Hoppa yfir valmynd
13. október 2008 Innviðaráðuneytið

Höfum umferðaröryggisdag alla daga

Samgönguráðherra skrifar um evrópskan umferðaröryggisdag. Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. október 2008.

Kristján L. Möller skrifar um umferð í þéttbýli

Evrópskur umferðaröryggisdagur, sem nú er haldinn öðru sinni, er í ár helgaður umferð í borgum og bæjum. Þar erum við einkum að horfa á þá vegfarendur sem eru óvarðir í umferðinni, gangandi og hjólandi.

Við vorum ekki há í loftinu þegar byrjað var að kenna að við skyldum vara okkur á bílunum. Líta til hægri og vinstri áður en farið var yfir götu, nota gangbrautir og umferðarljós og síðar undirgöng eða göngubrýr. Þegar kom að hjólreiðunum þurftum við að sýna enn meiri varkárni og gæta okkar bæði á bílunum og að hjóla ekki niður gangandi vegfarendur. Það er því ekki eins einfalt og það sýnist að vera gangandi eða hjólandi vegfarandi og það er alls ekki hættulaust.

Umferðin og allt umhverfi okkar hefur breyst mikið í gegnum árin. Umferðarþunginn er sívaxandi, hraðinn er meiri og okkur liggur meira á í dag en í gamla daga. Við þessar kringumstæður getur bíllinn verið mikil ógn við þá sem óvarðir eru í umferðinni: Gangandi, hjólandi, börn, blint fólk sem er á ferð með hvíta stafinn og fatlaða og aðra sem búa kannski við einhvers konar skerðingu eða takmarkanir.

Þessar aðstæður leggja okkur ýmsar skyldur á herðar og það á við alla þátttakendur í umferðinni og alla sem stýra samgöngu- og umferðarmálum. Aukin og þyngri umferð í þéttbýlinu veldur margs konar álagi og við lendum í biðröðum og töfum. Fleiri bílar á götunum leiða til skorts á bílastæðum og við freistumst til að leggja á gangstéttum og grasi þar sem för gangandi fólks er trufluð.
Ábyrgð bílstjóra

Við slíkar aðstæður skapast enn meiri áhætta og því vil ég beina orðum mínum sérstaklega til okkar sem bílstjóra. Ábyrgð okkar er kannski mest. Við verðum að sýna aðgæslu og ábyrgð og við verðum að virða reglur um umgengnisrétt gangandi og hjólandi vegfarenda. Virðum rétt þeirra á gangbrautum og umferðarljósum, á gangstéttum og hvar sem þeir fara í umferðinni. Þeir eru óvarðir og hafa ekki öryggisbelti eða loftpúða sér til stuðnings ef eitthvað ber útaf.

Ég vil einnig hvetja til þess að við séum vel sýnileg í umferðinni þegar við erum fótgangandi eða á reiðhjóli. Það er næsta auðvelt með því að nota endurskinsmerki.

Í því sambandi er einnig rétt að við höfum í huga að með því að ferðast fótgangandi eða hjólandi, jafnvel nú þegar haustar, leggjum við okkar að mörkum varðandi minnkandi útblástur ökutækja og betra andrúmslofti. Einnig má minna á að með því að nota almenningssamgöngur stuðlum við að slíkum markmiðum.

Að lokum hvet ég okkur öll til þess að muna að áherslur umferðaröryggisdagsins gilda ekki bara í dag heldur hvar og hvenær sem við erum á ferðinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum