Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 18/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. desember 2007

í máli nr. 18/2007:

Gróco ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 10. desember 2007, kærði Gróco ehf. þá ákvörðun Ríkiskaupa að taka tilboði Lyru ehf. í útboði nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

            „Í ljósi þess hve mikið ber á milli tilboða Gróco ehf. og Lyru ehf. má ætla að      það sé öllum aðilum til hagsbóta að innkaupaferlið verði stöðvað á meðan    beðið er eftir rökstuðningi kaupanda og viðbrögðum umbjóðanda Gróco ehf.             Þess er því farið á leit við kærunefnd útboðsmála að stöðva innkaupaferlið         samkv. 96. laga nr. 84/2007 þar til ljóst er hvaða forsendur lágu að baki vali           kaupanda.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi kærða, dags. 17. desember 2007, krafðist kærði þess að kröfu kæranda yrði hafnað.

            Með bréfi kæranda, dags. 17. desember 2007, bætti kærandi við kröfu um að ákvörðun kærða um val á tilboði yrði felld úr gildi en gerði áskilnað um frekari rökstuðning að fengnum frekari gögnum. Kærunefnd útboðsmála taldi að svo stöddu ekki nauðsyn á því að gefa kærða færi á að gera athugsemdir við þá kröfu kæranda.

 

I.

Hinn 7. desember 2007 tilkynnti kærði að tekið hefði verið tilboði Lyru ehf. í útboði nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH, þar sem tilboðið væri „hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt matslíkani útboðslýsingar“. Frekari rökstuðningur fylgdi ekki tilkynningunni. Hinn 14. desember 2007 sendi kærði nýja tilkynningu og tók fram að 10 daga frestur skv. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, byrjaði að líða frá þeim degi.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal tilkynna þátttakendum eða bjóðendum um ákvarðanir um val tilboðs eins fljótt og mögulegt er.  Þegar val tilboðs hefur grundvallast á öðrum forsendum en verði eingöngu skal í tilkynningunni koma fram nafn þess bjóðanda sem var valinn og upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Tilkynning kærða um val á tilboði í hinu kærða útboði fullnægði ekki skilyrðum 1. mgr. 75. gr. og óskaði kærandi því eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um val tilboðs, skv. 2. mgr. 75. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um hann barst kærða. Innkaupaferli útboðsins er lokið með vali á tilboði en samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laganna skulu líða a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Af ofangreindum ákvæðum 2. mgr. 75. gr. og 1. mgr. 76. gr. laganna er ljóst að ef kaupandi nýtir allan frestinn til þess að skila rökstuðningi en samþykkir hins vegar tilboð endanlega við fyrsta mögulega tækifæri þá mun samningur verða kominn á áður en bjóðandi fær fullnægjandi rökstuðning fyrir ákvörðun um val á tilboðinu. Hefur bjóðandi þá ekki möguleika á því að krefjast stöðvunar innkaupaferlis skv. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007. Við þessar aðstæður hefur bjóðandi þannig enga möguleika á því að taka ígrundaða afstöðu til ákvörðunar kaupanda og móta kæru til kærunefndar útboðsmála áður en endanlegur samningur kemst á.

            Tilgangur stöðvunarheimildarinnar í 1. mgr. 96. gr. laganna er að skapa möguleika á því að nýta heimildir nefndarinnar til að fella úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa að hluta eða í heild, en það verður almennt ekki gert eftir að bindandi samningur er kominn á. Hið nýja ákvæði 1. mgr. 76. gr. laganna á að auka möguleika bjóðenda til þess að fá ákvörðun um val tilboðs endurskoðað af kærunefnd útboðsmála, í stað þess að eiga eingöngu möguleika á að gera kröfu um skaðabætur. Kærunefnd útboðsmála telur ljóst að í lögum nr. 84/2007, og athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögunum, sé lögð mikil áhersla á að bjóðendur eigi raunhæfa möguleika á að gera kröfu stöðvun útboðs. Því sé ekki rétt að túlka lögin með þeim hætti að kaupandi hafi það í hendi sér hvort bjóðandi eigi möguleika á að meta ákvörðun um það hvort val á tilboði var lögmætt eða ekki með því að láta ófullnægjandi eða engan rökstuðning fylgja ákvörðuninni. Í athugasemdum kærða til nefndarinnar var ákvörðun um val á tilboði ekki rökstudd frekar og eingöngu vísað til þess að rökstuðningur yrði sendur hverjum bjóðanda fyrir sig hinn 17. desember 2007.

            Með hliðsjón af því að kærði uppfyllti ekki skyldu sína skv. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, og að miðað við fyrirliggjandi gögn virðast verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup telur nefndin rétt að stöðva samningsgerð í útboði nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH.

           

Ákvörðunarorð:

Gerð samnings í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH er stöðvuð.

 

                                                            Reykjavík, 17. desember 2007.

                                                              

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 17. desember 2007.

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn