Hoppa yfir valmynd
22. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 15/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 19. maí 2009

í máli nr. 15/2009:

Kraftur hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 4. maí 2009, kærir Kraftur hf. útboð Ríkiskaupa nr. 14540 – Ellefu sameyki: Flugbrautarsópar og dráttarbifreiðar með snjótönnum fyrir Keflavíkurflugvöll ohf. og Flugstoðir ohf. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferlið þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari, sbr. 76. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
  2. Að kærunefnd útboðsmála ógildi þá ákvörðun kærða að samþykkja tilboð Aflvéla ehf. merkt A og þar með hafna tilboði kæranda.
  3. Að kaupanda verði gert að meta að nýju tilboð í útboði nr. 14540 og til vara að auglýsa útboðið á nýjan leik.
  4. Að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.
  5. Að kærða verði gert að greiða málskostnað.

Kærði skilaði athugasemdum með bréfi, dags. 15. maí 2009. Krefst hann þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

I.

Ríkiskaup, fyrir hönd Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf., leitaðu í febrúar 2009 eftir tilboðum í ellefu sameyki flugbrautarsópa og dráttarbifreiða með snjótönn til afhendingar á árunum 2009–2012 eins og nánar er lýst í útboðsgögnum. Þá áskildi kaupandi sér rétt til að taka hagstæðasta tilboði eða hafna öllum og jafnframt að taka hluta tilboðs og taka tilboði frá fleiri en einum aðila.

           Um var að ræða kaup á sameykjum, eins og þeim er lýst í almennri lýsingu í grein 1.1.1 í útboðslýsingu. Þar segir að sameyki sé í raun tækjasamstæða sem í heild sinni sé aðal snjóruðningstæki á öllum stærri flugvöllum á Íslandi. Yfirleitt vinni þau tvö eða fleiri saman og myndi þannig röð tækja sem taki hvert við af öðru við að ryðja snjó kerfisbundið af athafnasvæðum flugvéla.

            Í grein 1.2.3 í útboðslýsingunni er gerð grein fyrir því hvernig val á samningsaðila fari fram. Kemur þar fram að við mat á tilboðum verði eftirfarandi atriði höfð til hliðsjónar: Verð hafi 50% vægi, gæði/tæknilegar eiginleikar hafi 38% vægi, þjónustugeta (umboðsaðili, verkstæði, varahlutir) hafi 6% vægi, umhverfisþættir 4% vægi og loks samþætting 2% vægi. Er síðan greint með ítarlegri hætti frá því hvað felist í hverju og einu þessara atriða.

Tilboð voru opnuð 27. mars 2009 og var þeim ætlað að gilda í fjórar vikur frá opnun þeirra. Átta tilboð bárust, þeirra á meðal tilboð kæranda og tilboð Aflvéla ehf.

            Kærandi gerði athugasemdir við framkvæmd útboðsins og fundargerð tilgreinds fundar með bréfi, dags. 16. apríl 2009. Í svari kærða, dags. 30. apríl 2009, kemur fram að tilboð A frá Aflvélum ehf. hafi verið metið hagstæðast og það hafi verið tilkynnt þann 24. apríl 2009.

II.

Kærandi bendir á að ekki sé ágreiningur um að tilboð hans hafi verið eitt þeirra sem hafi komið til greina í umræddu útboði, sbr. 71. gr. laga nr. 84/2007. Byggir hann á því að við mat á tilboðum skuli gengið út frá hagstæðasta boði með vísan til forsendna sem settar hafi verið í útboðsgögnum, sbr. 72. gr., sbr. 45. gr. laga nr. 84/2007. Útboðið hafi verið í fjórum liðum, þar sem bjóðendur buðu verð í fjögur mismunandi tæki. Þetta hafi verið gert til að hægt hafi verið að velja saman hagstæðustu kostina miðað við fyrirfram gefið vægi mismunandi þátta, sbr. grein 1.2.3 í útboðslýsingu. Kærandi hafi meðal annars boðið MAN-dráttarbifreið, sem uppfylli öll skilyrði og kröfur sem gerðar hafi verið í útboðinu. Tilboðsverð hafi verið 18.342.023 krónur. Kærandi fullyrðir að tilboð Aflvéla ehf. í Scania-dráttarbifreið, sem kærði hafi ákveðið að ganga að, hljóði upp á 19.277.000 krónur, sem sé 5,1% hærra en tilboð kæranda. Kærandi rekur enn fremur lið fyrir lið að MAN-dráttarbifreið sú sem hann bjóði uppfylli öll þau matsskilyrði sem gerð hafi verið í útboðinu, jafnt hvað varðar gæði, tæknilega eiginleika og umhverfisþætti. Þá leggur kærandi áherslu á að í útboðsgögnum komi fram að bjóðendur skuli veita ákveðna þjónustu. Kærandi bjóði upp á fulla þjónustu, þar með talið ábyrgðarþjónustu á eigin verkstæði og varahlutaþjónustu á Íslandi. Bendir hann á að Aflvélar ehf. bjóði hins vegar ekki upp á neina þjónustu fyrir Scania-bifreiðar, hvorki viðgerðarþjónustu né þjónustu með varahluti.

            Kærandi telur það ljóst að tilboð hans í dráttarbifreið sé að öllu leyti hagstæðara en tilboð Aflvéla hf. Því sé það réttmæt krafa að gengið verði til samninga við kæranda um kaup á dráttarbifreiðum. Að mati kæranda eru uppfyllt lagaskilyrði til þess að stöðva innkaupaferli, sbr. 76. gr. laga nr. 84/2007 á meðan kæra þessi verður til lykta leidd.

III.

Kærði telur að hafna beri kröfu kæranda þar sem ekki sé grundvöllur til að taka hana til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup. Telur hann að rétt hafi verið staðið að mati tilboða og gerð útboðsgagna. Bendir hann á að tilboðin hafi verið yfirfarin og metin af aðilum sem búa yfir mikilli reynslu af kaupum og rekstri tækjabúnaðar fyrir flugvelli, þeirra á meðal aðstoðarframkvæmdastjóra flugvallarsviðs Keflavíkurflugvallar ohf. og flugvallarstjóra Reykjavíkurflugvallar og yfirmanni tækjakaupa allra flugvalla Flugstoða ohf.

            Kærði leggur áherslu á að 6. mars 2009 hafi borist fyrirspurn frá kæranda, sem hafi verið svarað þann 13. mars 2009 og sett samdægurs á heimasíðu kærða. Kærandi hafi óskað eftir að vita hvar mörk væru milli hverrar einingar í sameykinu. Ríkiskaup áskildu sér í kafla 1.2.2 rétt til að taka hluta útboðs og því gæti sameykið hugsanlega verið samansett af tækjum sem kæmu frá fjórum mismunandi bjóðendum. Telur kærði rétt að árétta það sem fram komi í svari hans við umræddri fyrirspurn að hægt verði að taka tilboði annars vegar í dráttarbifreið með snjótönn, með eða án undirtannar og hins vegar flugbrautarsóp. Með öðrum orðum sé lokað á möguleikann á að hluta snjótönn og undirtönn frá ökutækinu vegna þeirra vandamála er upp komi með tengingar og fleira, eins og fram komi í sjálfri fyrirspurninni.

Kærði byggir á því að verulegar líkur séu á því að val á tækjum frá fleiri en einum bjóðanda hafi í för með sér óþægindi og kostnað fyrir kaupanda, eins og komi fram í fyrirspurn kæranda. Þess vegna hafi verið tilgreint í svari kærða að dráttarbifreið og snjótönn yrðu valdar saman. Þær upplýsingar hafi verið birtar á heimasíðu kærða 19. mars 2009 og bjóðendur hafi ekki hreyft mótmælum við þeim. Telur kærði því að kæran eigi sér ekki grundvöll þar sem möguleikinn á að taka ökutækið eitt og sér út sé ekki fyrir hendi.

Að mati kærða hefur kæranda ekki tekist að sýna fram á að um brot sé að ræða og því beri að hafna öllum kröfum hans.

   

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 84/2007. Verður af þessum sökum að hafna kröfu kæranda um stöðvun á innkaupaferli vegna útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu Krafts hf. um stöðvun á innkaupaferli vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14540 – Ellefu sameyki: Flugbrautarsópar og dráttarbifreiðar með snjótönnum fyrir Keflavíkurflugvöll ohf. og Flugstoðir ohf. er hafnað.

 

 

                                                 Reykjavík, 19. maí 2009.

  

 Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

  Stanley Pálsson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 19. maí 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum