Hoppa yfir valmynd
18. desember 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samningur menntamálaráðuneytis og Háskólans á Akureyri um kennslu og rannsóknir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Þorsteinn Gunnarsson rektor undirrituðu í dag á ársfundi Háskólans á Akureyri samning um kennslu og rannsóknir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Þorsteinn Gunnarsson rektor undirrituðu í dag á ársfundi Háskólans á Akureyri samning um kennslu og rannsóknir. Samningurinn er til þriggja ára, frá og með árinu 2008 til loka ársins 2010.

Framlög skólans voru hækkuð um 75 milljónir króna á fjárlögum ársins 2008 í tengslum við samninginn og munu hækka um 100 milljónir króna á ári 2009 og 2010. Alls verða því framlög til skólans hækkuð um 275 milljónir króna í tengslum við samninginn á tímabilinu.

Sameiginlegt markmið samningsaðila er að skapa forsendur fyrir því að HA öðlist viðurkenningu sem háskóli á heimsmælikvarða á skilgreindum fræðasviðum.

Til að ná fram þessu markmiði hyggjast menntamálaráðuneytið og HA vinna saman að margvíslegum áherslum á samningstímanum. Má þar nefna:

  • Að HA byggi upp öflugt og sveigjanlegt meistaranám í lifandi tengslum við annað nám í háskólanum.
  • Að HA efni til samstarfs við valda erlenda háskóla í tengslum við uppbyggingu náms, rannsóknir, rekstur og stjórnun.
  • Að HA hafi forystu um að byggja upp alþjóðlegt framhaldsnám og rannsóknir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa í samstarfi við öflug orku- og fjármálafyrirtæki og erlenda háskóla.
  • Að HA leiði þróun fjarnáms á Íslandi í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar og háskólasetur á landsbyggðinni. Markmiðið er að fjarnám við HA verði aðgengilegt sem flestum landsmönnum með tilskilinn undirbúning.
  • Að HA verði alþjóðleg miðstöð norðurslóðasamstarfs og taki forystu í þessum málaflokki á alþjóðlegum vettvangi. Í því samhengi rekur HA Rannsóknaþing norðursins og tekur þátt í nemendaskiptaáætlunum Háskóla norðurslóða.
  • Að HA leggi áherslu á yfirfærslu þekkingar milli skóla og atvinnulífs. Þannig hafi HA forgöngu m.a. með tilstuðlan þróunarfélagsins Þekkingarvörður um að komið verði á fót vísindagörðum á lóð háskólans fyrir fyrirtæki í þekkingaruppbyggingu sem starfi í náinni samvinnu við deildir háskólans.
  • Að HA leggi  áherslu á kennslu og rannsóknir í greinum sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf, m.a. sjávarútvegsfræði og auðlindanýtingu. Í þessu verkefni mun HA hafa náið samstarf við hagsmunaaðila í sjávarútvegi.


Á samningstímanum mun Háskólinn á Akureyri endurskoða skipulag háskólans í heild með það að markmiði að styrkja faglegan grundvöll fræðastarfseminnar.  Þannig verði skapaðar enn öflugri og sjálfstæðari megineiningar innan háskólans þar sem í boði er framúrskarandi nám og stundaðar eru rannsóknir sem skapa eftirsóknaverða þekkingu á alþjóðavísu.  Jafnframt mun HA halda áfram að byggja upp krefjandi og styðjandi námsumhverfi fyrir nemendur og starfa í virkum tengslum við samfélagið hvort sem er heima eða á heimsvísu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að með undirritun þessa samnings sé mikilvægi Háskólans á Akureyri í íslensku háskólaumhverfi undirstrikað. „Háskólinn á Akureyri hefur vaxið hratt og dafnað vel á síðustu árum og hefur stundum verið ævintýri líkast að fylgjast með þróun hans. Með þeim samningi sem nú hefur verið undirritaður er lagður grunnur að enn frekari eflingu skólans í framtíðinni sem mun nýtast íslenska fræða- og vísindasamfélaginu öllu.”

Þorsteinn Gunnarsson, fagnar niðurstöðum þessa samnings og telur að hér sé um merk tímamót að ræða fyrir uppbyggingu HA.  Hann segir samninginn  byggðan á  umfangsmikilli stefnumótun sem allar deildir og starfseiningar HA tóku þátt í og mjög árangursríkum viðræðum við fulltrúa menntamálaráðuneytis um markmið og leiðir.  „Samningurinn er mikilvægt tæki til að efla starfsemi HA enn frekar,” segir Þorsteinn og hann er „viðurkenning á þeirri miklu þýðingu sem fræðastarfsemi HA hefur fyrir íslenskt samfélag.”

Þorsteinn telur að þessi niðurstaða sé mikið fagnaðarefni fyrir háskólasamfélagið á Akureyri og „hún lýsi stórhug og metnaði menntamálaráðherra til áframhaldandi eflingar HA.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum