Hoppa yfir valmynd
26. júní 2008 Innviðaráðuneytið

Opinbert hlutafélag um rekstur á Keflavíkurflugvelli stofnað

Stofnfundur opinbers hlutafélags um þjónustu og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli var haldinn í dag. Félagið tekur yfir rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá og með 1. janúar 2009. Félagið hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur ohf.

Samgönguráðherra skrifar undir stofgerð fyrir opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar.
Samgönguráðherra skrifar undir stofngerð fyrir opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar.

Félagið er stofnað samkvæmt heimild í lögum sem samþykkt voru á Alþingi 30. maí. Samgönguráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laganna. Á stofnfundinum voru samþykktir fyrir félagið samþykktar og stofngerð undirrituð. Þá skipaði samgönguráðherra stjórn félagsins sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi þess.

Fimm manna aðalstjórn skipa: Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Pétur J. Eiríksson. Varamenn eru: Eysteinn Eyjólfsson, Guðlaug Finnsdóttir, Jón Norðfjörð, Björk Guðjónsdóttir og Magnea Guðmundsdóttir

Félagið skal hefja rekstur 1. janúar 2009 og verður hlutverk stjórnar að undirbúa reksturinn. Fram að því munu Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar starfa áfram eins og verið hefur þar til lög um þá aðila falla úr gildi um næstu áramót.

Nýja félagið tekur við rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar sem borgaralegs flugvallar auk hagnýtingar flugvallarsvæðisins í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi svo og rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Félaginu er heimilt að standa að stofnun annarra félaga og fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Þannig er félaginu heimilt að taka þátt í félagi sem ætlað væri að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins.

Í ávarpi sínu í lok fundar sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra meðal annars að með stofnun hins nýja félags væri stefnt að aukinni hagræðingu og skilvirkni og að unnt væri að leggja grundvöll að margs konar nýrri starfsemi og þjónustu í flugi og viðskiptum.


       
 Frá stofnfundi opinbers hlutafélags um rekstur á Keflavíkurflugvelli.
Starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og gestir voru boðnir til stofnfundarins í dag. 

         
 
 Frá stofnfundi opinbers hlutafélags um rekstur á Keflavíkurflugvelli.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum