Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Nýsköpunarsjóður námsmanna styrktur

Katrín Jakobsdóttir, ráðherra mennta- og menningarmála, og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, hafa styrkt Nýsköpunarsjóð námsmanna um samtals 15 milljónir króna. Um er að ræða fimm milljónir frá ráðuneyti mennta- og menningarmála og tíu milljónir frá iðnaðarráðuneyti.

Með þessu vilja ráðherrarnir gefa háskólanemum möguleika á að stunda sumarvinnu við nýsköpun og rannsóknir og undirstrika þannig mikilvægi rannsókna og nýsköpunar í uppbyggingu Íslands. Stuðningur ráðuneytanna tveggja gerir Nýsköpunarsjóði námsmanna kleift að auglýsa eftir umsóknum að nýju. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur þótt spennandi kostur í tengslum við sumarvinnu, bæði fyrir háskólanema sem hafa hugmyndir að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum og sérfræðinga sem ráða vilja til sín háskólanema í sumarstörf.

Styrkir verða veittir til rannsóknar- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Umsóknir um styrki eru metnar með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífi og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein. Umsóknarfrestur er til 3. júní nk.

Úthlutað var úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir skömmu en fjöldi umsókna í Nýsköpunarsjóð jókst umtalsvert milli ára. Vorið 2008 bárust alls 187 umsóknir, í ár bárust 316 umsóknir. Umsóknum fjölgaði því um u.þ.b. 69% milli ára.

Nýsköpunarsjóður námsmanna var stofnaður að frumkvæði stúdenta árið 1992 til þess að útvega áhugasömum nemendum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarefni. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi við háskóla í sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni sem stuðla að nýsköpun og auknum tengslum atvinnulífs, stofnana og háskóla.Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira