Hoppa yfir valmynd
13. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um framlengingu frítekjumarks

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra mælti fyrir á Alþingi síðastliðinn föstudag frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem kveður á um framlengingu 100.000 króna frítekjumarks á atvinnutekjur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Þann 1. júlí í sumar kom til framkvæmda bráðabirðaákvæði í lögum um almannatryggingar þar sem örorkulífeyrisþegum var gert kleift að velja á milli þess að hafa 100.000 króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Gildistími ákvæðisins var til 1. janúar næstkomandi, en gert var ráð fyrir að á þeim tíma væri komið til framkvæmda nýtt örorkumatskerfi og nýjar viðmiðunarreglur sem kæmu í stað frítekjumarksins.

Nú er ljóst að ekki tekst að ljúka vinnu við endurskoðun örorkumatskerfisins á þeim tíma sem áætlað var og því er frumvarp um framlengdan gildistíma frítekjumarksins lagt fram. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt mikla áherslu á að núgildandi frítekjumark haldi gildi sínu þar til nýtt örorkumatskerfi verður tekið í notkun. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins fá um 4.700 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar greiddar atvinnutekjur og nýtist frítekjumarkið þeim öllum til hærri bótagreiðslna en ella.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum