Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2008 Innviðaráðuneytið

Reglugerð um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum til umsagnar

Reglugerð um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum er nú til umsagnar hjá samgönguráðuneytinu. Þeir sem þess óska geta sent umsagnir sínar um reglugerðardrögin á netfangið [email protected] fyrir 5. desember næstkomandi.

Reglugerðin innleiðir ákvæði tilskipunar ráðsins (EB) nr. 96/67 frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins. Reglugerðin er endurgerð eldri reglugerðar sama efnis nr. 263/2002.

Í meginatriðum varðar efni reglugerðarinnar markaðsaðgang flugafgreiðsluaðila að flugvöllum sem reknir eru í atvinnuskyni. Almennt gilda ákvæði reglugerðarinnar um flugvelli þar sem árleg umferð nemur að minnsta kosti ferðum tveggja milljóna farþega eða 50.000 tonnum af farmi.

Í 6. gr. er kveðið á um frelsi veitenda flugafgreiðslu til að veita þriðja aðila flugafgreiðslu. Rekstraraðili getur þó óskað eftir takmörkunum á slíku frelsi sbr. 2. mgr. og 3. mgr. greinarinnar.

Í samræmi við 1. mgr. 7. gr., sem gildir um alla flugvelli án tillits til umfangs umferðar um þá, skal rekstraraðili flugvallar tryggja frelsi til að annast eigin afgreiðslu.

2. mgr. 7. gr. kveður á um að þar sem árleg umferð nemur meira en einni milljón farþega eða 25.000 tonnum af farmi, þar geti rekstraraðili flugvallar óskað eftir því að fjölda þeirra sem heimild hafa til að annast eigin afgreiðslu verði fækkað. Þó verði ekki færri en tveir flugvallanotendur sem hafi heimild til eigin afgreiðslu í tilteknum flokkum. Sé árleg umferð minni en þessu nemur er rekstraraðila flugvallar heimilt að tilgreina flokka flugafgreiðslu við einn flugvallarnotanda.

Nánar er mælt fyrir um málsmeðferð, undanþágur, samráð og tilkynningu ákvarðana í 10.-16. gr.

Í 9. gr. er kveðið á um heimild rekstraraðila flugvallar til að óska eftir því að notendur flugvallar séu skyldaðir til að nota sérstök mannvirki sem notuð eru til flugafgreiðslu. Þetta á einkum við um mannvirki sem eru svo flókin, kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif í för með sér að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt af þeim, s.s. stjórn farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar eða eldsneytisdreifingar.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald samkvæmt reglugerð þessari er Flugmálastjórn Íslands.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum