Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Niðurstöður úr TALIS könnun OECD - alþjóðlegrar rannsóknar á viðhorfum og aðstæðum kennara og skólastjórnenda

Í dag birtir OECD fyrstu niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar á viðhorfum og aðstæðum kennara og skólastjórnenda. Jafnframt er birt skýrsla frá Námsmatsstofnun um hinn íslenska hluta rannsóknarinnar.

Í dag þann 16. júní 2009 birtir OECD fyrstu niðurstöður þessarar alþjóðlegu rannsóknar á viðhorfum og aðstæðum kennara og skólastjórnenda. Jafnframt er birt skýrsla frá Námsmatsstofnun um hinn íslenska hluta rannsóknarinnar.

TALIS rannsóknin (Teaching And Learning International Survey) er framkvæmd á vegum Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) og hefur verið nokkur ár í undirbúningi. Menntamálaráðuneytið ákvað að Ísland skyldi taka þátt í henni og fól Námsmatsstofnun að vinna verkið.

Rannsókninni er ætlað að fylla upp í þá mynd af skólakerfum landanna, sem þegar hefur fengist úr öðrum alþjóðlegum rannsóknum svo sem PISA, með því að afla gagna frá kennurum og skólastjórnendum um störf þeirra, vinnuumhverfi og aðstæður. Rannsóknin beinir sjónum að kennurum og skólastjórnendum á unglingastigi, (ISCED-2) en á Íslandi var ákveðið að hún myndi einnig fjalla um kennara á grunn- og miðstigi (ISCED-1).

Megináherslur rannsóknarinnar eru á:

 • Mat á störfum kennara og þá endurgjöf er þeir fá.
 • Starfsþróun kennara.
 • Viðhorf og skoðanir kennara um eigin kennslu.
 • Hlutverk og starfshætti skólastjórnenda.

24 lönd tóku þátt í rannsókninni og á Íslandi voru spurningalistar lagðir rafrænt fyrir alla kennara grunnskólans ásamt skólastjórum.

Nokkrar niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:

 • Rannsóknin sýnir að starfsánægja kennara er góð hér á landi.
 • Tiltrú kennara á eigin getu er með besta móti á Íslandi í samanburði við önnur þátttökulönd TALIS og mótast af gæðum samskipta þeirra við nemendur, tiltrú þeirra á ákveðinni kennslufræði, góðu skipulagi í kennslustundum, ástundun nýbreytni í kennsluháttum og faglegrar samvinnu, ásamt trú á því að nemendahópur þeirra sé yfir meðallagi.
 • Menntun kennara er minni hér á landi en víðast hvar í þátttökulöndum TALIS.
 • Færri eru með meistaragráðu eða meira og fleiri eru með menntun lægri en háskólagráðu.
 • Talsvert brottfall er úr kennarastétt eftir fyrsta ár í kennslu.
 • Fimmti hver kennari tók ekki þátt í neinu starfsþróunarverkefni undanfarna 18 mánuði. Rúmlega 70% kennara taka þátt í starfsþróunarverkefnum í 10 daga eða minna á sama tímabili.
 • Réttindanám og rannsóknaverkefni eru minna stunduð hér á landi en víða annars staðar í þátttökulöndum.
 • Áhugi á frekari starfsþróun er minni á Íslandi en víða annars staðar í TALIS- löndum.
 • Kennarar óska eftir meiri starfsþróun á sviði kennslu nemenda með sértækar námsþarfir, námsmats og um aga- og hegðunarvandamál.
 • Kennarar hér á landi aðhyllast hugmyndir hugsmíðahyggju (e. constructivism) um kennslu meira en í nokkru öðru þátttökulandi. Jafnframt hafna þeir hugmyndum um hefðbundna beina kennslu (Direct transmission).
 • Kennsluaðferðir karla eru meira í anda hefðbundinnar kennslu en aðferðir kvenna.
 • Kennarar telja að skólastóri hafi fremur lítil afskipti af kennslunni. Skólastjóri setur skóla og kennurum markmið, en hefur ekki bein afskipti af kennslu “á gólfinu”.
 • Aðeins um 40% kennara telja að borin sé virðing fyrir starfi kennara í sveitarfélaginu sem þeir starfa í.

Um nánari niðurstöður vísast til hinnar íslensku skýrslu og skýrslu OECD. Frekari úrvinnsla gagnanna stendur yfir á Námsmatsstofnun og í samvinnu við kennaramenntunarstofnanir og verður gagnagrunnur rannsóknarinnar aðgengilegur öðrum rannsakendum.

Niðurstöður má nálgast á vef Námsmatsstofnunar. Þar má finna íslenskra frumskýrslu um rannsóknina ásamt upphafsskýrslu frá OECD og samantekt rannsóknarinnar, einnig frá OECD.

Nánari upplýsingar um skýrslu OCED, Creating Effective Teaching and Learning Environments: First Results from TALIS, má nálgast á vef OECD.

Fyrirhugað er málþing á vegum menntamálaráðuneytis um niðurstöðurnar í ágúst 2009, en dagsetning verður auglýst síðar.


Tengd skjöl:


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira