Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Löggjöf um stöðu líffæragjafa

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra um að ráðist verði í gerð lagafrumvarps til að styrkja réttarstöðu lifandi líffæragjafa, einkum til að bæta tekjumissi og mæta kostnaði einstaklinga sem hlotist getur af líffæragjöf.

Vinnuhópur um stöðu lifandi líffæragjafa sem skipaður var af félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra skilaði skýrslu sinni í apríl síðastliðnum. Verkefni hópsins var að kanna stöðu lifandi líffæragjafa, einkum með tilliti til greiðslna vegna tímabundinnar óvinnufærni eftir líffæragjöf.

Reynslan hefur sýnt að einstaklingar sem lýst hafa sig fúsa til að gefa nýra hafa sumir ekki treyst sér til þess af fjárhagslegum ástæðum segir í skýrslu hópsins. Skýringin er nær undantekningarlaust launamissir vegna fjarvista frá vinnu í kjölfar aðgerðarinnar en einnig getur komið til kostnaður vegna ferða og læknisþjónustu.

Niðurstaða vinnuhópsins er sú að bæta þurfi réttarstöðu þeirra sem gefa líffæri með því að tryggja þeim tímabundna fjárhagsaðstoð ef þeir verða fyrir missi tekna vegna líffæragjafar. Lagt er til að sett verði sérstök löggjöf um það hvernig greiðslum til líffæragjafa skuli háttað. Hafa megi til hliðsjónar þær reglur sem fram koma í lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þannig að tekjutengdar greiðslur til líffæragjafa nemi 80% af meðaltali heildarlauna og að hámarksfjárhæð tekjutengda greiðslna í hverjum mánuði nemi aldrei hærri fjárhæð en 518.600 krónum á mánuði. Þá er lagt til að tekjutengdar greiðslur standi aldrei lengur en í þrjá mánuði.

Heilbrigðir einstaklingar geta gefið nýra og hluta lifrar og hefur nýrnagjöfum af því tagi fjölgað mikið síðustu ár. Til þessa hefur verið unnt að mæta þörf íslenskra sjúklinga fyrir ígræðslu nýrna og má aðallega þakka það háu hlutfalli lifandi gjafa. Hins vegar er fyrirsjáanlegt að sjúklingum sem þarfnast nýrnaígræðslu muni fjölga á næstu árum og hætt við að ónógt framboð á nýrum til ígræðslu muni standa í vegi fyrir meðferð. Meðal annars í ljósi þess er mikilvægt að bæta réttindi líffæragjafa og auka stuðning við þá.

Skjal fyrir Acrobat ReaderSkýrsla vinnuhóps um stöðu lifandi líffæragjafa með niðurstöðum og tillögum (PDF, 61KB)Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira