Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra ávarpaði aðalfund Aðstandendafélags aldraðra (AFA)

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði aðalfund Aðstandendafélags aldraðra sem haldinn var í Hafnarfirði 10. apríl síðastliðinn.

Ráðherra ræddi þar stefnu sína í málefnum aldraðra og framtíðarsýn og lýsti þeim breytingum sem urðu á skipulagi málaflokksins um áramótin. Ráðherra sagði meðal annars að þetta væru löngu tímabærar breytingar sem fælu í sér tækifæri til að byggja upp breytta og betri þjónustu við aldraða í landinu og fjallaði í því samhengi um flutning lögbundinnar þjónustu við aldraða til sveitarfélaga: „Það er orðið viðurkennt að skipulag málaflokksins hefur staðið í vegi fyrir framförum og bættri þjónustu. Ábyrgðin hefur verið dreifð og í ýmsum efnum óskýr. Þar sem ekki hefur farið saman ábyrgð á þjónustu gagnvart einstaklingum, ábyrgð á uppbyggingu ólíkra þjónustuúrræða og fjárhagsleg ábyrgð á því að nýta ávallt þau úrræði sem best þjóna þörfum hvers og eins og eru hagkvæmust fyrir samfélagið í heild.

Hér má nefna sem dæmi að sveitarfélögin bera ábyrgð á uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða og einnig á félagsþjónustu, til dæmis heimaþjónustu, en ríkið er ábyrgt fyrir heimahjúkrun og stofnanaþjónustu. Fjárhagslega njóta sveitarfélögin ekki ávinnings af því að byggja þjónustu sína þannig upp að hún styðji aldraða til þess að búa sem lengst í sjálfstæðri búsetu. Þvert á móti leggur það aukinn kostnað á herðar þeirra en sparar aftur á móti útgjöld ríkisins sem minna þarf þá að leggja til stofnanaþjónustunnar. Það segir sig sjálft að svona fyrirkomulag hvetur til notkunar dýrustu úrræðanna sem er þjóðhagslega óhagkvæmt. Það sem verra er þá felur þetta fyrirkomulag í sér brotakennda þjónustukeðju og stríðir gegn yfirlýstri stefnu og almennum vilja þess efnis að öldruðum skuli gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili með viðeigandi stuðningi og þjónustu.

Með flutningi lögbundinnar þjónustu við aldraða til sveitarfélaga verður hlutverk félags- og tryggingamálaráðuneytisins skýrara og mun þá fyrst og fremst snúast um að móta stefnu í málaflokknum, skilgreina faglegar kröfur til þjónustunnar í lögum og reglugerðum og sjá til þess að eftir þeim sé farið.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra á aðalfundi AFA



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum