Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Lítil breyting á spilahegðun Íslendinga frá árinu 2005

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar á spilahegðun Íslendinga á árinu 2007, sem unnin var fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið, spiluðu 67% fullorðinna peningaspil a.m.k. einu sinni síðustu 12 mánuði áður en könnunin var gerð.
Forsíða á skýrslu um spilahegðun Íslendinga árið 2007
Skýrsla um spilahegðun og algengi spilavanda meðal fullorðinna Íslendinga árið 2007.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar á spilahegðun Íslendinga á árinu 2007, sem unnin var fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið, spiluðu 67% fullorðinna peningaspil a.m.k. einu sinni síðustu 12 mánuði áður en könnunin var gerð. Vinsælustu peningaspilin voru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar og spilakassar. Flestir sögðust spila peningaspil til að styðja gott málefni, ánægjunnar vegna eða til að græða peninga. Þegar niðurstöður um spilahegðun fyrir árin 2005 og 2007 eru bornar saman kemur í ljós að almennt hafa orðið tiltölulega litlar breytingar á spilahegðun Íslendinga á þessu tímabili.

Dr. Daníel Þór Ólason, lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands, vann könnunina og skýrslu um hana undir heitinu Spilahegðun og algengi spilavanda meðal fullorðinna Íslendinga árið 2007 fyrir nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á sviði happdrættismála. Könnunin byggðist á tilviljunarúrtaki 5000 Íslendinga á aldrinum 18 til 70 ára úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 63,4%.

Um 15% Íslendinga spiluðu peningaspil á netinu árið 2007, langflestir á íslenskum vefsíðum þar sem hægt er að spila í Lottó eða giska á úrslit í fótbolta eða öðrum íþróttum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu um 1,6% landsmanna spilað peningaspil á erlendum vefsíðum árið 2007 en tæplega 0,4% sögðust hafa spilað á slíkum síðum árið 2005. Netpóker er vinsælasta gerð peningaspila sem spiluð eru á erlendum vefsíðum.

Niðurstöður sýna að 1,6% þjóðarinnar töldust eiga við spilavanda að stríða og er vandinn algengari meðal karla en kvenna. Gera má ráð fyrir að á bilinu 2.500-4.400 Íslendingar á aldrinum 18-70 ára eigi í verulegum vandræðum vegna þátttöku sinnar í peningaspilum. Algengi hugsanlegrar spilafíknar reyndist vera 0,3% og er það svipað og niðurstöður rannsókna sýna annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum Evrópulöndum, en heldur minna en í Norður-Ameríku og Ástralíu. Samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2005 og 2007 sýndi að hvorki hefur orðið breyting á algengi spilafíknar né spilavanda á þessu tímabili.

Skýrsla um spilahegðun og algengi spilavanda meðal fullorðinna Íslendinga árið 2007.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira