Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2009 Innviðaráðuneytið

Rýmri útlánareglur og fjölgun lánaflokka hjá Íbúðalánasjóði

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur sett tvær reglugerðir um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Helstu nýmæli felast í nýjum lánaflokki sem heimilar lánveitingar til endurbóta og viðhalds á leiguíbúðum, rýmri heimildum til að veita fötluðum einstaklingum aukalán vegna sérþarfa og heimild til veðlánaflutninga milli leiguíbúða sem eru í eigu sama lántakenda.

Endurbótalán vegna leiguíbúða eykur svigrúm til framkvæmda

Nýr lánaflokkur sem heimilar lán til félaga, félagasamtaka og sveitarfélaga vegna endurbóta og viðhalds á leiguíbúðum sem þau reka til útleigu tryggir þessum aðilum sambærilega lánafyrirgreiðslu til endurbóta á leiguíbúðum og einstaklingar eiga kost á vegna eigin íbúðarhúsnæðis. Ætla má að þessi lánamöguleiki geti skapað svigrúm til framkvæmda og þar með aukna atvinnu í byggingariðnaði, til dæmis ef sveitarfélög vilja nýta slík lán til viðhalds á leiguíbúðum sínum.

Rýmri heimildir til að veita fötluðu fólki aukalán vegna sérþarfa

Til þessa hefur einungis verið heimilt að veita fötluðu fólki aukalán vegna sérþarfa hafi slíkt lán komið til viðbótar öðrum fasteignaveðlánum frá Íbúðalánasjóði. Með breytingunni er þetta skilyrði fellt brott og heimilað að veita aukalán óháð því hver er lánveitandi annarra fasteignalána sem hvíla á íbúðarhúsnæðinu. Jafnt aðgengi fatlaðra að þessum lánamöguleika er þannig tryggður. Auk þessa eru gerðar ýmsar breytingar til einföldunar við framkvæmd þessara lána til hagsbóta fyrir fatlaða.

Lengri lánstími

Í reglugerðunum eru einnig þau nýmæli að lánstími lána til byggingar eða kaupa á sambýlum fatlaðra er lengdur úr 25 árum í 40 og sama máli gegnir um lánstíma lána vegna meiriháttar utanhússviðgerða innlausnaríbúða. Lánstími viðgerðarlána til byggingar eða kaupa á vistheimilum fyrir börn og unglinga er lengdur úr 25 árum í 40 og sömuleiðis lánstími lána til byggingar eða kaupa á vistheimilum fyrir börn og unglinga.

Skerðing á lánsfjárhæð vegna opinberra framlaga fellur niður

Hætt verður að skerða lánsfjárhæðir sjóðsins vegna opinberra framlaga. Þetta á við um lán til byggingar eða kaupa á heimilum og dagvistarstofnunum fyrir aldraða, sambýlum fyrir fatlaða, lán til leiguíbúða og lán til byggingar eða kaupa á vistheimilum fyrir börn og unglinga. Samkvæmt reglugerðinni er nú miðað við að lán úr Íbúðalánasjóði og annað fjármagn verði þó aldrei hærra en sem nemur kaupverði eða byggingarkostnaði.

Heimild til veðlánaflutninga milli leiguíbúða

Með breytingu á reglugerð um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur getur Íbúðalánasjóður heimilað að veðlán sem veitt hafa verið til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum séu flutt milli leiguíbúða að því tilskildu að íbúðirnar séu í eigu sama lántaka, þ.e. félags, félagasamtaka eða sveitarfélags, og að önnur skilyrði sjóðsins séu uppfyllt. Til þessa hafa heimildir til veðlánaflutninga einungis náð til einstaklingslána.

Tenging frá vef ráðuneytisinsReglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs nr. 57/2009

Tenging frá vef ráðuneytisinsReglugerð um breytingu á reglugerð nr. 873/2001, um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, nr. 56/2009

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum