Hoppa yfir valmynd
30. maí 2008 Innviðaráðuneytið

Nýr Herjólfur smíðaður í eiginframkvæmd ríkisins á næstu tveimur árum

Ríkisstjórnin hefur að tillögu samgönguráðherra ákveðið að falla frá hugmyndum um smíði Vestmannaeyjaferju í einkaframkvæmd. Í stað þess verði smíði ferju boðin út með hefðbundnum hætti og í framhaldi af því verði rekstur hennar boðinn út sérstaklega.

Forsaga málsins er sú að í ágúst í fyrra fól samgönguráðherra Siglingastofnun Íslands að annast útboð í einkaframkvæmd á ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og fyrirhugaðrar Landeyjahafnar í Rangárþingi eystra. Var það í samræmi við gildandi samgönguáætlun. Skyldi verktaki byggja ferju samkvæmt nánari skilgreiningu og annast rekstur hennar í 15 ár.

Fjórum aðilum var gefinn kostur á að bjóða í verkið að undangengnu forvali. Tveir ákváðu að skila ekki tilboði en tilboð bárust frá Samskipum hf. annars vegar og hins vegar sameiginlega frá Vinnslustöðinni hf. og Vestmannaeyjabæ (V&V). Tilboð Samskipa uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsgagna og var dæmt ógilt. Tilboð V&V var talið gilt en auk aðaltilboðs bárust nokkur frávikstilboð.

Ekkert tilboðanna þótti viðunandi vegna kostnaðar og var þeim hafnað en ákveðið að fara í samningsviðræður við V&V. Niðurstaðan er sú að aðaltilboðið er 45% hærra en kostnaðaráætlun Siglingastofnunar og frávikstilboðið um 30% hærra. Almenn regla Siglingastofnunar er að taka ekki tilboðum sem eru 10% hærri en kostnaðaráætlun.

Í ljósi þessa er talið rétt að leggja á hilluna allar hugmyndir um einkaframkvæmd á Vestmannaeyjaferju þar sem telja má aðstæður á lánamörkuðum þeirri aðferð mjög óhagstæðar um þessar mundir. Í stað þess verði Siglingastofnun Íslands falið að bjóða út smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju með hefðbundnum hætti í eiginframkvæmd ríkisins. Síðar verði rekstur ferjunnar boðinn út á sama hátt og gert hefur verið undanfarin ár.

Talið er að smíði nýrrar ferju taki um tvö ár. Ný lög um Landeyjahöfn voru samþykkt á Alþingi í nótt. Hafnargerðin og lagning nýs Bakkafjöruvegar eru í útboðsferli og verða tilboð opnuð þann 5. júní.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum