Hoppa yfir valmynd
21. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2007: Dómur frá 21. desember 2007

Ár 2007, föstudaginn 21. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 6/2007:

                                                           

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands

f.h. Félags skipstjórnarmanna

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna

vegna Samerja hf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 4. desember 2007.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Örn Höskuldsson.

 

Stefnandi er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, kt. 520169-2509, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Félags skipstjórnarmanna, kt. 680104-2550, sama stað.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík vegna Samherja hf., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi gerir þær dómkröfur að dæmt verði

  • að ákvæði 2. töluliðar ráðningarsamnings Samherja hf. við Guðmund Þ. Jónsson, um ráðningu til útgerðar í stað ráðningar í skipsrúm, sé ógilt.
  • að ákvæði 2. töluliðar ráðningarsamnings Samherja hf. við Guðmund Þ. Jónsson, um engan uppsagnarfrest í fyrsta mánuði ráðningar eða fyrstu veiðiferð ef hún stendur lengur en mánuð, sé ógilt.
  • að ákvæði 5. töluliðar ráðningarsamnings Samherja hf. við Guðmund Þ. Jónsson, um greiðslu veikindalauna í samræmi við vinnufyrirkomulag, sé ógilt.

Krafist er málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalmeðferð máls þessa, ef til hennar kemur.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Stefnandi kveður málavexti þá að um miðjan september 2006 hafi sjómönnum á skipum útgerðarfélagsins Samherja hf. verið kynnt að þeim væri ætlað að undirrita skrif­lega ráðningarsamninga við félagið. Ýmis ákvæði þessara samninga hafi komið sjó­mönnunum spánskt fyrir sjónir. Sérstaklega hafi vakið athygli að í stað þess að þeir væru ráðnir í skipsrúm þá hafi verið gert ráð fyrir að þeir réðust til starfa hjá út­gerðinni og veittu fyrir fram samþykki á tilfærslu milli skipa að vild útgerðarinnar.

Áhafnarmeðlimir á Baldvini Þorsteinssyni EA-10 hafi óskað eftir skýringu á þessu auk þess sem þeir hafi óskað svara við því hvaða áhrif slík ráðning hefði á laun þeirra sem vinna í skiptikerfi. Það er þegar fleiri en einn skipverji séu um eina stöðu á skipi þannig að þeir skiptist á um að fara á sjó og skipti jafnframt laununum á milli sín í hlutfalli við hvað hver skipverji rær. Eins hafi verið innt eftir áhrifum þessa fyrir­komulags á réttindi í veikindatilvikum, slysum og vegna trygginga. Þá hafi því og verið beint til útgerðarinnar að svara því hvaða áhrif það hefði ef þeir starfsmenn, sem þegar höfðu verið ráðnir á skip úgerðarinnar, neituðu að skrifa undir þessa ráðn­ingar­samninga.

Því síðastnefnda hafi verið svarað svo af hálfu útgerðinnar að þá yrði litið svo á að viðkomandi sjómaður óskaði ekki eftir starfi áfram. Jafnframt hafi stefndi gert skip­verjum sínum grein fyrir því að ráðningarsamningar þessir væru ekki um­semjanlegir um annað en dagsetningu upphafs ráðningar.

Með hliðsjón af þessum yfirlýsingum hafi skipverjar stefnda ritað undir þessa ráðningarsamninga. Upplýst sé að helmingur af þeim 180 sjómönnum sem starfa hjá stefnda, Samherja hf., hafi undirritað ráðningarsamninga þessa efnis. Þar á meðal þáverandi skipstjóri Baldvins Þorsteinssonar EA-10, Guðmundur Þ. Jónsson, sbr. framlagðan ráðningarsamning hans, dags. 10. febrúar 2006.

Fyrir hönd stefnanda, Sjómannasambands Íslands og Félags vélstjóra og málm­tækni­manna, sem tekið hafi yfir réttindi og skyldur Vélstjórafélags Íslands, hafi stefnda, Samherja hf., verið ritað bréf, dags. 9. október 2006, þar sem þess hafi verið krafist að félagið félli frá kröfum um að skipverjar undirgengjust þessa samn­ings­skilmála í ráðningarsamningum.  Því bréfi hafi verið svarað þann 31. október 2006 af hálfu Samtaka atvinnulífsins og Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h. út­gerð­ar­innar þar sem þeirri kröfu hafi verið hafnað. Jafnframt hafi verið óskað nánari skýringa á kröfugerð stefnanda, Sjómannasambands Íslands og Félags vélstjóra og málm­tæknimanna. Af þessu tilefni hafi Samtökum atvinnulífsins verið ritað annað bréf, dags. 6. desember 2006. Þar hafi verið áréttað að framkvæmd ráðningar far­manna, sem vísað hafði verið til af hálfu stefnda, gæti ekki markað grundvöll að réttar­stöðu áhafnarmeðlima stefnda og eins að túlkun stefnda á veikindarétti samkvæmt kjarasamningi, sem grundvallist á efnisákvæðum 36. gr. laga nr. 35/1985, standist ekki.  Stefndi hafi ekki látið neinn bilbug á sér finna og sé því óhjákvæmilegt að leita fulltingis Félagsdóms í máli þessu. Þó stefnandi standi að málsókn þessari einn stafi það einvörðungu af réttarfarshagræði en áðurgreindir aðilar, Sjó­manna­sam­band Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna, láti mál þetta einnig til sín taka fyrir hönd sinna félagsmanna og munu fylgja rétti þeirra eftir að dómi gengnum.

Mál vegna þessara ráðningarhátta stefnda var fyrst höfðað fyrir Félagsdómi með stefnu útgefinni af dómnum þann 26. apríl 2007, en málið var síðan þingfest þann 8. maí s.á. Krafist var ógildingar á samningsákvæðum ráðningarsamninga stefnda án þess að vísað væri til tiltekins ráðningarsamnings. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði Félagsdóms þann 27. júní 2007. Í forsendum Félagsdóms fyrir þeirri frávísun kom fram að kröfugerð sem sett væri fram með þeim hætti að krafist væri ógildingar á samningsákvæðum í ótilgreindum fjölda ráðningarsamninga væri of almenn til að geta verið grundvöllur dóms. Að auki taldi dómurinn ósamræmi milli kröfugerðar og málsástæðna þar sem kröfugerðin beindist að ákvæðum ráðningarsamninga en í málsástæðum væri sjónum fremur beint að ákvæðum á ráðningarsamningseyðublaði stefnda.

Að úrskurði Félagsdóms gengnum hafi stefnandi leitast við að bæta úr þeim annmörkum sem dómstóllinn taldi vera á málatilbúnaðinum. Hafi stefndi látið stefnanda í té ráðningarsamning Guðmundar Þ. Jónssonar og sé stefnanda því unnt að bæta úr þeim annmörkum sem Félagsdómur taldi vera á fyrri málshöfðun. Er stefnanda brýn nauðsyn á að fá leyst úr sakarefni máls þessa enda virðist fleiri aðildarfélög stefnda, Samtaka atvinnulífsins, hafa í hyggju að taka upp sams konar ráðningarmáta, eins og framlagt ráðningarsamningseyðublað Síldarvinnslunnar hf. beri með sér.

 

Dómkrafa stefnanda

Á því er byggt af hálfu stefnanda að í þeim atriðum sem talin séu í þremur liðum í dómkröfu fái efnisákvæði ráðningarsamninga stefnda ekki samrýmst viðeigandi ákvæðum kjarasamnings. Þetta eigi beinlínis við um ráðningarsamning Guðmundar Þ. Jónssonar. Þessi efnisákvæði ráðningarsamningsins séu einhliða ákvörðuð af stefnda eins og sjáist af samanburði við ráðningarsamningseyðublað stefnda, sem skipverjum hafi verið gert að fallast á að viðlögðum brottrekstri. Dómkrafa stefnanda miði að því að fá staðfest ógildi þessara ákvæða í samræmi við 7. gr. laga nr. 80/1938 þar sem þau fari í bága við kjarasamning stefnanda og Samtaka atvinnulífsins og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þegar þessum ákvæðum ráðningarsamningsins hafi verið rutt úr vegi gildi ákvæði kjarasamnings óskert. Ótvírætt sé þannig að stefnda beri að ráða skipverja sína í skipsrúm, beri að virða ákvæði kjarasamnings um uppsagnarfrest frá upphafi ráðningar og beri að virða ákvæði kjarasamnings um laun í veikindaforföllum.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður mál þetta lúta að ágreiningi um túlkun og eða efndir  kjara­samnings og eigi því undir dómsvald Félagsdóms, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Á því sé byggt af hálfu stefnanda að hann sé lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna, sbr. 5. gr. laga nr. 80/1938.  Leggja beri þessa stað­reynd til grundvallar við úrlausn máls þessa enda hafi stefndi gert kjarasamninga við stefnanda sem eigi við um kjör þeirra félagsmanna stefnanda sem starfi hjá stefnda Samherja hf., þar með talið Guðmund Þ. Jónsson. Af þeim samningi sé stefndi bundinn og starfsmenn hans. Sá kjarasamningar hafi að geyma lágmarkskjör sem stefndi eða einstakir starfsmenn geti ekki vikið frá með einstaklingsbundnum ráðn­ingarsamningum, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938. Það sé ekki háð huglægri afstöðu einstakra félagsmanna hvort þeir samningar séu í hávegum hafðir eða frá þeim vikið og það sé ekki heldur háð huglægri afstöðu einstakra félagsmanna hvort stefnandi láti samningagerð sem fari í bága við lágmarkskjör til sín taka, eftir atvikum með málsókn, til að stemma stigu við brotum gegn kjarasamningnum.

Efnisatriði þau sem stefndi hafi ákveðið einhliða í ráðningarsamningi við Guðmund Þ. Jónsson og aðra skipvera sína, sem dómkröfur stefnanda lúti að, séu ósamrýmanlegar kjarasamningi og feli í sér brot á honum.  Ákvörðunarvaldi stefnda um efnisatriði ráðningarsamninga séu settar skorður, m.a. í 7. gr. laga nr. 80/1938 eins og áður geti.  Stefnda sé þannig ekki tækt að skjóta sér á bak við það að skipverjar hafi fallist á samningsákvæðin.  Bæði sé að skipverjar hafi átt fárra kosta völ og eins sé einmitt tilvitnuðu lagaákvæði ætlað að stemma stigu við réttaráhrifum kúgunar af því tagi sem stefndi hafi beitt, sbr. einnig 4. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi byggir á því að með því að boða starfsmönnum, sem þegar voru í ráðn­ingar­sambandi við stefnda er hin nýju ráðningarsamningseyðublöð voru kynnt, að gengju þeir ekki að þeim afarkostum yrði litið á það sem uppsögn af þeirra hálfu, hafi stefndi farið gegn ákvæði 4. gr. laga nr. 80/1938.  Starfsmennirnir hafi þannig sætt þvingun er varði afstöðu þeirra til stéttarfélagsmálefna og hugsanlegrar vinnudeilu. Slíka nauðung megi ekki líða, enda eigi fyrrgreint ákvæði að koma í veg fyrir slíkt brot af hálfu atvinnurekanda. Breyti engu í þessum efnum þó einstaka starfsmaður hafi látið sér vel líka.

Það sé ekki svo, að mati stefnanda, að útgerðum sé falið vald til einhliða breyt­inga á atvinnuhögum einstakra félagsmanna með flutningi úr einu skipsrúmi í annað á grund­velli fyrirframgefins samþykkis.  Stefndi hafi þegar hótað félagsmönnum stefn­anda starfsmissi riti þeir ekki undir afarkosti stefnda.  Að mati stefnanda sé ekkert sem bendi til annars en að stefndi muni á sama hátt flytja menn milli skipsrúma, til dæmis úr góðu plássi í slakt, að geðþótta ef þeir dirfist að sýna í einhverju höfðingja­djörfung.

Verði nú vikið að málsástæðum er lúti að hverri dómkröfu fyrir sig.

 

Það ráðningarfyrirkomulag sem kveðið sé á um í 2. tölulið ráðningarsamninga Samherja hf.við Guðmund Þ. Jónsson um ráðningu hans til útgerðar standist ekki.

Kjarasamningur aðila geri ótvírætt ráð fyrir ráðningu í tiltekið skipsrúm en ekki til útgerðar. Það að ætla skipverja að undirgangast skriflega ráðningarsamninga um annað stríði gegn kjarasamningnum, auk þess sem það sé sjálfstætt brot á lögum nr. 80/1938 að standa að þvingunum í þá átt ef um slíkt er að ræða. Tilvitnað ákvæði ráðningarsamnings stefnda fari gegn lögbundnum lágmarksréttindum og sé ógilt, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938.  Í þeim efnum verði ekki á samningunum byggt skipverjum til tjóns. Jafnvel ekki þó huglæg afstaða skipverjanna kynni að standa til þess að efna ráðningarsamninga af þessu tagi í samræmi við efni þeirra. Slíkt samþykki fyrir ólögmætum ákvæðum fái ekki staðist né ljái ákvæðunum gildi.  

Þessi brot feli í sér frávik frá kjarasamningsbundnum lágmarkskjörum sem stefn­anda sé bæði rétt og skylt að halda upp á stefnda.  Þannig sé stefnda óheimilt að taka ein­hliða upp það fyrirkomulag að ráða skipverja til stefnda sem útgerðar en ekki sem skip­verja á tiltekið skip og áskilja sér jafnframt fyrir fram samþykki við­komandi skipverja, óskilyrt í raun, fyrir tilflutningi milli skipa að einhliða hentugleikum stefnda, sbr. 2. tölulið ráðningarsamningseyðublaðs og ráðningarsamnings Guðmundar Þ. Jónssonar.

Ákvæði gildandi kjarasamninga um störf skipverja taki mið af þeirri staðreynd að um „skipverja“ sé að ræða.  Réttindi einstakra félagsmanna stefnanda séu við það bundin að vera skipverji á tilteknu skipi en ekki sjómaður hjá tilgreindri útgerð.  Öll lög­gjöf um réttindi og skyldur sjómanna sé að sama skapi í takt við þessa staðreynd. Sé þannig jafnan gert ráð fyrir því að sjómenn séu ráðnir á skip sem skipverjar. Hér sé í raun um forna samningsháttu milli útgerðarmanna og sjómanna að ræða sem við líði hafi verið í raun mun lengur en kjarasamningar og landslög hafi kveðið á um þetta. Standi hugur stefnda eða hagsmunasamtaka útvegsmanna til þess að knýja á um breytingar á þessu grundvallaratriði verði það ekki gert með slíkri einhliða framgöngu sem hér um ræðir heldur aðeins með samningum við stefnanda og önnur hags­muna­samtök sjómanna og eftir atvikum einnig með því að óska breytinga á lögum.

Frá sjónarhóli stefnanda sé hér um umsamið grundvallaratriði að ræða í kjara­samn­ingi enda ein meginforsendan fyrir launakerfi sjómanna, sem byggi á hluta­skiptum aflans, að fyrir liggi við ráðningu til hvaða starfa á tilteknu skipi verið sé að hverfa. Hlutaskipti aflans sé veigamesti þátturinn í launakerfi sjómanna, sbr. lög nr. 24/1986. Það ráði úrslitum fyrir sjómenn sem leggi stund á fiskveiðar að ganga ekki gruflandi að því á hvaða skip þeir séu ráðnir, svo misjöfn séu kjörin eftir skipum. Einnig geti það líka ráðið úrslitum, um afstöðu einstakra félagsmanna stefnanda til þess hvort þeir vilja samþykkja gerðan kjarasamning eða ekki hverju sinni, á hvern veg samið sé í slíkum samningum um þá veiðitegund sem þeir leggi stund á. Alger­lega ólíðandi sé fyrir félagsmenn stefnanda, sem hjá stefnda starfa, að vera í óvissu um það við atkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, hvaða breytingar í þeim samningi muni taka til réttarstöðu þeirra næstu árin.  Hvort þeim sé óhætt að taka afstöðu til breytinga á kjörum sjómanna sem leggi stund á uppsjávarveiðar, loðnu og síld t.d., eða hvort einnig þurfi að gefa gaum að breyt­ingum hjá þeim sem leggi stund á bolfiskveiðar á ísfiskveiðiskipum eða frysti­togurum.  Miklu geti munað á kjörum þessara sjómanna.  Sé þar fyrst til að nefna fjár­hæð launa en einnig framkvæmd vinnunnar, hversu erfið hún sé. Þá skipti vinnutími einnig máli, það er að segja hvernig úthaldi skips sé háttað.  Allt séu þetta atriði sem leyst sé úr með kjarasamningi.

Í kjarasamningum sjómanna sé ótvírætt að réttarstaða sjómanna miðist við að þeir séu skipverjar á tilteknu skipi. Það að ætla að kveða á um svokallaða útgerðarráðningu stríði þannig í raun gegn kjarasamningnum sem slíkum fremur en að brotið sé beint gegn einstökum ákvæðum samninga. Nefna megi í dæmaskyni ákvæði 1.01 í kjara­samningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins og Far­manna og fiskimannasambands Íslands en þar segi um gildissvið samningsins að hann gildi fyrir öll skip sem gerð séu út til tiltekinna veiða.  Aðrir kjarasamningar sjómanna séu sama marki brenndir, eins og til dæmis kjarasamningur sá sem Sjómannasamband Íslands eigi aðild að en þar sé beint til þess vísað að ákvæði kjarasamninga um ákvörðun launa taki öll mið af því á hvaða skipi viðkomandi sjómaður sé skipverji, sbr. ákvæði 1.02 fyrrgreinds samnings.  Þá megi að sama skapi vísa til ákvæða I. kafla kjara­samnings um laun vélstjóra og vélavarða. 

Í þessum efnum ráði ekki úrslitum til hvaða stöðu skipverji sé ráðinn heldur fyrst og fremst á hvaða skip ráðið sé. Það sé velþekkt staðreynd að misvel geti fiskast milli skipa, misjafnt sé hve fisknir menn séu. Eins sé það velþekkt að misgóður andi ríki um borð í skipum eins og á öðrum vinnustöðum en lund áhafnar geti hins vegar skipt höfuðmáli þegar um langt úthald skips sé að ræða. Það lýsi í raun í hnotskurn, hve að persónufrelsi félagsmanna stefnanda sé þrengt með þessu samningsákvæði, að menn geti án eigin atbeina endað sem skipverjar á einhverju ólundarfleyi þar sem helst engum sé vært.

Með hliðsjón af framanrituðu byggir stefnandi á því að það sé grundvallaratriði að ráðningarsamningur við skipverja sé skipsrúms­samn­ingur, eins og skýrt sé kveðið á um í 1. málsgrein greinar 1.11 í kjarasamningi máls­aðila, sbr. einnig 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Að sama brunni beri í raun flestar reglur þeirra laga sem og fjölmargar reglur annarra laga sem bein áhrif hafi á réttindi sjómanna.  Eins megi vísa í 2. málsgrein greinar 1.11 í nefndum kjara­samningi þar sem heimilað sé að ráða félagsmann stefnanda tímabundinni ráðningu „enda sé það tekið fram þegar lögskráð er“.

Tilvitnuð ákvæði kjarasamnings séu einnig í góðu samræmi við ákvæði laga.  Megi þar nefna sem dæmi ákvæði 4. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna sem geri ráð fyrir því að skipverjar séu ráðnir á tiltekin skip en ekki á öll skip til­tekinnar útgerðar.  Sé þar tekið fram að skylt sé að lögskrá í skipsrúm í hvert sinn sem nýr maður eða áhöfn sé ráðin á skip.  Að sama brunni beri í lögum nr. 24/1986 um skipta­verðmæti og greiðslumiðlun og í siglingalögum nr. 34/1985 sem miðist við þá stað­reynd að sjómenn séu ráðnir á tiltekið skip, og séu skipverjar.  Lögfesting þessa, að sjómenn séu ráðnir í skipsrúm en ekki til útgerðar, sé ekki tilviljanakennt fum heldur séu brýnir hagsmunir því tengdir, sbr. til dæmis 1. tölulið 197. gr. laga nr. 34/1985 þar sem sjóveðréttur sé tryggður fyrir launakröfum skipverja ef misbrestur verði á launagreiðslum.

Sé skipverjum brýnt að geta tekið almenna afstöðu til kjara sinna á grundvelli þess sem kunni að vera samið um í kjarasamningum. Þá sé enn brýnna fyrir þá að geta tekið afstöðu til eigin ráðningarsamningsbundinna kjara með hliðsjón af eigin lífs­afkomu og framfærslumöguleikum. Undir venjulegum kringumstæðum sé skip­verja unnt að taka ákvörðun um ráðningu á tiltekið skip með tilliti til veiðireynslu skipsins liðna mánuði og misseri. Hann geti metið hvað komið hafi í hlut áhafnar af afla­verðmætinu. Telji hann tvísýnt um að afla nægra tekna á viðkomandi skipi eigi hann val um að hafna gerð ráðningarsamnings og hverfa til annarra starfa. Þennan val­möguleika eigi skipverji ekki sem ráðinn sé útgerðarráðningu eins og þeirri sem stefndi hafi knúið á um.

Viðbára um að gerð skriflegs ráðningarsamnings sé tilefni þessara breytinga á ráðn­ingarkjörum skipverja sé ekki tæk. Skriflegir ráðningarsamningar séu og hafi lengi verið ótvíræð skylda lögum samkvæmt. Þá skyldu að gera skriflega ráðningarsamninga hafi stefndi vanrækt. Það að bæta úr því gefi ekkert færi á útgerðarráðningu.

Þá sé stefnda ekki heldur tækt að vísa til réttarstöðu farmanna máli sínu til stuðnings enda sé þar mjög ólíku saman að jafna.  Nægi þar að nefna að óumdeilt ætti að vera að launakerfi farmanna og fiskimanna sé í grundvallaratriðum ólíkt.

Vegna ofangreindra grundvallaratriða fái ákvæði 1. málsgreinar 2. töluliðar ráðn­ingar­samnings stefnda við Guðmund Þ. Jónsson um útgerðarráðningu ekki staðist og sé ógilt samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938.

 

Ákvæði um engan uppsagnarfrest fyrsta mánuðinn eða fyrstu veiðiferðina sé andstætt kjarasamningi

Stefnandi byggir á því að ákvæði 2. mgr. 2. töluliðar ráðningar­samnings stefnda við Guðmund Þ. Jónsson og aðra skipverja um engan uppsagnarfrest fyrsta mánuðinn eða fyrstu veiðiferðina, ef hún sé lengri en mánuður, sé ógilt samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938 þar sem það brjóti gegn kjarasamningi.

Lágmarksuppsagnarfrestur félagsmanna stefnanda sé þrír mánuðir, sbr. 3. mgr. greinar 1.11 í kjarasamningi aðila, og sama eigi við samkvæmt ákvæði 1.22 kjara­samn­ings vélstjóra á fiskiskipum en samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambandsins sé uppsagnarfrestur undirmanna að minnsta kosti 7 dagar. Þess sjái hvergi stað í kjara­samningi að svigrúm sé til einhvers tilraunatímabils. Fyrrgreint uppsagnarákvæði ráðning­arsamnings Guðmundar Þ. Jónssonar fari því ljóslega gegn þeim rétti sem þegar sé tryggður í kjara­samningum félagsmanna stefnanda. Ákvæðið sem slíkt sé ólögmætt en einnig liggi fyrir að þetta samningsákvæði sé af hálfu stefnda sett einhliða í alla ráðningarsamninga sjómanna sem starfa hjá stefnda.

Telji stefndi rök standa til einhvers tilraunatímabils eða reynslutíma þá sé það efni sem aðilar vinnumarkaðarins ættu að taka upp í viðræðum sín á milli og leysa úr með samningum. Jafnframt yrði samhliða að beina til löggjafans að breyta lögum til sam­ræmis. Stefnda sé ekki tækt, öndvert við kjarasamning og lög, að knýja breytingu sem þessa einhliða í gegn né heldur með samningum við einstaka skipverja eins og Guðmund Þ. Jónsson, sbr. fyrrgreinda 7. gr. laga nr. 80/1938.

 

Ákvæði ráðningarsamnings um fyrirkomulag greiðslu veikindalauna fari í bága við kjarasamning

Stefnandi byggir á því að ákvæði 5. töluliðar ráðningarsamnings stefnda við Guðmund Þ. Jónsson, þar sem kveðið sé á um veikindarétt, víki í veigamiklum atriðum frá því sem umsamið sé í kjarasamningum og sé því ógilt með vísan til 7. gr. laga nr. 80/1938.

Í veikinda- og slysatilvikum skuli, samkvæmt kjarasamningi stefnanda og annarra hags­munasamtaka sjómanna, greiða full laun í samræmi við 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. gr. 1.21 í samningi stefnanda og Sjómannasambands Íslands og 1.29 í samningi vélstjóra. Samkvæmt því skuli skipverji ekki missa neins í af launum sínum í allt að tvo mánuði vegna óvinnufærni, sjúkdóms eða slyss.  Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast taki hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Hafi skipverji verið lengur en tvö ár samfellt á sama skipi eða hjá sama út­gerð­armanni skuli hann, auk fyrrgreinds, eiga rétt til fastra launa, kauptryggingar eða sér­staklega umsamins veikindakaups í allt að þrjá mánuði til viðbótar. Þessar reglur lag­anna, sem séu hluti af kjarasamningi aðila, séu hlutlægar og þeim sé beitt eins hjá öllum sem veikjast og eins í öllum veikindatilvikum.

Samkvæmt ráðningarsamningi stefnda og Guðmundar Þ. Jónssonar sé hins vegar gert ráð fyrir því að veikindaréttur sé í samræmi við vinnufyrirkomulag hvers sjómanns. Sé þar kveðið á um að veikindalaun greiðist í samræmi við vinnufyrirkomulag og að skipverji fái greidd laun fyrir þær veiðiferðir sem hann missi af. Sýnist stefndi byggja á einhvers konar skaðabótasjónarmiðum í þessum efnum, það er að segja ef skipverji sé í svo­kölluðu skiptimannakerfi, til dæmis þannig að hann rói einn túr en eigi frí þann næsta, eins og raunin sé í tilviki Guðmundar, þá fái hinn veiki skipverji aðeins greiðslu fyrir þann tíma sem reiknað var með að hann væri á sjó en ekki í frítúrum. Þessi túlkun ráðningarsamningsins sé áréttuð í svarbréfi stefnda til sjómanna. Að mati stefnanda fari slík túlkun á veikindarétti beinlínis gegn kjarasamningsbundnum lágmarksrétti.

Um sé að ræða umsamin og lögbundin réttindi sem stefnda sé ekki tækt að semja sig undan, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938.  Réttindi þessi séu umsamin, hlutlæg og fyrirsjáanleg. Þau taki mið af tímalengd veikindaforfalla viðkomandi sjómanns en hafi ekkert með hlutaskiptakerfi að gera eða róðrarmynstur að öðru leyti.  Markmið kjara­samningsins og löggjafans sýnist fyrst og fremst hafa þann félagslega tilgang að tryggja hinum óvinnufæra fullvissu um afkomu sína á fyrstu vikum og mánuðum veikinda með gagnsæjum, hlutlægum reglum. Skaðabótaréttarsjónarmið um tjóns­tak­mörkun og rauntjón eigi ekki við á sviði vinnuréttar. Slíkar fullyrðingar af hálfu stefnda sýnist byggjast á misskilningi vegna vinnulags tryggingafélaga við afmörkun tjóns slasaðra sjómanna. Um slíkar greiðslur fari samkvæmt lögum nr. 50/1993, sbr. grein 1.23 í kjarasamningi málsaðila. Ólíku sé hér saman að jafna og úr því hafi þegar ítrekað verið leyst fyrir dómstólum.

Stefnda sé ekki tækt að breyta þessu ákvæði kjarasamnings einhliða frekar en öðrum og beri því einnig að ógilda ráðningarsamning stefnda við áhafnarmeðlimi sína í þessum efnum.  

Málsókn sína styður stefnandi við lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem og meginreglur vinnuréttar og samningaréttar um skuldbindingagildi samninga. Þá byggir stefnandi á sjómannalögum nr. 35/1985, siglingalögum nr. 34/1985, lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 og lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins nr. 24/1986. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti á mál­flutn­ings­þóknun er studd við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að efni ráðningarsamnings brjóti hvorki gegn ákvæðum kjarasamnings aðila né lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og styður kröfu sína við meginreglur samningaréttar og 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Dómkröfur stefnanda um ógildingu tilgreindra atriða persónubundins ráðningarsamnings útiloki að Félagsdómur dæmi um önnur framlögð eyðublöð að ráðningarsamningum, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 og 111. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framlagðri álitsgerð snúist ágreiningur stefnanda og stefnda einkum um túlkun á sjómannalögum nr. 35/1985 en ekki um efnisákvæði kjarasamninga sjómannasamtakanna við LÍÚ og SA. Ágreiningur um efni persónubundins ráðningarsamnings eigi því undir almenna dómstóla en ekki Félagsdóm og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Mótmælt er tilhæfulausum aðdróttunum og dylgjum í stefnu í garð útgerðarinnar um að skipverjum hafi verið settir afarkostir og verið þvingaðir til að skrifa undir ráðningarsamning og hótað brottrekstri ella. Í því sambandi sé vísað til svars starfsmannastjóra útgerðarinnar þar sem tekið sé fram að það sé stefna útgerðarinnar að fylgja lögum og láta alla hafa skriflega ráðningarsamninga þar sem það sé lögbundin skylda útgerðarmanna að útbúa og gera skriflega ráðningarsamninga við skipverja sína.  Þá sé tekið fram að þeir sem ekki vilji skrifa undir eyðublaðið sem var sent um borð séu beðnir að koma til starfsmannastjóra svo þau geti rætt saman og leyst málið. Engum þeirra skipverja sem hafi ekki skrifað undir ráðningarsamning hafi verið sagt upp störfum.

 

Um ráðningu á ótilgreind skip útgerðar

Því er mótmælt að ráðningarfyrirkomulag, sem tilgreint sé í 2. tölulið framlagðs ráðningarsamnings, brjóti gegn ákvæðum kjarasamnings stefnanda. Krafa stefnanda byggist á órökstuddum fullyrðingum og vangaveltum í löngu máli í stefnu. Engar vísbendingar séu um annað en Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri hafi gert samninginn af fúsum og frjálsum vilja. Guðmundur hafi starfað til sjós í að minnsta kosti 20 ár og þar af verið skipstjóri undanfarin ár svo starfs hans vegna séu honum vel kunn ákvæði kjarasamninga og sjómannalaga. Væri haldið fram að Guðmundur hafi verið þvingaður til að skrifa undir ráðningarsamninginn eða samningurinn teldist ósanngjarn gæti það varðað við 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Í því tilviki væri komið út fyrir verksvið Félagsdóms samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938 og bæri að höfða slíkt mál fyrir almennu dómstólunum.

Þar sem dómkröfur snúi að ógildingu á tilteknum ákvæðum í ráðningarsamningi Guðmundar Þ. Jónssonar verði ekki dæmt um ráðningarsamninga annarra. Sé því mótmælt að verið sé að hafa af honum lögbundin og kjarasamningsbundin réttindi.  Samkvæmt samningnum sé Guðmundur ráðinn sem skipstjóri á skip útgerðarinnar og starfaði á Baldvin Þorsteinssyni þegar samningurinn var gerður en sé nú á Vilhelm Þorsteinssyni samkvæmt framlögðu lögskráningaryfirliti. Með samþykki um tilfærslu milli skipa útgerðarinnar við nánar tilteknar aðstæður sé ekki ætlun stefnda að þeyta mönnum á milli skipa að ástæðulausu heldur myndu skipverjar geta færst á milli skipa útgerðar án þess að það þurfi formlega að segja þeim upp starfi á skipinu sem þeir voru á áður. Stefndi telur þetta veita skipverjum aukið starfsöryggi þar sem réttindi miðist við starf hjá útgerðinni en séu ekki eingöngu bundin við starf á tilgreindu skipi.  Í gögnum máls sé getið tilviks þar sem ráðning til útgerðar hafi veitt skipverjum betri rétt en ef ráðning hefði verið bundin við skipið. Var þar um að ræða mikið tjón og langt stopp Akureyrinnar vegna bruna um borð sem hefði getað leitt til slits skiprúmssamninga samkvæmt 26. gr. sjómannalaga. Til stuðnings heimildar til ráðningar á ótilgreind skip útgerðar vísar stefndi til dóma hæstaréttar í málunum nr. 294/2000, 202/2004 og 499/2004.

 

Um ráðningu til einnar ferðar

Ákvæði um uppsagnarfrest í 2. tölulið ráðningarsamnings eigi ekki við um Guðmund vegna starfsaldurs hans en séu í fullu samræmi við heimildir í grein 1.11. í kjarasamningi og 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt kjarasamningnum og 9. gr. sjómannalaga sé aðilum ráðningarsamnings veitt heimild til að semja um uppsagnarfrest en geri þeir það ekki öðlast yfirmaður rétt til 3 mánaða uppsagnarfrests frá fyrsta degi. Í stað þess að gera ráðningarsamning til einnar ferðar og annan til lengri tíma, ef skipverji héldi áfram störfum um borð, hafi stefndi ákveðið að samræma það í einn samning á þann veg að skipverji væri ráðinn til einnar ferðar og starfi hans lyki án uppsagnar eftir eina ferð. Héldi skipverji áfram starfi um borð teldist hann ráðinn ótímabundið og öðlist rétt til uppsagnarfrests samkvæmt því sem væri 3 mánuðir samkvæmt 3. mgr. gr. 1.11. í kjarasamningi. Væri það ekki síður til hagsbóta fyrir skipverja að geta losnað úr skiprúmi eftir eina ferð líki honum ekki starfið. Að öðrum kosti þyrfti hann að vera áfram um borð og segja starfi sínu lausu með 3 mánaða fyrirvara.

 

Um greiðslu veikindalauna

Varðandi launagreiðslur vegna óvinnufærni af völdum sjúkdóms eða meiðsla sé í 5. tölulið ráðningarsamningsins vísað til sjómannalaga og kjarasamninga og sé því ranglega haldið fram af stefnanda að verið sé að víkja frá kjarasamningsbundnum réttindum. Í 1. mgr. greinar 1.21. í kjarasamningi sé vísað til 36. greinar sjómannalaga varðandi launagreiðslur í veikindum. Í 36. gr. sjómannalaga sé tekið fram að skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla skuli einskis í missa í launum vegna óvinnufærninnar. Í ráðningarsamningnum sé staðfest að skipverji skuli halda sömu launatekjum og hann hefði haft ef hann hefði verið heill heilsu. Samkvæmt 36. gr. á skipverji hvorki að tapa né græða launalega séð og miðist útfærsla og skýringar í ráðningarsamningi við það. Því til stuðnings sé vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 3/1993 þar sem segir: „Í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem hér reynir á, segir meðal annars, að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, sem hann verður fyrir, meðan á ráðningartíma stendur, skuli hann „eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd þó ekki lengur en tvo mánuði.“  Lagaákvæðið sé svo afdráttarlaust að það verði eigi skilið öðruvísi en svo, í því samhengi, sem hér reyni á, að stefndi eigi rétt til þeirra launa, sem hann hefði fengið greidd fyrir að gegna starfi sínu áfram, ef veikindi hefðu ekki gert hann ófæran til þess.“

Stefndi styður kröfur sínar við meginreglur vinnuréttar og samningaréttar.  Stefndi vísar jafnframt til 44. og 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, 111. gr. laga nr. 91/1991, 1., 6., 9., 10. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna, 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Krafa um málskostnað er studd við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Dómkröfur stefnanda lúta að ógildingu tilgreindra ákvæða í ráðningarsamningi, dags. 10. febrúar 2006, milli Guðmundar Þ. Jónssonar skipstjóra, sem er félagsmaður í Félagi skipstjórnarmanna, og stefnda, Samherja hf. Í ráðningarsamningi þessum er tekið fram að Guðmundur Þ. Jónsson starfi sem skipstjóri á Baldvini Þorsteinssyni EA-10. Tilgreint er í samningnum að ráðning Guðmundar hjá stefnda, Samherja hf., hafi byrjað 3. janúar 1987, en handritað við þá dagsetningu “6/11 86”. Samkvæmt stefnu beinast kröfur stefnanda að þremur ákvæðum í greindum ráðningarsamningi. Í fyrsta lagi er þess krafist að ákvæði í 2. tölulið ráðningarsamningsins um ráðningu til útgerðar í stað ráðningar í skipsrúm verði ógilt. Það ákvæði samningsins hljóðar orðrétt svo: “Skipverji er ráðinn til útgerðar og samþykkir tilfærslur milli skipa útgerðarinnar ef breytingar verða á rekstrarfyrirkomulagi, breytingar verða á skipastól útgerðarinnar eða vegna samdráttar.” Í öðru lagi krefst stefnandi þess að ógilt verði ákvæði í 2. tölulið ráðningarsamningsins um engan uppsagnarfrest í fyrsta mánuði ráðningar eða fyrstu veiðiferð ef hún stendur lengur en mánuð. Þetta ákvæði samningsins hljóðar orðrétt svo: ”Enginn uppsagnarfrestur er á fyrsta mánuði eða fyrstu veiðiferð, ef ferðin er lengri en mánuður.” Í þriðja lagi varða kröfur stefnanda ógildingu á ákvæði 5. töluliðar ráðningarsamningsins um greiðslu veikindalauna í samræmi við vinnufyrirkomulag. Það ákvæði samningsins hljóðar orðrétt svo: “Veikindalaun greiðast í samræmi við vinnufyrirkomulag og fær skipverji greidd laun fyrir þær veiðiferðir sem hann missir af vegna óvinnufærninnar.”

Af hálfu stefnanda er á því byggt að greind ákvæði umrædds ráðningarsamnings fari í bága við viðeigandi ákvæði kjarasamnings aðila, sbr. kjarasamning, dags. 30. október 2004, milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hins vegar, er gildir til 31. maí 2008 og fellur þá úr gildi án uppsagnar. Af þeim sökum telur stefnandi að ógilda beri þau samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938 þar sem svo sé mælt fyrir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá. Stefnandi sé lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938 og hafi gert greindan kjarasamning við stefnda sem stefndi sé bundinn af. Sá samningur hafi að geyma lágmarkskjör sem stefndi eða einstakir starfsmenn geti ekki vikið frá með einstaklingsbundnum ráðningarsamningum. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að öll greind ákvæði ráðningarsamningsins standist gagnvart ákvæðum kjarasamningsins, sbr. og tilvísanir stefnda til tilgreindra dóma Hæstaréttar Íslands og ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985.

Varðandi fyrsta álitaefnið, ráðningu til útgerðar, vísar stefnandi til þess að kjarasamningur aðila geri ótvírætt ráð fyrir ráðningu í tiltekið skipsrúm, en hér sé um grundvallaratriði að ræða og ein meginforsendan fyrir launakerfi sjómanna (hlutaskiptakerfi). Vísað er í dæmaskyni til greina 1.01. og 1. mgr. 1.11., auk þess sem vísað er til tilgreindra ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985 og dóma Hæstaréttar Íslands. Fram er komið af hálfu stefnanda að í raun stríði “útgerðarráðning” gegn kjarasamningnum sem slíkum fremur en um sé að ræða að brotið sé beint gegn einstökum ákvæðum kjarasamningsins. Af hálfu stefnda kom fram við munnlegan málflutning að ráðning ótilgreint á skip væri “nýbreytni”. Engu að síður byggir stefndi á því að umrætt ákvæði ráðningarsamningsins brjóti ekki í bága við ákvæði kjarasamnings aðila. Guðmundur Þ. Jónsson hafi gert umræddan ráðningarsamning af fúsum og frjálsum vilja og er því mótmælt að höfð hafi verið af honum lögbundin og kjarasamningsbundin réttindi. Þvert á móti veiti “útgerðarráðning” aukið starfsöryggi.

Hvað snertir annað álitaefnið, þ.e. engan uppsagnarfrest fyrsta mánuð ráðningar eða vegna fyrstu veiðiferðar sé hún lengri, vísar stefnandi til 3. mgr. greinar 1.1. í kjarasamningnum, þar sem lágmarks uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir. Stefndi bendir á að greint ákvæði ráðningarsamningsins hafi ekki þýðingu í tilviki Guðmundar Þ. Jónssonar vegna starfsaldurs hans. Að öðru leyti er byggt á því að umrætt ákvæði sé í fullu samræmi við heimildir í grein 1.11. í kjarasamningnum og 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 svo sem nánar er rökstutt.

Að því er varðar þriðja álitaefnið, þ.e. greiðslu launa í veikindum í samræmi við vinnufyrirkomulag, vísar stefnandi til greinar 1.21. í kjarasamningnum, sbr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem vísað sé til í greindu ákvæði kjarasamningsins. Veikindaréttur taki mið af tímalengd veikindaforfalla viðkomandi sjómanns, en hafi ekkert með hlutaskiptakerfi eða róðrarmynstur (skiptimannakerfi) að gera. Af hálfu stefnda er því mótmælt að með greindu ákvæði ráðningarsamningsins sé vikið frá kjarasamningsbundnum réttindum, sbr. túlkun stefnda á 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, svo sem nánar greinir, og tilvitnaðan dóm Hæstaréttar Íslands.

Eins og kröfugerð stefnanda er háttað í máli þessu er til úrlausnar hvort tilgreind ákvæði í ráðningarsamningi Samherja hf. við Guðmund Þ. Jónsson skipstjóra fari í bága við kjarasamning og séu því ógild samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938.

Víkur þá að úrlausn fyrstnefnda ágreiningsefnisins, sem lýtur að því hvort greint ákvæði 2. töluliðar umrædds ráðningarsamnings um ráðningu til útgerðar, brjóti í bága við ákvæði kjarasamningsins. Eins og fram er komið er tilfærsla milli skipa útgerðar háð takmörkunum og bundin við breytingar á rekstrarfyrirkomulagi, breytingar á skipastóli útgerðarinnar eða vegna samdráttar.  Eins og stefnandi viðurkennir raunar er ekki fyrir að fara neinu ákvæði í kjarasamningnum sem berum orðum kveður á um tilhögun ráðningar að þessu leyti. Hins vegar má taka undir það með stefnanda að kjarasamningurinn í heild beri þess merki að gengið sé út frá ráðningu í ákveðið skipsrúm. Sama er raunar að segja um ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. m.a. II. kafla laganna um ráðningarsamninga o.fl., en ákvæði laga þessara geta skipt máli við túlkun kjarasamningsins og einstakra ákvæða hans. Þá er viðurkennt af hálfu stefnda, eins og fyrr getur, að almennt hafi verið ráðið í skipsrúm á fiskiskipum en ekki til útgerðar, sbr. þá “nýbreytni” sem stefndi kvað við munnlegan flutning málsins felast í hinu umdeilda ráðningarfyrirkomulagi. Eins og stefnandi bendir á ræður launakerfi sjómanna á fiskiskipum (hlutaskiptakerfi) hér miklu um, en grundvallarreglan við launareikning þeirra hefur frá upphafi og fram til síðustu ára byggst á hlutaskiptum og er þar um að ræða vanagróið kerfi frá fornu fari. Það hefur því afgerandi þýðingu fyrir sjómenn á fiskiskipum á hvaða skip þeir ráða sig. Um skiptaverðmæti sjávarafla til hlutaskipta er nú fjallað í I. kafla laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Þá þykir ástæða til að vísa til þess að í dómum Hæstaréttar Íslands frá 1. febrúar 2001 í málinu nr. 294/2000 (H 2001:333), frá 25. nóvember 2004 í málinu nr. 202/2004 (H 2004:4529) og frá 2. júní 2005 í málinu nr. 499/2004 (H 2005:2332) er því slegið föstu að samkvæmt sjómannalögum sé meginreglan sú að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skipsrúm. Samkvæmt þessu, og í samræmi við kjarasamning aðila og óumdeilda framkvæmd hans að þessu leyti, verður að fallast á það með stefnanda að umrætt ákvæði ráðningarsamningsins um “útgerðarráðningu” brjóti í bága við kjarasamninginn. Það þykir frekast styðja þessa niðurstöðu að svo er sérstaklega umsamið milli Samtaka atvinnulífsins og Félags skipstjórnarmanna, sbr. grein 2.1.1 í gildandi kjarasamningi þessara aðila frá 11. maí 2004, að skipstjórnarmenn á farþegaskipum og flutningaskipum, þar sem aðstæður eru aðrar og ólíkar, séu ráðnir til útgerðar. Telja verður að ráðning í skipsrúm sé slík grundvallarforsenda ráðningar fiskimanna að ekki sé tilefni til samanburðar á því hvort “útgerðarráðning” feli í sér lakari kjör en hin fyrrnefnda ráðningartilhögun, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Að svo vöxnu máli ber að taka kröfu stefnanda til greina varðandi fyrsta lið dómkrafna hans.

Krafa stefnanda um ógildingu ákvæðis 2. töluliðar ráðningarsamningsins sem kveður á um engan uppsagnarfrest fyrsta mánuð ráðningar eða vegna fyrstu veiðiferðar sé hún lengri, hefur enga þýðingu að því er varðar Guðmund Þ. Jónsson sem starfað hefur hjá stefnda í 20 ár. Ber því að vísa þeim kröfulið sjálfkrafa frá dómi.

Í 5. tölulið ráðningarsamnings stefnda við Guðmund Þ. Jónsson segir að um orlof, frí og veikindi fari samkvæmt sjómannalögum og kjarasamningi. Í 1. mgr. greinar  1.21. í kjarasamningi segir að verði yfirmaður frá störfum vegna veikinda eða slysa skuli útgerðarmaður greiða honum full laun samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Í 36. gr. sjómannalaga segir að skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla skuli einskis í missa í launum vegna óvinnufærninnar. Af hálfu stefnanda þykir ekki koma nægilega skýrt fram, að því er varðar Guðmund Þ. Jónsson sérstaklega, með hvaða hætti ákvæði 5. töluliðar ráðningarsamningsins um greiðslu veikindalauna í samræmi við vinnufyrirkomulag fer í bága við lágmarksrétt hans til launa í veikindum samkvæmt lögum og kjarasamningi. Að svo komnu þykir ekki unnt að leggja dóm á þennan kröfulið og verður honum vísað frá dómi án kröfu, sbr. e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda  málskostnað sem ákveðst 250.000 kr.

       

D Ó M S O R Ð:

Ákvæði 2. töluliðar ráðningarsamnings Samherja hf. við Guðmund Þ. Jónsson, um ráðningu til útgerðar í stað ráðningar í skipsrúm, er ógilt.

Kröfum stefnanda um ógildingu á ákvæði 2. töluliðar ráðningarsamningsins, um engan uppsagnarfrest fyrsta mánuð ráðningar eða vegna fyrstu veiðiferðar sé hún lengri og um ógildingu á ákvæði 5. töluliðar ráðningarsamningsins um greiðslu veikindalauna í samræmi við vinnufyrirkomulag, er vísað frá Félagsdómi.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna Samherja hf., greiði stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, f.h. Félags skipstjórnarmanna, 250.000 kr. í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Örn Höskuldsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum