Hoppa yfir valmynd
20. desember 2007 Innviðaráðuneytið

Endurskoðun umferðarlaga undirbúin

Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða umferðarlögin í heild sinni. Núgildandi umferðarlög eru frá árinu 1987 með síðari breytingum.

Við endurskoðun laganna verður leitast við að færa lögin í nútímalegra horf í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á sviði umferðarmála á liðnum árum. Í því sambandi verður löggjöf annarra landa höfð til hliðsjónar og meðal annars skoðað hvort tekjutengja beri umferðarlagasektir í tengslum við endurskoðun á viðurlagaþætti umferðarlaga, reglur um ökunám og ökukennslu verða endurskoðaðar, og ennfremur sá möguleiki kannaður að setja áfengislása í bifreiðar til að koma í veg fyrir ölvunarakstur þeirra sem hafa gerst sekir um slík brot, svo nokkuð sé nefnt.

Ráðherra hefur skipað Róbert R. Spanó, prófessor og varaforseta lagadeildar Háskóla Íslands, formann nefndarinnar en Róbert hefur jafnframt verið formaður refsiréttarnefndar undanfarin ár.

Aðrir í nefndinni eru: Jón Haukur Edwald, tilnefndur af Ökukennarafélagi Íslands, Karl Ragnars, tilnefndur af Umferðarstofu, Gunnar Narfi Gunnarsson, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Ólafur Guðmundsson, tilnefndur af Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Kolbrún Sævarsdóttir, tilnefnd af embætti ríkissaksóknara og Signý Sigurðardóttir, tilnefnd af Samtökum verslunar og þjónustu.

Gert er ráð fyrir að nefndin taki til starfa þann 15. janúar 2008 og ljúki störfum í lok árs 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum