Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Góður árangur af alltiljos.is

Jóhanna Sigurðardóttir og Gissur Pétursson
Jóhanna Sigurðardóttir og Gissur Pétursson

Vinnumálastofnun hefur nú skilað til félags- og tryggingamálaráðherra greinargerð um átaksverkefnið alltiljos.is. Um var að ræða þriggja mánaða átak stofnunarinnar til að framfylgja ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, laga um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, og laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007. Verkefnið telst nú formlega lokið en Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að sú reynsla sem fengist hafi af því muni nýtast vel við næstu skref í eftirlitsstörfum stofnunarinnar með erlendu vinnuafli og skráningu þess.

Veitingahús skoðuð næst

Gissur hefur greint ráðherra frá því að þegar hafi verið ráðinn starfsmaður hjá stofnuninni til frambúðar til að stýra eftirlitsstörfum. Með honum munu starfa þrír starfsmenn á skrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík en jafnframt munu þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar um allt land sinna eftirlitsstörfum eftir efnum og ástæðum. Ákveðið hefur verið ákveðið að skoða næst, í samvinnu við lögreglu, fyrirtæki í verslun og þjónustu (einkum veitingahús) og hefst það verkefni í byrjun mars.

 

Góður árangur

Meðan á átakinu stóð heimsóttu starfsmenn Vinnumálastofnunar 124 vinnustaði þar sem starfsmenn 267 fyrirtækja voru við störf. Flestir vinnustaðirnir eru á höfuðborgarsvæðinu. Vinnustaðaheimsóknir á stærri byggingarstaði fólust einkum í því að ná tali af aðalverktaka og fá nafnalista með öllum undirverktökum og starfsmönnum á byggingarstað. Talsvert var um að óskráðir einstaklingar kæmu í ljós í kjölfar vinnustaðaeftirlitsins, tvær starfsmannaleigur voru skráðar í kjölfar eftirlitsferða og tvö þjónustufyrirtæki komu upp á yfirborðið. Að minnsta kosti ein starf­s­manna­leiga fór í „tiltekt“ sem tengist átakinu. Ýmsar aðrar vísbendingar eru um að starfs­mannaleigur og þjónustufyrirtæki hafi vandað sig meira við skráningu vegna átaksins.

Starfsfólki stofnunarinnar var víðast hvar vel tekið og telur Vinnumálastofnun að almennt sé ástandið gott hjá stærri byggingafyrirtækjum hvað skráningarmál varðar.

Alls hafa um 90 fyrirtæki fengið áminningarbréf í tengslum við átakið vegna óskráðra erlendra starfsmanna. Í kjölfarið hafa 30 fyrirtæki fengið sent bréf þar sem þau voru beitt dagsektum. Að sögn Gissurar eru sum þeirra í innheimtu um þessar mundir.

 

Stöðugur eftirrekstur

Þrátt fyrir að átaksverkefninu sé lokið segir Gissur nauðsynlegt að hafa í huga að eftirrekstur Vinnumálastofnunar um skráningar erlendra starfsmanna sé ekki verkefni sem tekur enda. Stöðugt bætast við nýir einstaklingar og sem dæmi nefnir hann fjölda umsókna um kennitölur til Þjóðskrár en í október voru þær 1.375, í nóvember 789 og í desember voru þær 516.

 

Samstarf Vinnumálastofnunar og verkalýðshreyfingarinnar betra og verkaskipting skýrari

Samstarf Vinnumálastofnunar við verkalýðshreyfinguna hefur gengið mjög vel undanfarna mánuði og einnig hefur verið lögð aukin áhersla á virk samskipti við iðnfélögin í landinu. Starfsmenn stofnunarinnar og verkalýðsfélaganna hafa farið í allmargar sameiginlegar vinnustaðaheimsóknir undanfarnar vikur og það hefur gefist vel að mati Gissurar. Þá sé verkaskipting skýrari við úrvinnslu mála. Þá var á meðan átakinu stóð komið á auknum samskiptum við skattrannsóknarstjóra og hefur það embætti brugðist vel við ábendingum Vinnumálastofnunar.

Þótt átakinu alltiljos.is sé nú lokið mun eftirlitsstarf Vinnumálastofnunar, sem hefur það að markmiði að tryggja að eftir leikreglum vinnumarkaðarins sé farið, halda áfram af fullum þrótti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum