Hoppa yfir valmynd
12. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áhrif kreppunnar á börn og unglinga

„Hin rétta mæling á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum“ sagði Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, þegar hún setti ráðstefnu Lionshreyfingarinnar í dag um áhrif kreppunnar á börn og unglinga. Ráðherra vísaði þar til ályktunar UNICEF frá árinu 2007 þar sem fjallað er um mikilvægi þess að þjóðir gæti að heilsu barna og öryggi, efnislegum þörfum, menntun þeirra og félagsmótun og tilfinningu þeirra fyrir að vera elskuð, virt og hluti af þeirri fjölskyldu og samfélagi sem þau fæðast til. „Þetta tel ég að íslensk stjórnvöld eigi að hafa hugfast við forgangsröðun verkefna framundan.“

Ráðherra fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að afla greinargóðra upplýsinga um stöðu barna og fjölskyldna og greina hvaða hópar stæðu verst gagnvart áhrifum kreppunnar. Slíkar upplýsingar væru mikilvægar við ákvarðanir um aðgerðir og forvarnastarf. Ráðherra ræddi um hlutverk velferðarvaktarinnar sem fjallar um félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar kreppunnar á einstaklinga og fjölskyldur. Einnig kom fram í máli hennar að hún hefur óskað eftir tillögum frá Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands um leiðir og aðgerðir til að standa sem best vörð um hagsmuni barna í landinu og um rannsóknir sem gera þurfi á aðstæðum barna og heimilanna til að fá betri yfirsýn og staðreyndir að byggja á. „Við búum svo vel að hér á landi eru margir færir sérfræðingar og fræðimenn með mikla þekkingu á málefnum barna og fjölskyldna sem eru reiðubúnir að leggja sitt af mörkum til umræðu og aðgerða.“ 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum