Hoppa yfir valmynd
9. júní 2008 Innviðaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um leiguakstur

Til umsagnar eru drög að frumvarpi til laga um leiguakstur.

Hjá samgönguráðuneytinu hafa verið unnin drög að frumvarpi til laga um leiguakstur sem ætlað er að leysa af hólmi lög nr. 134/2001 um leiguakstur og reglugerð nr. 397/2003 með síðari breytingum um sama. Tilefni endurskoðunarinnar voru ýmsar kvartanir og ábendingar sem borist hafa um gildandi lagaumhverfi, bæði frá hagsmunaaðilum innan stéttarinnar, umboðsmanni Alþingis og Samkeppniseftirlitinu.

Við samningu frumvarpsins var leitast við að setja reglur sem tæku mið af þörfum þjóðfélagsins til þjónustunnar og fagmennsku á þessu sviði. Einnig að gera reglur um starfsemina skýrari svo sem um skilyrði, leyfisveitingar, undanþágur og eftirlit, auk aðgerða vegna brota.

Meðal helstu breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:

  • Tvennskonar leyfi, atvinnuleyfi og helgarleyfi
  • Orðskýringar ýmissa hugtaka sem koma fyrir í frumvarpinu
  • Felld út heimild til að fela sveitarstjórnum framkvæmd leigubílamála enda hefur sú heimild ekki verið notuð
  • Einstök verkefni Vegagerðarinnar sem framkvæmdaaðila talin upp
  • Heimild til nýta leigubifreiðina í forföllum miðuð við ákveðinn dagafjölda á ári og aðferð við nýtingu heimildarinnar breytt
  • Ákvæði um nýtingu atvinnuleyfis skýrara, meðal annars skylda að hafa bifreiðina í akstri á ákveðnum tímum um helgar
  • Ítarlegri ákvæði um leigubifreiðastöðvar, skilyrði og hlutverk, skylt að hafa símaþjónustu um helgar og að veita leyfishöfum afgreiðslu, ítarleg ákvæði um heimild til uppsagnar
  • Breytingar á skilyrðum fyrir atvinnuleyfi, meðal annars fellt út skilyrði um eignarhald bifreiðar og bætt við að umsækjandi hafi ekki gerst brotlegur við tiltekin lög og tilkynnt rekstur til skattstjóra
  • Skýrar kveðið á um að starfsemin er leyfisskyld og brot gegn því séu refsiverð
  • Skýrari ákvæði um brottfall og sviptingu leyfa og málsmeðferð
  • Skýrar greint á milli eftirlits Vegagerðarinnar og leigubifreiðastöðvanna
  • Skýrari reglugerðarheimildir í einstökum ákvæðum

Umsagnir sendist á netfang ráðuneytisins [email protected] eða í starfsstöð ráðuneytisins Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík.

Umsagnafrestur er til 15. júlí 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum