Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Bætur, styrkir og frítekjumörk hækka

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út reglugerðir um hækkun bóta, styrkja og frítekjumarka árið 2009 samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Hækkanirnar gilda frá 1. janúar og taka til lífeyrisgreiðslna elli- og örorkulífeyrisþega, heimilisuppbótar, frekari uppbóta á lífeyri, barnalífeyris, vasapeninga sjúkratryggðra og annarra bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar, auk meðlags. Þá hækka frítekjumörk lífeyrisþega og vistmanna á dvalarheimilum einnig frá sama tíma. Auk þessa hækka mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, dánarbætur, maka- og umönnunarbætur, endurhæfingarlífeyrir og fleiri bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Hækkun allra þessara bótaflokka og frítekjumarka nemur 9,6%. Þá hækka greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og fjárhæð ættleiðingarstyrkja einnig um 9,6%.

Í september síðastliðnum setti ráðherra nýja reglugerð sem tryggði lífeyrisþegum ákveðna lágmarksframfærslu og var sett á grundvelli laga um félagslega aðstoð. Með reglugerðarbreytingunni nú hækkar lágmarksframfærslutryggingin um 20% þann 1. janúar. Lágmarksframfærslutrygging einstaklinga sem fá greidda heimilisuppbót verður 180.000 krónur á mánuði en 153.500 krónur hjá einstaklingum sem njóta hagræðis af sambúð með öðrum. Við þessa hækkun fjölgar þeim sem nýtist lágmarksframfærslutryggingin úr um 4.000 í um 12.000 manns.

Við hækkunina sem tekur gildi 1. janúar hafa tekjur þeirra lífeyrisþega sem hafa lægstu bæturnar hækkað um rúmar 50.000 krónur á rúmu ári, eða um 42% frá því í desember 2007.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira