstri heimavistar og fara með agavald og eftirlit með íbúum heimavistarinnar, þ.e. nemendum sem eru allt frá 16 ára aldri, sbr. 2. mgr. 40. gr. framhaldsskólalaga. Í því felst m.a. að framfylgja 6. gr. í skólareglum kærða sem bannar nemendum að neyta, varðveita eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna í húsum kærða. Við framkvæmd slíks eftirlits og agavalds ber skólameistara í ljósi hagsmuna annarra nemenda að bregðast skjótt við ætluðum brotum á nefndri 6. gr. og leita allra leiða til þess að hindra frekari neyslu og vörslu ólöglegra vímuefna í húsum kærða, innan þeirra marka sem stjórnsýslulög setja.

Samkvæmt yfirlýsingu frá húsbónda sem liggur fyrir í málinu heyrðist mikill vatnsniður úr herbergi kæranda er húsbóndi og lögregla komu þar að. Þegar lögregla knúði í tvígang dyra á herberginu svaraði kærandi ekki. Húsbóndi opnaði þá með svonefndum masterslykli og hætti vatnsniðurinn þá og lögregla fór inn í herbergið. Skýringar hafa ekki fengist frá kæranda um ástæðu þess að hann opnaði ekki fyrir lögreglu. Vekur það athygli í ljósi þess að í greinargerð lögmanns kæranda kemur fram að kærandi hafi jafnan haft ólæstar dyr að herberginu. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að ummerki hafi verið um vatnsgang við handlaug í herbergi kæranda og því hafi grunur lögreglu beinst að því að fíkniefnum kynni að hafa verið skolað niður um vatnslás handlaugarinnar. Var sá grunur staðfestur með jákvæðri svörun sýnis úr vatnslásnum við amfetamínprófi. Af hálfu kæranda hafa verið bornar brigður á gildi sýnisins og því haldið fram að um hráka hafi getað verið að ræða sem einhver hafi skyrpt í vaskinn í kjölfar neyslu amfetamíns. Í ljósi ummerkja um mikið vatnsrennsli í gegnum vatnslásinn skömmu fyrir handtöku kæranda og að hann var einn í herberginu verður að telja þá skýringu ósennilega. Ennfremur í því ljósi, eins og fram kemur í framburði húsbónda heimavistarinnar hjá lögreglu 13. mars sl., að þrjú herbergi eru á þeim gangi er kærandi bjó og auk hans hafi einungis einn annar nemandi verið í herbergi sínu á umræddum gangi er lögreglan kom á staðinn. Að mati ráðuneytisins þykir fundur amfetamínleifa í vatnslásnum ásamt ummerkjum, um mikið vatnsrennsli styðja þá skýringu að kærandi hafi skömmu fyrir handtökuna haft í vörslum sínum amfetamín sem hann hafi reynt að skola niður þegar hann varð var ferða lögreglu. Kemur fram í gögnum málsins að merktri lögreglubifreið hafi verið lagt fyrir utan herbergi kæranda þegar lögregla kom á vettvang með þeim hætti að hann hefði getað orðið var ferða lögreglunnar og því haft ákveðið ráðrúm til að koma undan ólöglegum fíkniefnum sem voru í vörslu hans í herberginu.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan um fund lögreglu á amfetamínleifum í vatnslási í herbergi kæranda á heimavist kærða verður talið að nægilega hafi verið í ljós leitt að skólameistara hafi verið rétt að taka hina kærðu ákvörðun um brottvísun kæranda úr skólanum fyrir ætluð brot gegn 6. gr. skólareglna kærða..

Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun um brottvikningu E úr skóla X, sem tilkynnt var kæranda með bréfi skólameistara, dags. 19. mars sl., er staðfest.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum