Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2008 Innviðaráðuneytið

Rætt um kosti og galla 2+1 og 2+2 vega

Kostir og gallar svo sem öryggismál og kostnaður 2+1 vega og 2+2 vega voru til umfjöllunar á morgunverðarfundi Slysavarnaráðs í gær. Frummælendur fjölluðu um efnið og rætt var um það í pallborði.

Á Hringveginum í Svínahrauni er 2+1 vegarkafli.
Á Hringveginum í Svínahrauni er 2+1 vegarkafli.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn í upphafi og dró fram ýmsar tölur um slys. Sagði hann rúmlega milljón manns látast árlega í heiminum í umferðarslysum. Árin 1966 til 2004 hafi 956 manns látist í umferðarslysum á Íslandi og hann sagði ekki hægt að sætta sig við slíkar staðreyndir.

Ráðherrann sagði margt hafa áunnist í umferðaröryggismálum og hann sagði að taka þyrfti upp nýja ,,H”-hugsun í umferðarmálum sem hann sagði vera:

  • Hreyfanlegri umferð.
  • Hagkvæm umferð.
  • Hrein umferð.
  • Hindrunarlaus umferð.
  • Hættulaus umferð.

Haraldur Sigþórsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun, fjallaði um 2+1 vegi sem öruggan og ódýran valkost. Vísaði hann í góða reynslu frá Svíþjóð og sagði að við val á mögulegum kostum yrði að huga að vegakerfinu í heild. Sagði hann 2+1 veg geta annað 15 til 20 þúsund bíla umferð og 2+2 veg 45 til 55 þúsund bílum. Sagði hann dýrmætan tíma hafa tapast án þess að nokkuð hefði gerst í vegabótum á Suðurlandsvegi og taldi að nýta fjármuni í vegagerð þannig að sem mest fengist gert fyrir þá.

Steinþór Jónsson, formaður Samstöðu og FÍB, fjallaði um efnið 2+2-reiknum dæmið til enda. Hann spurði í upphafi hvort við hefðum efni á að tvöfalda ekki í ljósi fækkunar slysa sem fengist með slíkum vegi. Hann kvaðst ekki andvígur 2+1 vegum þar sem þeir ættu við og minnti á að búið væri að ákveða að ráðast í gerð 2+2 vegar milli Selfoss og Reykjavíkur. Hann sagði það hafa kostað baráttu að fá yfirvöld til að fara í tvöföldun Reykjanesbrautar og nú Suðurlandsvegar en engum hefði verið stillt upp við vegg né þrýstingi beitt.

Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, fjallaði um banaslys á árunum 1998 til 2007. Sagði hann um 70% banaslysa á þessum árum hafa orðið á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut, ekkert banaslys þó á Reykjanesbraut síðustu árin eftir að hluti hennar var tvöfaldaður. Hann sagði brýnast að aðskilja aksturssstefnur til að draga úr hættu á framanáárekstrum og hvert ár sem það verk tefðist hefði fleiri alvarleg slys og banaslys í för með sér.

Undirbúningur stendur yfir

Í framhaldi af þessu má upplýsa að Vegagerðin hefur síðustu misserin unnið að undirbúningi að tvöföldun Suðurlandsvegar. Vegagerðinni var á vormánuðum 2007 falið að hefja undirbúning að tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar í samræmi við samgönguáætlun 2007 til 2010. Undir liðnum sérstök fjáröflun eru árin 2008 til 2010 markaðir alls kringum þrír milljarðar króna á ári til þessara verkefna.

Fyrsta skrefið hefur verið að ganga frá skipulagsmálum sem viðkomandi sveitarfélög annast. Er þar meðal annars fjallað um mögulegar veglínur og fjölda og gerð vegamóta. Í framhaldi af því verður unnt að meta umhverfisáhrif og vinna að hönnun og ákvarða tilhögun fjármögnunar. Hefjast framkvæmdir ekki fyrr en þessi atriði öll eru til lykta leidd.

Sjá má frétt og glærur frá ráðstefnunni á vef Lýðheilsustöðvar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum