Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2009 Dómsmálaráðuneytið

Skipun nefndar til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá, búsetu og umgengni

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skipað nefnd til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni.

Nefndin lauk störfum í janúar 2010 og skilaði Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra tillögum sínum að breytingum á lögunum með frumvarpi og ítarlegri greinargerð, sjá frétt hér.

Drög að frumvarpi til breytinga á barnalögum (pdf-skjal)


8.1. 2009

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skipað nefnd til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni. Nefndinni ber meðal annars að skoða hvort ástæða sé til að breyta íslenskri löggjöf og veita dómurum heimild til að ákveða að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barns þrátt fyrir að annað foreldri sé því andvígt.

Gildandi barnalög voru sett árið 2003 og hefur þeim verið breytt nokkrum sinnum frá gildistöku. Þýðingarmikil breyting var gerð árið 2006 þegar gert var að meginreglu að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað og sambúðarslit. Samkvæmt gildandi rétti getur annað foreldri ávallt krafist niðurfellingar sameiginlegrar forsjár sem leiðir til þess að forsjá verður falin öðru foreldranna. Verði niðurstaða nefndarinnar sú að veita eigi dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá skal nefndin taka afstöðu til þess við hvaða aðstæður það komi til álita. Verði lagt til að breyta barnalögunum í þá veru sem nefnt er hér að framan ber nefndinni að taka afstöðu til þess úr hvaða ágreiningsefnum foreldra dómari eigi að geta leyst með dómi þegar forsjá er sameiginleg og foreldrar komast ekki að samkomulagi.

Við endurskoðun laganna skal nefndin hafa að leiðarljósi að þarfir og hagsmunir barnsins eiga að vera í öndvegi við skipan mála samkvæmt barnalögum. Auk þess skal hafa hliðsjón af þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að og varða efnið, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í ljósi hinnar ríku hefðar um norræna samvinnu á sviði sifjaréttar ber nefndinni einnig að gefa vandlega gaum að reglum annarra norrænna ríkja um forsjá, búsetu og umgengni og þróun þeirra.

Í nefndinni sitja:
Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, lektor í sifja- og erfðarétti við Háskóla Íslands, sem er formaður nefndarinnar, Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, tilnefnd af Dómarafélagi Íslands,
og Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands.

Sjá erindisbréf nefndarinnar hér að neðan:

Gildandi barnalög sem eru frá árinu 2003 leystu af hólmi eldri lög frá 1992. Töluverð umræða hefur verið um málefni á sviði barnaréttar undanfarin misseri og þrátt fyrir að aðeins séu liðin 5 ár frá setningu gildandi laga þykir ástæða til að ráðast í endurskoðun á ákveðnum þáttum þeirra. Lögunum hefur verið breytt nokkrum sinnum frá gildistöku og þýðingarmikil breyting var gerð 2006 þegar gert var að meginreglu að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað og sambúðarslit. Þegar sú breyting var gerð hafði um nokkurt skeið farið fram umræða um sameiginlega forsjá, eðli hennar og tilgang, m.a. um hvort fela ætti dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja foreldra en af hálfu dómsmálaráðherra var ekki var gerð tillaga að slíkri breytingu árið 2006.

Víðtæk endurskoðun hefur farið fram í öðrum norrænum ríkjum á undanförum misserum og árum á reglum um forsjá, búsetu og umgengni og eru þær um margt sambærilegar en Ísland sker sig úr að ýmsu leyti. Almennt má segja að á undanförnum árum hafi vaxandi áhersla verið lögð á það í barnarétti að tryggja rétt barns til að þekkja og hafa tengsl við báða foreldra á sama tíma og skyldur foreldra gagnvart barni hafa verið skerptar. Endurskoðun laga hefur miðast að því að skoða hvaða reglur um samband barna og foreldra sem búa ekki saman eru líklegastar til að þjóna best hagsmunum barnsins. Síðustu lagabreytingar á Norðurlöndum á þessu sviði áttu sér stað í Danmörku en þar í landi öðluðust ný Forældreansvarslov gildi 1. október 2007.

Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni með það fyrir augum að meta hvort ákvæði þeirra tryggi á viðeigandi hátt þá hagsmuni sem lögunum er einkum ætlað að standa vörð um og hvort ákvæðin taki nægilegt tillit til mismunandi aðstæðna fjölskyldna og þeirrar þróunar og viðhorfsbreytinga sem orðið hafa í samfélaginu.

Verði niðurstaða nefndarinnar sú að þörf sé á að breyta gildandi barnalögum skal nefndin semja tillögur að viðeigandi breytingum og því hvernig hrinda megi þeim í framkvæmd og skulu þær vera settar fram í drögum að frumvarpi til laga.

Það sem nefndinni ber einkum að skoða er hvort ástæða sé til þess að breyta íslenskri löggjöf og veita dómurum heimild til þess að ákveða að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barns þrátt fyrir að annað foreldri sé því andvígt en samkvæmt gildandi rétti getur annað foreldri ávallt krafist niðurfellingar sameiginlegrar forsjár sem leiðir til þess að forsjá verður falin öðru foreldranna. Verði niðurstaða nefndarinnar sú að veita eigi dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá skal nefndin taka afstöðu til þess við hvaða aðstæður það komi til álita.

Þá skal nefndin einnig taka afstöðu til þess, verði lagt til að breyta barnalögunum í þá veru sem reifað er hér að framan, úr hvaða ágreiningsefnum foreldra dómari eigi að geta leyst með dómi þegar forsjá er sameiginleg og foreldrar komast ekki að samkomulagi. Hér er ágreiningur um hjá hvoru barn skuli búa einkum hafður í huga, og þá bæði ef hann kemur upp í tengslum við forsjármál og endranær, en jafnframt þarf að taka afstöðu til þess hvort önnur ágreiningsefni ættu að geta fallið undir valdheimildir dómara og/eða sýslumanns.

Samkvæmt gildandi lögum skal barn að jafnaði hafa fasta búsetu hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá. Nefndin skal taka afstöðu til þess hvort til greina komi að lögfesta ákvæði sem sérstaklega veitir heimild fyrir „jafnri búsetu", þ.e. að barn teljist búsett hjá báðum foreldrum sínum, þrátt fyrir að þeir búi ekki saman og e.a. hvort slík búseta ætti að byggja á samkomulagi foreldra eða hvort hún ætti að geta byggt á ákvörðun yfirvalda.

Afleiðing þess að barn samkvæmt gildandi lögum telst búsett hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá er m.a. sú að stjórnvöld úrskurða ekki umgengni sem í raun felur í sér að barn búi á tveimur stöðum, þannig ákveða stjórnvöld almennt ekki í úrlausnum sínum umgengni í viku í senn aðra hverja viku þótt foreldrum sé heimilt að semja um slíka umgengni telji þeir það barni fyrir bestu. Nefndinni ber að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til þess að hrófla við því fyrirkomulagi.

Meginverkefni nefndarinnar er að fjalla um og taka afstöðu til fyrrgreindra atriða en að auki skal nefndin yfirfara V. – VIII. kafla barnalaga í heild sinni og leggja mat á hvort ástæða sé til að skoða fleiri þætti þeirra og e.a. að móta rökstuddar tillögur að breytingum sem nefndin telur æskilegar.

Við endurskoðun laganna ber nefndinni að hafa að leiðarljósi að þarfir og hagsmunir barnsins eiga að vera í öndvegi við skipan mála samkvæmt barnalögum.

Hafa þarf hliðsjón af þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að og varða efnið, einkum Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í ljósi hinnar ríku hefðar um norræna samvinnu á sviði sifjaréttar ber nefndinni að gefa vandlega gaum að reglum annarra norrænna ríkja um forsjá, búsetu og umgengni og þróun þeirra. Þá ber nefndinni að kalla eftir sjónarmiðum félagasamtaka og annarra þeirra aðila sem málið kann að varða.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum