Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2007

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 13/2008

Lokið hefur verið við gerð ríkisreiknings fyrir árið 2007. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og samanburði við fyrra ár.

Afkoma ríkissjóðs

Ríkissjóður skilaði góðri afkomu á árinu 2007 eins og ríkisreikningur ársins ber með sér. Rekstrarreikningur sýnir 88,6 milljarða króna tekjuafgang eða sem nemur 18,2% af tekjum ársins. Árið 2006 var 81,8 milljarða króna afgangur eða um 19,4% af tekjum ársins. Síðustu þrjú ár hefur ríkissjóður skilað samanlagt 283 milljarða króna tekjuafgangi. Í árslok 2007 var ríkissjóður í fyrsta sinn með jákvætt eigið fé en það nam tæpum 10 milljörðum króna. Til samanburðar var eigið fé ríkissjóðs neikvætt um 198 milljarða króna í árslok árið 2000 á verðlagi þess tíma.

Í milljónum króna
Reikningur 2007
Reikningur 2006
Breyting, fjárhæð
Breyting, %
Fjárlög / fjár-aukalög 2007
Tekjur samtals
486.129
421.963
64.166
15,2
472.177
Gjöld samtals
397.524
340.166
57.358
16,9
389.374
Tekjur umfram gjöld
88.604
81.797
6.807
.
82.803
Handbært fé frá rekstri
68.933
75.531
-6.598
-8,7
56.904
Lánsfjárjöfnuður
-13.848
-31.799
17.951
.
-12.596

Tekjur ríkissjóðs

Tekjur ársins urðu alls 486 milljarðar króna á árinu 2007 en árið 2006 námu þær 422 milljörðum króna. Hækkun milli ára nam 66 milljörðum króna eða 15,2% eða 9,7% að raungildi miðað við vísitölu neysluverðs. Tekjur af sköttum á sölu vöru og þjónustu nema 195 milljörðum króna. Hækkun frá fyrra ári er um 9 milljarðar og vegur þar þyngst að tekjur af virðisaukaskatti hækka um tæpa 6 milljarða. Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjum og sköttum á tekjur einstaklinga og hagnað fyrirtækja nema alls 153 milljörðum króna samanborið við 138 milljarða árið á undan. Skattar á tekjur einstaklinga nema 86 milljörðum og hækka um 5,0% frá fyrra ári, skattar á hagnað fyrirtækja nema 37 milljörðum og hækka um 12,8% og skattar á fjármagnstekjur eru rúmlega 31 milljarður króna og nemur hækkun þeirra 32,2%. Tekjur af eignasölu og endurmati stofnfjár nema alls 35 milljörðum króna þar af námu tekjur af sölu eigna á fyrrum varnarsvæði og eignarhlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja 20 milljarði og endurmat á eignarhluta ríkissjóðs í Landsvirkjun 14 milljörðum.

Gjöld ríkissjóðs

Gjöld ársins 2007 reyndust 398 milljarðar króna en árið 2006 námu gjöldin 340 milljörðum. Hækkunin milli ára nam 57 milljörðum og er hún 16,9% eða 11,3% að raungildi. Heilbrigðismál eru sem fyrr stærsti útgjaldaliður ríkisins eða tæplega fjórðungur af ríkisútgjöldum og var 95 milljörðum króna varið til þeirra. Hækkunin frá fyrra ári er 9,5 milljarðar eða 5,8% að raungildi. Næst mest eru gjöld vegna almannatrygginga og velferðamála. Þau nema 85 milljörðum og hækka um 9,1% að raungildi. Undir þennan málaflokk falla meðal annars 28 milljarða króna útgjöld vegna öldrunarmála, gjöld vegna örorku og fötlunar nema 25 milljörðum, barna- og vaxtabætur eru 13,5 milljarðar og gjöld vegna fæðingarorlofs eru 8 milljarðar. Gjöld til menntamála námu 38 milljörðum og hækka um 4 milljarða eða um 6,5% að raungildi. Hér er einkum um að ræða gjöld til háskólastigsins sem voru 19 milljarðar og til framhaldsskólastigsins sem nema 16 milljörðum. Gjöld til efnahags- og atvinnumála námu 52 milljörðum og hækka þau um 6 milljarða frá fyrra ári eða 8,5% að raungildi. Hér er m.a. um að ræða 25 milljarða til samgöngumála og 12 milljarða vegna landbúnaðarmála. Gjöld vegna annarra málaflokka nema samtals 127 milljörðum króna. Af veigamestu útgjöldum sem hér falla undir eru 16 milljarðar til menningar-, íþrótta- og trúmála, 15 milljarðar til löggæslu- og öryggismála, 20 milljarðar vegna lífeyriskuldbindinga, fjármagnskostnaður er 22 milljarðar og afskriftir skattkrafna 8,5 milljarðar.

Handbært fé frá rekstri

Í hnotskurn vænkaðist hagur ríkissjóðs töluvert á árinu 2007. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 69 milljarða króna. Góð afkoma ársins var meðal annars nýtt til að efla eiginfjárstöðu Seðlabankans um 44 milljarða og staða á bankareikningum batnaði um 12 milljarða sem í lok árs námu alls 104 milljörðum. Langtímalántökur ríkissjóðs á árinu námu 107 milljörðum króna en afborganir voru 81 milljarður. Mismunurinn skýrist einkum af lántökum vegna kaupa ríkissjóðs á eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun. Kaupverðið nam 30 milljörðum og voru þau fjármögnuð með 27 milljarða lántöku en afgangurinn var greiddur með reiðufé. Hreinar skuldir ríkissjóðs, þ.e. tekin lán og lífeyrisskuldbindingar að frádregnum lánveitingum, námu 288 milljörðum í árslok 2007 eða 22,5% af landsframleiðslu ársins. Er það nær óbreytt hlutfall frá fyrra ári. Niðurstöðutölur efnahagsreiknings sýna í fyrsta sinn jákvætt eigið fé hjá ríkissjóði en staðan breyttist á árinu 2007 úr því að vera neikvæð um 63 milljarða í ársbyrjun í að vera jákvæð um 10 milljarða í árslok.

Um ríkisreikning 2007

Reikningur fyrir árið 2007 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er samstæðureikningur um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélag sem eru að hálfu eða meiru í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2007 verður aðgengilegur á veraldarvefnum á heimasíðu Fjársýslu ríkisins; http://www.fjs.is.

Fylgiskjöl:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira