Hoppa yfir valmynd
5. mars 2008 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um töku sýna vegna ölvunaraksturs

Undirrituð hefur verið reglugerð um töku sýna og rannsókn á þeim, vegna grunsemda um akstur undir áhrifum vímuefna. Reglugerðin mætir brýnni þörf sem myndast hafði á því að setja slíkar reglur.

Í kjölfar atburðar í umdæmi Lögreglustjórans á Selfossi síðastliðið haust, þar sem notast var við þvaglegg til að taka sýni úr ökumanni sem grunaður var um ölvun við akstur fór af stað umræða um nauðsyn þess að að setja reglur um töku sýna og rannsókn vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.

Í framhaldi af umræðum um þetta mál á Alþingi var skipaður starfshópur til að semja drög að reglugerð. Starfshópurinn hélt 7 fundi og var í þeirri vinnu m.a. leitast við að smíða drög, þar sem skýrt kæmi fram hlutverk og verksvið þeirra sem koma að töku sýna.

Reglugerðardrögin voru sett á vef samgönguráðuneytisins til kynningar í janúar og bárust 3 athugasemdir. Farið var yfir athugasemdirnar og þær að nokkru leyti teknar til greina.

Í reglugerðinni sem nú hefur verið undirrituð af samgönguráðherra er m.a. kveðið á um að sannreyna skuli áhrif vímuefna á ökumann með mildari hætti en töku blóðsýnis sé þess kostur. Þvagsýni skuli ekki tekið ef beita má öðrum vægari úrræðum.

Þá er kveðið á um það að læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur skuli annast töku blóð- og þvagsýnis. Aðrar rannsóknir og klínískt mat skuli framkvæmdar af lækni. Við töku sýnis skulu notaðar viðurkenndar aðferðir og sýni tekið í lokuðu rými, sé þess kostur. Þá skal gæta þess að ekki séu aðrir viðstaddir en nauðsyn ber til og valdi sé ekki beitt nema öryggisjónarmið krefjist þess.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum