Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 12. nóvember 2008

FUNDARGERÐ

Ár 2008, miðvikudaginn 12. nóvember, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram að Neshaga 16, Reykjavík. Mætt voru Ágústa Þorbergsdóttir, Baldur Sigurðsson og Kolbrún Linda Ísleifsdóttir. Neðangreind mál voru tekin fyrir:

 

1.         Mál nr. 63/2008          Eiginnafn:        Marzellíus  (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mál þetta, sem móttekið var 8. október 2008, var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 16. október sl. en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar.

 

Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

·          Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).

·          Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

·          Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

 

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Eiginnafnið Marzellíus (kk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi. Það getur ekki talist ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn ‚z‘ telst ekki til íslenska stafrófsins þótt hann komi fyrir í nokkrum manna-nöfnum sem hafa unnið sér hefð. Bókstafurinn ‚z‘ var numinn brott úr íslensku ritmáli í septembermánuði 1973 með auglýsingu menntamálaráðuneytisins nr. 272/1973, sbr. núgildandi auglýsingar nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Ritháttur eiginnafnsins Marzellíus (kk.) hefur verið nokkuð á reiki og hefur ritmyndin Marsellíus verið samþykkt á mannanafnaskrá. Nafnið Marsellíus er ítalskt að uppruna, Marcellino, gælumynd af Marcèllo, sem aftur er gælumynd af Marcus, sem á íslensku er skrifað Markús. Uppruni nafnsins gefur því ekkert tilefni til að nota bókstafinn ‚z‘. Framburður bókstafsins ‚c‘ í ítölsku á undan ‚i‘ og ‚e‘ er nálægt því að vera ‚ts‘-hljóð. Slíkt hljóð er í þýsku skrifað með ‚z‘ og í þýsku er til nafnið Marzell. Notkun bókstafsins ‚z‘ í þessu samhengi í íslensku hefur hins vegar verið afar tilviljanakenndur, og meir undir duttlungum skrifara kominn hverju sinni, en að verið sé að leita uppruna eða ritháttar sem með einhverjum hætti er réttari en annar. Ritun nafnsins með ‚z‘ má því líklega rekja til þýskra áhrifa.

 

Sem dæmi um aðrar ritmyndir þessa nafns og skyldra nafna í málinu má nefna karlanöfnin Marselíus, Marsellíus, Marsilíus, Marsillíus, Marsíus, Marzelíus, Marzellíus, Marzilíus, Marzillíus, Merselíus og konunöfnin Marsalína, Marsella, Marselía, Marsellía, Marselína, Marsellína, Marsilía, Marsillía, Marsilína, Marsillína, Marzelína og Marzilína.

 

Í rökstuðningi umsækjenda segir m.a. að [...]barnsins [(...)] hafi heitið [...] og hann hafi ætíð ritað nafn sitt með ‚z‘. Ekki virðist sá ritháttur styðjast við opinber gögn. Í kirkjubók við skírn hans ritaði presturinn nafnið [...] og í allsherjarmanntali frá árinu 1952, sem varð grunnur að Þjóðskrá, er nafnið ritað [...]. Í Þjóðskrá var nafn sama manns skráð með rithættinum [...] við andlát og viðkomandi prestur ritaði nafnið [...] á dánarskýrslu hans.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er einn núlifandi karl skráður með eiginnafnið Marzellíus sem uppfyllir skilyrði ofan-greindra vinnulagsreglna og er hann fæddur árið 1959, en á þeim tíma var bókstafurinn ‚z‘ notaður í íslensku stafrófi. Eiginnafnið Marzellíus kemur ekki fyrir í „Skrá um eiginheiti karla fæddra á Íslandi samkvæmt manntalinu 1. desember 1910“ og heldur ekki í eldri manntölum. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Marzellíus uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Marzellíus (kk.) er hafnað.

 

 

 

3.         Mál nr. 69/2008          Eiginnafn / ritháttur:  Fernando  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

·          Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).

·          Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

·          Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

 

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

 

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Eiginnafnið (rithátturinn) Fernando (kk) brýtur í bág við íslenskt málkerfi og samræmist ekki almennum íslenskum ritreglum miðað við að eðlilegur íslenskur framburður nafnsins sé með –ó eins og í sambærilegum nöfnum

 

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru þrír karlar skráðir með eiginnafnið Fernando sem uppfylla skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna og er sá elsti þeirra fæddur árið 1982. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið (rithátturinn) Fernando (kk.) uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögu-legt að fallast á það. Rétt er að taka fram að unnt er að fallast á ritháttinn Fernandó, sé þess óskað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Fernando (kk.) er hafnað.

 

 

 

4.         Mál nr. 70/2008          Eiginnafn:        Karó  (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Karó (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Karóar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Karó (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Karóar.

 

 

5.         Mál nr. 71/2008          Eiginnafn:        Petrós  (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Petrós (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Petrósar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Petrós (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Petrósar.

 

 

6.         Mál nr. 72/2008          Eiginnafn:        Úranía  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Úranía (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Úraníu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Úranía (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

7.         Mál nr. 73/2008          Eiginnafn:        Evey  (kvk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Evey (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið fallbeygist þannig: Evey – um Eveyju – frá Eveyju – til Eveyjar.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Evey (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Eveyjar.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn