Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin úrræði til að sporna gegn atvinnuleysi

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur sett reglugerð um fjölbreytt vinnumarkaðsúrræði sem atvinnuleitendur geta tekið þátt í samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, svo sem þátttöku í sérstökum átaksverkefnum, frumkvöðlastörfum og sjálfboðaliðastörfum. Enn fremur fjallar reglugerðin um búferlastyrki, atvinnutengda endurhæfingu og fleira. Ráðherra hefur einnig sett reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar.

Meginmarkmið vinnumarkaðsúrræða eins og þeirra sem kveðið er á um í reglugerðunum er að sporna gegn atvinnuleysi, auðvelda fólki í atvinnuleit að halda virkni sinni, stuðla að tengslum þess við atvinnulífið og skapa fólki leiðir til að bæta möguleika sína til atvinnuþátttöku á nýjan leik.

Ýmis nýmæli eru í reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki nr. 12/2009 en einnig er kveðið á um úrræði sem eru þekkt hér á landi og hafa áður verið nýtt í einhverjum mæli. Markmið með setningu reglugerðanna er meðal annars að kveða skýrt á um þau úrræði sem í boði eru og tryggja að jafnræðis sé gætt milli aðila við nýtingu þeirra.

Starfsþjálfun, reynsluráðning, átaksverkefni og frumkvöðlastörf

Í reglugerðinni er meðal annars kveðið á um heimildir fyrirtækja og stofnana til að ráða tímabundið til sín atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur þannig að bæturnar fylgi viðkomandi inn í fyrirtækið en atvinnurekandinn greiði það sem upp á vantar svo hann njóti sambærilegra launakjara og aðrir sem starfa hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda. Vinnumálastofnun greiðir jafnframt mótframlag í lífeyrissjóð.

Ráðningar sem þessar þurfa að byggjast á samningi Vinnumálastofnunar við viðkomandi atvinnuleitanda og atvinnurekanda. Heimildir til tímabundinna ráðninga af þessu tagi ná til starfsþjálfunar og ráðningar til reynslu, sérstakra átaksverkefna sem fela í sér tímabundin verkefni umfram venjuleg umsvif og til frumkvöðlastarfa þar sem einstaklingur er ráðinn til að þróa nýja viðskiptahugmynd. Vinnumálastofnun er einnig heimilt að semja beint við atvinnuleitendur um að þeir vinni að þróun eigin viðskiptahugmyndar í tiltekinn tíma án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Þegar atvinnuleitendur eru ráðnir til frumkvöðlastarfa er skilyrði að Nýsköpunarmiðstöð Íslands votti um nýsköpunarvægi verkefnisins og fylgist með framgangi þess.

Í reglugerðinni er sérstaklega kveðið á um rétt fólks sem fær greiddar atvinnuleysisbætur til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi samhliða virkri atvinnuleit. Gert er ráð fyrir að samningur sé gerður um slík störf milli Vinnumálastofnunar og viðkomandi félagasamtaka sem ber að slysatryggja sjálfboðaliðann. Litið er á sjálfboðaliðastörf sem virkt vinnumarkaðsúrræði þannig að frjáls félagasamtök geti boðið atvinnuleitendum þátttöku.

Atvinnutengd endurhæfing – nýtt úrræði

Samkvæmt reglugerðinni er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning um starfsendurhæfingu við atvinnuleitendur með skerta starfsorku í tiltekinn tíma án þess að þeir tapi rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Viðkomandi skuldbindur sig þá til að taka fullan þátt í skipulagðri endurhæfingaráætlun en Vinnumálastofnun greiðir honum atvinnuleysisbætur samhliða endurhæfingunni.

Búferlastyrkir

Ákvæði reglugerðarinnar um búferlastyrki byggjast í megindráttum á fyrri reglum og framkvæmd þeirra. Nýmæli er hins vegar að ekki er lengur skilyrði fyrir styrk að viðkomandi hafi verið atvinnulaus í þrjá mánuði áður en hann flytur. Búferlastyrkir eru ætlaðir til að auðvelda fólki flutning milli sveitarfélaga hafi því boðist starf í öðru sveitarfélagi en þar sem það hefur skráð lögheimili sitt.

Nám og námskeið sem vinnumarkaðsúrræði

Í reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd vinnumarkaðsúrræði nr. 13/2009 er tilgreint hvaða nám og námskeið fólk án atvinnu getur stundað og fengið samhliða greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt áunnum réttindum sínum. Ekki er um nýmæli að ræða heldur er þetta birt í reglugerð til að skýra framkvæmdina og tryggja jafnræði við mat Vinnumálastofnunar á því hvaða nám og námskeið eru viðurkennd vinnumarkaðsúrræði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum