Hoppa yfir valmynd
1. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 6/2008. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 22. ágúst 2008

í máli nr. 6/2008:

Bílaleiga Flugleiða ehf.

gegn

Ríkiskaupum           

Með bréfi, dags. 19. júní 2008, sem barst kærunefnd útboðsmála 20. júní s.á., kærði Bílaleiga Flugleiða ehf. ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um val á tilboði Alp ehf. í ramma­samnings­útboði nr. 14501 - Bílaleigubílar.

Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Aðalkröfur

Að kærunefnd [svo] hefji ekki samningsgerð við Alp á grundvelli niðurstöðu útboðslýsingarinnar.

Að kærunefnd úrskurði Alp vanhæft til að gera tilboð á grundvelli útboðslýsingarinnar þar sem fyrirtækið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um hæfi bjóðenda sbr. grein 1.2.1.3. í útboðslýsingunni og þar af leiðandi að litið verði fram hjá því tilboði sem Alp hefur þegar gert skv. útboðslýsingunni.

Að kærunefnd úrskurði að varnaraðili skuli ganga til samninga við kæranda í stað Alp.

Varakrafa

Að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.

            Þrautavarakrafa

Kærandi krefst þess að varnaraðili greiði kæranda þann kostnað sem fallið hefur til við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi kærða, dags. 24. júní 2008, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust með bréfi, dags. 8. júlí 2008. Kærunefnd óskaði eftir frekari gögnum frá kærða og bárust þau nefndinni 11. ágúst 2008.

 

Með ákvörðun, dags. 25. júní 2008, hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva samningsgerð í kjölfar útboðsins „Ramma­samnings­útboð nr. 14501 - Bílaleigubílar“.

                                                          I.

Hinn 23. apríl 2008 auglýsti kærði útboðið „Rammasamningsútboð nr. 14501-Bílaleigubílar” til að leita tilboða í leigu á bílaleigubílum. Í 1.1.9. gr. útboðsgagna voru tekin fram þau gögn sem fylgja skyldu með tilboðum. Samkvæmt ákvæðinu átti tilboðum m.a. að fylgja „upplýsingar um afgreiðslustaði og opnunartíma þeirra, fjölda og flokkun bifreiða [?]“. Kafli 1.2.1 í útboðsgögnum kallaðist „Lágmarkskröfur um hæfi bjóðenda“. Í 1.2.1.3. gr. var þess krafist að bjóðendur uppfylltu m.a. það skilyrði að hafa „opna afgreiðslu a.m.k. alla virka daga ársins, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Akureyri, Egilstöðum, Höfn, Keflavík og þar sem bjóðandi hefur aðsetur sitt“. Upplýsingar um afgreiðslustaði og opnunartíma þeirra, fjölda og flokkun bifreiða áttu að fylgja með tilboði, samkvæmt tilboðsblaði. Kærandi var einn bjóðenda í útboðinu. Með tölvupósti til kæranda, dags. 13. júní 2008, tilkynnti kærði að öll tilboð hefðu uppfyllt kröfur um form og innihald. Í tölvupóstinum kom fram að einkunn kæranda hefði verið 70,1 stig en ákveðið hefði verið að velja tilboð frá Höldi ehf. og Alp ehf., sem fengið hefðu 84,9 stig og 90,0 stig. 

 

II.

Kærandi telur að kærða hafi verið óheimilt að ganga til samninga við Alp ehf. þar sem það félag hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsskilmála um tæknilega getu. Nánar til tekið telur kærandi að Alp ehf. hafi hvorki starfsstöð á Höfn né Ísafirði og því uppfylli félagið ekki skilyrði um að bjóðandi „hafi opna afgreiðslu a.m.k. alla virka daga ársins, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Akureyri, Egilstöðum, Höfn, Keflavík og þar sem bjóðandi hefur aðsetur sitt“.

 

III.

Kærði telur að hafna beri öllum kröfum kæranda m.a. vegna þess að tilboð Alp ehf. hafi uppfyllt öll sett skilyrði útboðslýsingar þ. á m. um afgreiðslustaði á Höfn og Ísafirði. Kærði tók fram að vegna kærunnar hafi Alp ehf. verið beðið um skriflega staðfestingu á því að lágmarkskröfur útboðslýsingar um afgreiðslustaði á Höfn og Ísafirði væru uppfylltar. Með bréfi kærða fylgdi bréf Ingunnar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra neytendasviðs N1, hf. þar sem sagði m.a.: „N1 hf. hefur starfað sem umboðsmaður Alp ehf. frá 1. júní 2008 og er þjónustan veitt alla daga vikunnar á opnunartíma þjónustustöðvar N1 ásamt því að mætt er öllum flugum til Ísafjarðar.“ Þá fylgdi einnig bréf Jóns Skeggja Ragnarssonar, f.h. Vélsmiðju Hornafjarðar, þar sem sagði m.a.: „Það staðfestist hér með að Vélsmiðja Hornafjarðar er umboðsmaður ALP ehf., (Avis) á Höfn Hornafirði og hefur undirritaður séð um bílaleiguna fyrir ALP ehf. á Höfn frá árinu 2001.“

 

IV.

Aðalkröfur kæranda eru að „litið verði fram hjá því tilboði sem Alp hefur þegar gert skv. útboðslýsingunni“ og að kærði „skuli ganga til samninga við kæranda í stað Alp“. Þar sem kærði hefur gert bindandi samning við Alp ehf. samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 er þessum kröfum kæranda hafnað enda verður slíkur samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt eftir að hann er kominn á, skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007.

Varakrafa kæranda er að „kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda“. Í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, er mælt fyrir um skaðabótaskyldu vegna tjóns sem hlotist hefur vegna brota kaupanda á lögum og reglum um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu eru sett tvenns konar skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf bjóðandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið. Kemur þá fyrst til skoðunar hvort kærði hafi brotið gegn lögum eða reglum um opinber innkaup. Kærandi byggir kröfur sínar á því að Alp ehf. hafi hvorki starfsstöð á Höfn né Ísafirði og því hafi kærða verið óheimilt að taka tilboði félagsins. Kærandi hefur m.a. lagt fram útprentanir af tölvupóstsamskiptum við starfsmenn Alp ehf. þar sem fram kemur að Alp ehf. sé hvorki með starfsstöðvar á Höfn né Ísafirði.

Vegna málsástæðna kæranda taldi kærunefnd útboðsmála nauðsynlegt að fara yfir tilboð Alp ehf. í heild sinni og óskaði því eftir því að kærði sendi nefndinni tilboðið ásamt fylgigögnum. Samkvæmt þeim gögnum sem bárust nefndinni kom fram í tilboði Alp ehf. að félagið væri með afgreiðslustöðvar á Ísafirði og Höfn. Við könnun gagnanna hefur kærunefndin þó orðið þess vör að tilboði Alp ehf. var áfátt að ýmsu leyti. Þar sem kærandi byggir á því að tilboð Alp ehf. hafi ekki fullnægt útboðsskilmálum telur kærunefndin að hún geti byggt niðurstöðu málsins á öðrum ágöllum tilboðsins enda er skylda á nefndinni að rannska málið með fullnægjandi hætti skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær upplýsingar sem krafist var í útboðs­gögnum að fylgja skyldu tilboðum en fylgdu ekki tilboði Alp ehf. voru: “nöfn eigenda og stjórnarmanna, fjölda (og menntun/reynsla) starfsmanna, upplýsingar um gæðastefnu og/eða gæðavottanir, upplýsingar um öryggismál, yfirlit yfir helstu sambærileg verkefni, unnin á s.l. 2 (tveimur) árum, upplýsingum um heildarveltu bjóðanda á árinu 2007, sundurliðaða eftir flokkum sem tilgreindir eru í gr. 1.1.1 Almenn lýsing og heimilisfang umsjónaraðila útboðs, staðfesting endurskoðanda að bjóðandi sé með jákvætt eiginfé”. Þá vantaði einnig upplýsingar um opnunartíma afgreiðslustöðva en það var meðal þeirra atriða sem gáfu stig í stigamatskerfinu sem notað var við mat á tilboðum. Samkvæmt útboðsgögnum átti þetta að leiða til þess að tilboði Alp ehf. yrði vísað frá. Kærði vísaði tilboði Alp ehf. ekki frá og braut þar með gegn útboðsskilmálum og meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda, sbr. einnig 14. gr. laga nr. 84/2007. Kærandi var einn þriggja bjóðenda í hinu kærða útboði. Kærði samdi við tvo bjóðendur í kjölfar útboðsins og hefði því kærandi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn ef valið hefði eingöngu staðið milli tveggja bjóðenda. Þeir möguleikar kæranda hafa því skerst við brot kærða. Með vísan til þessa lætur nefndin uppi það álit sitt að kærði sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í hinu kærða útboði, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins og umfangi þess verður kærða gert að greiða kæranda kr. 400.000 í kostnað við að hafa kæruna uppi.

Úrskurður þessi hefur dregist vegna aukinnar rannsóknar, þ.m.t. gagnaöflunar, eftir að athugasemdir aðila lágu fyrir.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Bílaleigu Flugleiða ehf., um að ógilt verði tilboð Alp. ehf. og gengið til samninga við kæranda, er hafnað.

 

Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Ríkiskaup, sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Bílaleigu Flugleiða ehf., vegna kostnaðar kæranda við að undirbúa tilboð og taka þátt í ramma­samnings­útboði nr. 14501 – Bílaleigubílar.

 

Kærði, Ríkiskaup, greiði kæranda, Bílaleigu Flugleiða ehf., kr. 400.000,- í kostnað við að hafa kæruna uppi.

 

                                                               Reykjavík, 22. ágúst 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 22. ágúst 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum