Hoppa yfir valmynd
3. desember 2008 Innviðaráðuneytið

Ný flugvélamyndabók frá Baldri Sveinssyni

Samgönguráðherra heimsótti í dag Flugklúbbinn Þyt þar sem fagnað var útkomu nýrrar flugvélamyndabókar Baldurs Sveinssonar. Tók ráðherra við fyrsta eintaki bókarinnar og sagði hana hafa að geyma mikilvæga skráningu á starfi grasrótar í fluginu.

Ný flugvélamyndabók Baldurs Sveinssonar.
Ný flugvélamyndabók Baldurs Sveinssonar.

Kristján L. Möller samgönguráðherra fagnaði útkomu bókarinnar og kvaðst hafa haft ánægju af fyrri bókinni. Hann sagði þann hóp flugmanna og flugvirkja og flugáhugamanna sem byggt hafi upp íslenskt flug hafa lagt fram mikilvægan skerf í samgöngum þjóðarinnar.

Bókin Flugvélar 2008 er 120 blaðsíður í A4 langbroti og inniheldur 152 ljósmyndir sem allar voru teknar á árinu 2008. Baldur hefur í meira en fjóra áratugi myndað flugvélar á og yfir Íslandi og hafa myndir hans birst í fjölmörgum blöðum, tímaritum og vefsíðum. Í fyrra kom út bókin Flugvélar á og yfir Íslandi og sagði Baldur hana nú uppselda og í ljósi góðra undirtekta hefði kviknað sú hugmynd að halda áfram útgáfu flugvélamynda. Höfundur gefur bókina út sjálfur.

Í bók Baldurs Sveinssonar má sjá grasrótina í íslenska einkafluginu, svipmyndir frá flugdögum sumarsins og fjöskylduflugmótum í sveitaumhverfi. Einnig eru myndir frá komum frægra erlendra gestavéla eins og t.d. Boeing B-17 Fljúgandi virki yfir Suðurlandi. Myndir frá loftrýmisgæslu Frakka og loftvarnaræfingunni Norður Víkingur 2008 eru einnig í bókinni svo og myndir frá frægri komu silfurliðsins í handbolta þegar Boeing 757 þota Icelandair flaug yfir Reykjavíkurflugvöll áður en hún lenti með liðið á vellinum.

Ný flugvélamyndabók Baldurs Sveinssonar.
Kristján L. Möller samgönguráðherra fagnaði útkomu flugvélamyndabókarinnar í dag með Baldri Sveinssyni og félögum í Flugklúbbnum Þyt í Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli.      

 Ný flugvélamyndabók Baldurs Sveinssonar.    
       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum