Hoppa yfir valmynd
8. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 8. maí 2009

Mætt: Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Garðar Hilmarsson (GH), tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB) tiln. af SA, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Páll Ólafsson, tiln. af Bandalagi háskólamanna, Sigurrós Kristinsdóttir (SK), tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Halldóra Gunnarsdóttir f.h. Stellu K. Víðisdóttur (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, og Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, auk Þorbjarnar Guðmundssonar (ÞG) og Ingibjargar Broddadóttur (IB) sem stýrði fundi í forföllum formanns og Lindu Rósar Alfreðsdóttur sem ritaði fundargerð.

1. Fundargerð 7. fundar stýrihópsins

Fundargerðin var samþykkt.

2. Umræða um fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda

Halldóra Gunnarsdóttir (HG), framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, sótti fundinn fyrir hönd Stellu K. Víðisdóttur og starfsmenn barnaverndar Hafnarfjarðar þær María Hjálmarsdóttir og Guðríður Guðmundsdóttir voru gestir fundarins. Þær fóru yfir barnaverndartilkynningar til barnaverndarnefnda Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á undanförnum mánuðum.

HG lagði fram gögn um stöðu tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur á fyrsta ársfjórðungi 2009 og innviði Barnaverndar Reykjavíkur. Í máli hennar kom fram að stígandi hefði verið í tilkynningum til barnaverndar og einungis á árinu 2008 hafi tilkynningum fækkað. Marktæk fjölgun sé á tilkynningum til barnaverndar á fyrsta ársfjórðungi 2009 og þá beri helst að líta til tilkynninga frá skólum. Búið sé að skipa þverfaglegan vinnuhóp sem fjalla á um alvarlegustu tilkynningarnar sem berast frá grunnskólum og á vinnuhópurinn að skila tillögum sínum 15. júní 2009.

Í máli HG kom fram að þegar litið sé til fyrsta ársfjórðungs árin 2005–2009 þá kemur fram aukning árið 2009. Töluverð aukning sé á málum sem eru tilkynnt til barnaverndar og ákvörðun er tekin um að kanna nánar og gefur það til kynna að fleiri börn séu í vanda. HG segir að viðmið þeirra starfsmanna sem ákveða hvort eigi að kanna mál nánar hafi ekki breyst í gegnum árin. Fram kom að álag á starfsmenn hefði aukist og málum sé forgangsraðað. Tekið verði tillit til barnaverndarmála þegar komi að niðurskurði hjá Reykjavíkurborg samkvæmt HG.

Samkvæmt tölum frá barnaverndarstarfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar sé ekki breyting á tilkynningum til barnaverndarnefndarinnar. Hins vegar sé aukning í tilkynningum frá skólum. Það hafi verið jöfn aukning í tilkynningum í gegnum árin og tilkynningar varðandi vanrækslu hafi aukist. Umsóknir varðandi umgengnismál í kjölfar skilnaða hafi aukist.

Rætt var um þörfina á því að finna nýjar leiðir fyrir fólk að þeirri þjónustu sem í boði sé. Ástæðan sé sú að um nýja notendur er að ræða að einhverju leyti og leitast þarf við að komast að því hvar fólki líði vel með að leita þjónustu.

IB spurði hvað velferðarvaktin gæti gert til að styrkja barnaverndina og með hvaða hætti væri rétt að bregðast við þessari aukningu á tilkynningum. Rætt var um að þörf væri á að tryggja forvarnastarf en hluti af sparnaðarráðstöfunum væri að draga úr forvarnastarfi í skólunum.

Í máli PÓ kom fram að aukning væri á tilkynningum til barnaverndar í öðrum sveitarfélögum og gistinætur á Stuðlum hefðu aukist um 85%. Hins vegar væru gistinætur í Kvennaathvarfinu og á Stígamótum þær sömu nema komum erlendra kvenna hefði fækkað. Þörf væri á að auka stöðugildi starfsmanna í barnaverndarmálum og að hafa opna miðstöð fyrir börn á Reykjavíkursvæðinu.

Rætt var um að kanna frekar hví fólk sé ekki upplýst um þau úrræði sem eru í boði. Leggja þurfi mat á hvernig þau úrræði sem eru til staðar virki fyrir fólkið og þá jafnvel á hvaða hópa. Þörf sé á góðri samvinnu milli sveitarfélaga og barnaverndaryfirvalda og tryggja þarf að niðurskurðurinn sé vel ígrundaður.

Í máli nefndarmanna kom fram að þörf væri á að skoða heildarmyndina, greina vandann og halda til haga hvernig málin þróuðust í öðrum löndum sem lent hafa í efnahagshremmingum. Þörf sé á að forgangsraða verkefnum og koma með tillögur til yfirvalda um hvernig eigi að bregðast við þeim vanda sem blasir við. Það þurfi að huga sérstaklega að börnunum þegar hugað sé að niðurskurði. Einnig sé þörf á að huga að því hvernig unnt sé að nýta þann mannauð sem til staðar er og leita nýrra leiða við að samþætta vinnu milli ríkis, sveitarfélaga og þriðja geirans. Það var mat nefndarmanna að þriðji geirinn hefði sýnt mikinn styrk við það ástand sem sé í samfélaginu núna.

IB tók saman helstu niðurstöður umræðnanna:

  • Fjölgun í tilkynningum til barnaverndarnefnda er vísbending um aukinn vanda barna, sem þarf að kanna nánar hið fyrsta og bregðast við.
  • Þess þarf að gæta að sparnaðaraðgerðir ríkis og sveitarfélaga bitni ekki á börnum, einkum þarf að huga að þeim börnum sem veikast standa.
  • Þörf er á að styrkja forvarnastarf í skólum í stað þess að skera niður.
  • Þörf er á því að samnýta kraftana þvert á ríki og sveitarfélög og þriðja geirann.
  • Skoða þarf nánar þróunina í barnaverndarmálum og velferðarvaktin fari nánar yfir stöðuna í barnaverndarmálum í samvinnu við sveitarfélögin og Barnaverndarstofu.

4. Önnur mál

Óskað var eftir fræðslu fyrir fagfólk um þau úrræði sem eru í boði hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. IB sagði frá því að verið sé að undirbúna kálf sem eigi að dreifa með Fréttablaðinu um hvaða úrræða stjórnvöld hafa gripið til vegna efnahagshrunsins sem eiga að koma heimilunum til góða.

Næsti fundur verður föstudaginn 15. maí 2009 kl. 14.00–16.00 hjá Samiðn.

Fundargerð ritaði Linda Rós Alfreðsdóttir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum