Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2009 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara.

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara. Markmið frumvarpsins er að efla embættið svo að það verði betur í stakk búið að sinna lögmæltu hlutverki sínu við rannsókn refsiverðrar háttsemi í tengslum við hrun bankanna, og eftir atvikum saksókn. Embættið gegnir afar mikilvægu hlutverki í uppgjöri því sem nú er hafið vegna bankahrunsins og er rannsóknin nauðsynlegur liður í endurreisn íslensks samfélags.

Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

  • að embætti sérstaks saksóknara verði styrkt með skipan þriggja saksóknara við embættið sem hafi það hlutverk að stýra rannsókn og fara með saksókn.
  • að skipaður verði sérstakur ríkissaksóknari til að fara með eftirlit og aðrar skyldur sem ríkissaksóknara er í dag falið að hafa gagnvart embætti sérstaks saksóknara samkvæmt lögum um meðferð sakamála og lögum um sérstakan saksóknara.

Í frumvarpinu er auk þess lagt til að lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða verði breytt þannig að tilkynningar frá Rannsóknarnefnd Alþingis um grun um refsiverða háttsemi berist til sérstaks ríkissaksóknara í stað ríkissaksóknara eins og nú er.

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér nemi um 43 milljónum króna. Er þá ótalinn annar kostnaður sem ráðgjafi sérstaks saksóknara, Eva Joly, hefur talið að þurfi til viðbótar. Upphaflega var gert ráð fyrir fjárveitingum að upphæð 76 milljónir króna til embættisins, en þær voru auknar með ákvörðun ríkisstjórnarinnar í vor um tæpar 200 milljónir króna, eða alls 275 milljónir kr. á ársgrundvelli. Þannig var sérstökum saksóknara gert kleift að ráða allt að 20 manns til embættisins, að erlendum ráðgjöfum meðtöldum. Unnið er að því að meta heildarfjárþörf embættisins í ljósi þess nýja skipulags sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Framsöguræða Rögnu Árnadóttur dóms- og kirkjumálaráðherra

Frumvarp um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara á vef Alþingis



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum