Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2009 Dómsmálaráðuneytið

Nýr íslenskur hugbúnaður í baráttunni gegn barnaklámi tekinn í notkun af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og fyrirtækið Eff2 Technologies hafa undirritað tímabundinn verksamning um þróun, uppsetningu og afnot á hugbúnaðarkerfi sem gerir lögreglunni kleift að bera kennsl á barnaklám og annað ólögmætt efni í tölvum sem hafa verið haldlagðar.
Frá undirritun verksamnings við fyrirtækið Eff2 Technologies.
Að lokinni undirritun.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækið Eff2 Technologies hafa undirritað tímabundinn verksamning um þróun, uppsetningu og afnot á hugbúnaðarkerfi fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem gerir lögreglunni kleift að bera kennsl á barnaklám og annað ólögmætt efni í tölvum sem hafa verið haldlagðar. Með þessu samstarfi lögreglunnar og Eff2 Technologies verður Ísland fyrsta landið í heiminum sem notar slíka lausn í baráttunni gegn barnaklámi og öðru ólögmætu efni.

Tæknin sem gerir þetta mögulegt ber heitið Videntifier Forensic og verður fullþróuð í nánu samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir að ávinningurinn sé bæði vinnusparnaður hjá lögreglunni og aukin skilvirkni við rannsóknir barnaklámsmála. Þessi tækni bjóði auk þess upp á aukna möguleika til að rannsaka uppruna og dreifingu barnakláms og ná þannig frekar til þeirra sem framleiða þetta efni og dreifa í stórum stíl. Slíkt yrði þá unnið í náinni samvinnu við lögregluyfirvöld í öðrum löndum.

Eff2 Technologies er sprotafyrirtæki úr Háskólanum í Reykjavík, stofnað síðla árs 2007. Það hefur unnið til verðlauna fyrir Videntifier-verkefnið bæði hér heima og á erlendri grundu. Videntifier getur munað hvernig allt að hundrað þúsund klukkutímar af vídeóefni líta út, og leitað í vídeósöfnum á allt að hundraðföldum rauntíma. Videntifier ber kennsl á vídeóefni jafnvel þótt því hafi verið breytt umtalsvert t.d. með þjöppun, textun, skekktum hlutföllum, snúningi eða speglun, svo dæmi sé tekið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum