Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2008 Innviðaráðuneytið

Húsaleigubætur hækkaðar í fyrsta sinn frá árinu 2000

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, undirritaði í dag reglugerð sem kveður á um hækkun húsaleigubóta frá og með 1. apríl 2008. Húsaleigubætur hafa ekki hækkað frá árinu 2000. Einnig mun ríkið nú í fyrsta skipti koma að greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

Samkvæmt reglugerðinni hækka grunnbætur húsaleigubóta um 69%, úr 8.000 krónum í 13.500 krónur, bætur vegna fyrsta barns hækka um 100%, úr 7.000 krónum í 14.000 krónur og bætur vegna annars barns hækka um 42%, úr 6.000 krónum í 8.500 krónur. Hámarkshúsaleigubætur hækka þar með um 15.000 krónur eða um 48% og geta hæstar orðið 46.000 krónur í stað 31.000 krónur áður. Hækkunin tekur gildi frá og með 1. apríl síðastliðnum en húsaleigubætur hækkuðu síðast árið 2000.

Í samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um hækkun húsaleigubóta er einnig kveðið á um þátttöku ríkisins í greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Sveitarfélög eru hvött til að taka upp sérstakar húsaleigubætur og rýmka skilyrði fyrir sérstökum húsaleigubótum svo þær nái til fleiri heimila. Hámarksgreiðsla almennra og sérstakra húsaleigubóta gæti þar með orðið 70.000 krónur í stað 50.000 króna áður. Ríkið kemur nú í fyrsta sinn að greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

Áætlaður árlegur viðbótarkostnaður vegna þessara aðgerða er um 620 milljónir króna vegna húsaleigubóta og um 100 milljónir króna vegna sérstakra húsaleigubóta. Samkomulag er um að ríkissjóður greiði 60% af heildarkostnaði vegna hækkunarinnar og sveitarfélögin 40%.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum