Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Upphaf endurskipulagningar á stofnunum ráðuneytisins

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir meðal annars: „Lokið verði við endurskoðun almannatryggingakerfisins, með það að markmiði að gera það einfaldara og réttlátara og koma í veg fyrir víxlverkanir. Stefnt verði að því að sameina stofnanir á sviði almannatrygginga og vinnumála í eina stofnun um vinnu og velferð. Samhliða verði hugað að nýskipan örorku- og endurhæfingarmála þar sem litið verði til möguleika og getu en ekki eingöngu til sjúkdómsgreiningar og færniskerðingar.“

Í framhaldi af tilfærslu lífeyristrygginga til félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem kom til framkvæmda í ársbyrjun 2008 hafa kostir þess að sameina stofnanir ráðuneytisins á sviði almannatrygginga og vinnumála, þ.e Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins, verið til skoðunar. Stofnanirnar bera ábyrgð á öllum helstu tekjutilfærslukerfum ríkisins og gegna lykilhlutverki í að tryggja virkni á vinnumarkaði. Mikil skörun er milli hlutverka og verkefna stofnananna. Auk þess er ljóst að sameining stofnana getur verið lykilþáttur í að koma á nýju fyrirkomulagi starfshæfnismats og starfsendurhæfingar. Þannig bendir margt til að sameining geti falið í sér mikla möguleika til hagræðingar, bættrar þjónustu og aukins árangurs.

Í ljósi fyrrgreindrar stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar hefur verið ákveðið að vinna að frekari greiningu á hlutverkum, viðfangsefnum, skipulagi og kostum og göllum sameiningar þessara þriggja stofnana. Jafnframt verði kannað hvort og þá hvernig verkefni stofnana annarra ráðuneyta gætu fallið innan ramma sameinaðrar stofnunar og útibúanets hennar og jafnframt hvort einstökum verkefnum stofnananna þriggja væri betur komið fyrir í stofnunum annarra ráðuneyta.

Félags- og tryggingamálaráðherra kynnti í gær þessa stefnumörkun á fundum, annars vegar með forstjórum og stjórnarformönnum Tryggingastofnunar ríkisins, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins og hins vegar aðilum vinnumarkaðarins og hagsmunasamtökum. Þessi stefnumörkun byggist á forathugun þar sem farið hefur verið yfir kosti og galla slíkrar sameiningar en sú vinna hefur átt sér stað allt frá árinu 2007.

Á fundinum var kynnt skipan verkefnisstjórnar og ráðning sérstaks verkefnisstjóra og sérfræðinga sem munu vinna að undirbúningi málsins.

Mikilvægt er að huga vel að starfsmannamálum í góðu samráði við starfsfólk stofnananna og stéttarfélög þegar í upphafi verkefnisins. Þá er lögð áhersla náið samráð við stofnanirnar og að starfsmenn verði upplýstir reglulega um gang mála. Sömuleiðis verður haft náið samráð við aðila vinnumarkaðarins, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamband eldri borgara og Landssamtökin Þroskahjálp um þessar breytingar. Þá verða húsnæðismál tekin til sérstakrar skoðunar.

Mikilvæg forsenda þessara breytinga er sú endurskoðun á örorkumati sem nú stendur yfir en þar er lögð áhersla á leiðir til að auka starfsgetu með öflugri starfsendurhæfingu, jafnt á vegum aðila vinnumarkaðarins sem stjórnvalda. Inn í þetta fléttast jafnframt sú endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem hefur verið unnið að og er nú á lokastigi. Hvort tveggja hefur verið til ítarlegrar skoðunar á vegum ráðuneytisins.

Þá er mikilvægt að fyrirhugaðar breytingar á stofnanaumgjörðinni stuðli að bættri þjónustu við almenning. Jafnframt opna þessar breytingar leiðir til þess að samþætta ýmsa, oft á tíðum, ólíka þjónustuþætti og sameina starfsemina á einn stað. Í því felst ótvírætt hagræði fyrir hinn almenna borgara. Þetta atriði er ekki síst mikilvægt á landsbyggðinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum