Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 6/2009: Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 10. júní 2009

í máli nr. 6/2009:

Flugfélag Vestmannaeyja ehf.

gegn

Flugstoðum ohf.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2009, kærir Flugfélag Vestmannaeyja ehf. meinta vanrækslu Flugstoða ohf. á útboðsskyldu samkvæmt lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

  1. Kærandi gerir kröfu um stöðvun samningsgerðar eða innkaupaferlis um stundarsakir eða þar til skorið hefur verið úr kæru þessari.
  2. Kærandi gerir kröfu um að sú ákvörðun kærða að fela Mýflugi að annast rekstur flugvélar Flugstoða og framkvæmd flugverkefna sem henni fylgja verði felld úr gildi og lagt verði fyrir hinn kærða að bjóða verkið út í samræmi við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
  3. Kærandi gerir kröfu um að nefndin ákveði að hinn kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi sbr. heimild í 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
  4. Kærandi óskar eftir því að kærunefnd útboðsmála gefi álit á hugsanlegri skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Kærði krefst þess aðallega að öllum kröfum kæranda verði vísað frá, en til vara að þeim verði hafnað.

Með ákvörðun, dags. 17. mars 2009, hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu um stöðvun samningsgerðar eða innkaupaferlis um stundarsakir vegna reksturs flugvélar Flugstoða ohf., TF-FMS, og framkvæmd flugverkefna er henni fylgja.                                                           

I.

Kærandi er flugfélag sem gerir einkum út á flug milli Vestmannaeyja og Bakkaflugvallar. Kærði og Mýflug hf. undirrituðu 1. febrúar 2008 samning um rekstur Mýflugs hf. á flugvél kærða og framkvæmd flugverkefna er henni fylgja. Um var að ræða flugmælingar þar sem Mýflug hf. lagði til áhöfn en mælingar skyldu framkvæmdar af sérfræðingum kærða. Samkvæmt  samningum var Mýflugi hf. heimilt að nýta flugvélina í eigin þágu þegar hún var ekki í notkun á vegum kærða. Samningurinn var til eins árs og var um tilraunaverkefni að ræða.

Í kjölfar þess að kæranda varð kunnugt um samninginn óskaði hann eftir afriti af samningnum, nánari upplýsingum um efni hans og hvort verkið hefði verið boðið út. Í svari kærða 18. apríl 2008 kom fram að umræddur samningur hefði verið tilraunaverkefni til eins árs og í ljósi þess hefði ekki verið talið nauðsynlegt að bjóða verkefnið út. Jafnframt var synjað um afhendingu á afriti samningsins á þeirri forsendu að efni hans væri trúnaðarmál.

Þann 21. maí 2008 kærði kærandi synjun kærða á afhendingu umræddra gagna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Málinu var vísað frá nefndinni, þar sem það heyrði ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996.

Með bréfi til kærunefndar útboðsmála, dags. 27. ágúst 2008, kærði kærandi kærða vegna meintrar vanrækslu félagsins á útboðsskyldu samkvæmt lögum nr. 84/2007. Nefndin vísaði málinu frá með úrskurði nr. 14/2008, þar sem kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 hafði verið liðinn þegar kæran var borin undir nefndina.

Með nýjum samningi á milli kærða og Mýflugs hf., dags. 30. janúar 2009, var hinn fyrri samningur framlengdur til og með 30. september 2009. Var það mat kærða að meiri tíma þyrfti en hið upphaflega ár til tilraunaverkefnisins, meðal annars til þess að skapa nauðsynlegt ráðrúm til að gera úttekt á því hvernig til hefði tekist.

Fyrir liggur sú ákvörðun kærða að efna á vormánuðum til opinberra innkaupa, með fulltingi Ríkiskaupa, vegna þeirrar þjónustu sem gildandi samningur tekur til. Gerður verður nýr samingur sem taki gildi frá og með 1. október á grundvelli niðurstaðna hinna opinberu innkaupa.

II.

Kærandi telur að kærði teljist opinber aðili í skilningi 3. gr. laga nr. 84/2007 af þeirri ástæðu að félagið geti borið réttindi og skyldur að lögum auk þess sem það hafi verið stofnað í þeim tilgangi að þjóna almannahagsmunum. Í því sambandi tilgreinir kærandi athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands. Af þeim megi ráða að stofnað hafi verið til kærða fyrst og fremst í þeim tilgangi að fela félaginu að þjóna mikilvægum almannahagsmunum, það er að annast uppbyggingu og rekstur flugvalla á Íslandi og annast leiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Þá bendir kærandi á að gert sé ráð fyrir að samgönguráðherra geti gert samninga við félagið um veitingu tiltekinnar þjónustu á afmörkuðum landsvæðum, til almannaheilla og í öryggisskyni, sem ljóst sé að skili ekki arði til félagsins.

Telur kærandi ljóst að öllum skilyrðum 1. málsliðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 84/2007 sé fullnægt. Því til viðbótar uppfylli kærði tvö af þremur skilyrðum a. til c. liðar sömu greinar. Í fyrsta lagi sé félagið að mestu leyti rekið á kostnað íslenska ríkisins. Í öðru lagi skipi ríkið stjórn félagsins.

Kærandi aflaði sér upplýsinga úr loftfaraskrá Flugmálastjórnar Íslands 27. febrúar 2009, þar sem fram kom að umrædd flugvél, TF-FMS, væri enn skráð í umráðum Mýflugs hf. Í ljósi þeirra upplýsinga taldi hann þann kost nauðugan einan að kæra þá háttsemi kærða að sniðganga algjörlega reglur um opinber innkaup í aðdraganda þess að félagið keypti þjónustu vegna reksturs flugvélar sinnar og flugverkefna sem henni fylgja. Kærandi kveður kæru þessa lagða fram á grundvelli 93. gr. laga nr. 84/2007 og bendir á að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls enda telji hann sig hafa getað boðið kærða þá þjónustu sem keypt hafi verið af Mýflugi hf. án útboðs.

Kærandi vísar til þess að kröfugerð hans sé því marki brennd að hann búi ekki yfir fullnægjandi upplýsingum um það hvort eldri samningur við Mýflug hf. hafi verið framlengdur eða hvort nýr samningur hafi verið gerður við félagið.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 5. maí 2009, mótmælir hann staðhæfingu kærða um að ekki hafi verið nauðsynlegt að þjálfa sérstaklega þá flugmenn sem tóku að sér að fljúga flugvél hans (TF-FMS) af þeirri ástæðu að Mýflug hf. geti ekki nýtt þá flugmenn sem séu á bakvakt sjúkraflugvélar fyrirtækisins (TF-MYX) til þess að fljúga flugvél kærða á sama tíma. Hinn skammi útkallstími samkvæmt ákvæðum samnings heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við Mýflug hf. um sjúkraflug komi í veg fyrir að hægt sé að nýta bakvakt sjúkraflugvélarinnar. Þó sé ekki loku fyrir það skotið að Mýflug hf. hafi þjálfað tvær áhafnir á sjúkraflugvélina. Ákvæði reglugerðar nr. 782/2001 um flug- og vinnutímatakmörk og hvíldartíma flugáhafna takmarki slíkt verulega.

Kærandi telur að það hefði tekið hann skamman tíma að þjálfa flugmenn á flugvél kærða. Almennt sé viðurkennt að þjálfun flugmanna á nýjar tegundir flugvéla taki eina til þrjár vikur eftir tegund vélar.

Þá mótmælir kærandi fullyrðingum kærða um að nauðsynlegt hafi verið að framlengja samning aðila þar sem meiri tíma hafi þurft en hið upprunalega ár til tilraunaverkefnisins. Bendir kærandi á að 12 mánuðir hafi verið nægilegur tími til þess að gera úttekt á því hvernig tókst til með samninginn.

Að mati kæranda er ákvörðun kærða, um að framlengja umræddan samning við Mýflug hf. án þess að efna til opinberra innkaupa, til þess fallin að raska samkeppni á íslenskum flugmarkaði. Fullyrðir kærandi að á þessum reynslutíma hafi flugvélin TF-FMS verið lítið nýtt til flugmælinga. Þess í stað hafi Mýflug nýtt sér vélina í samkeppni við aðra flugrekendur bæði í leigu- og sjúkraflugi. Vegna samningsins við kærða hafi fyrirtækið getað framleigt vélina með áhöfn á kjörum sem aðrir flugrekendur geti ekki keppt við.

Kærandi hafnar röksemdum kærða um að vísa beri máli þessu frá sökum vanreifunar. Leggur hann ríka áherslu á að kærunefnd útboðsmála fjalli efnislega um málið og gefi álit sitt á hugsanlegri skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Þá hafnar kærandi ennfremur athugasemdum kærða um að skilyrði skaðabótaábyrgðar geti ekki talist uppfyllt og ólíklegt sé að kærandi hefði getað fengið verkið af þeirri ástæðu að Mýflug hf. hafi verið eina hérlenda flugfélagið með sams konar flugvél og kærði. Kærandi telur að þessi fullyrðing sé órökstudd og bendir á að honum sé ómögulegt að færa sönnur á að samið hefði verið við hann, þar sem kærði hafi ávallt neitað að afhenda samninga sína við Mýflug hf. og upplýsa um virði þeirra. Telur kærandi að hann hefði átt góða möguleika á því að fá samninginn hefði hann verið boðinn út, enda hafi hann getið sér gott orð í áætlunar-, leigu- og sjúkraflugi á síðastliðnum 27 árum. Fastráðnir flugmenn hjá félaginu séu sex en auk þeirra hafi kærandi á sínum snærum fleiri flugmenn sem hann geti leitað til með skömmum fyrirvara vegna stærri verkefna. Þá bendir kærandi á að á síðastliðnum árum hafi hann tekið þátt í útboðum hjá Ríkiskaupum bæði á sviði sjúkra- og áætlunarflugs og hafi hann oft fengið þau verkefni sem boðin hafa verið út.

Af öllu framangreindu virtu telur kærandi að sú málsástæða kærða að nauðsynlegt hafi verið að undirrita nýjan samning við Mýflug hf. sökum tímaskorts geti ekki talist vera réttlætingarástæða fyrir því að ekki hafi verið farið að ákvæðum laga nr. 84/2007. Þá ítrekar hann að sú málsástæða kærða sem lúti að því að sérstakt kostnaðarhagræði hafi falist í því að semja við Mýflug hf. sé haldlaus, enda hafi staðhæfingin ekki verið studd neinum gögnum, svo sem kostnaðaráætlun, tilboðum eða öðru. Fullvíst megi telja að kærði hefði náð raunverulegu kostnaðarhagræði hefði félagið farið að lögum nr. 84/2007 og boðið rekstur flugvélarinnar út.  

III.

Kærði telur slíka annmarka á málatilbúnaði kæranda að til álita hljóti að koma að vísa málinu, bæði í heild sinni og einstökum kröfuliðum, frá kærunefndinni. Er þá meðal annars horft til þess að kærandi rökstyðji í engu, að því er best verði ráðið, einstakar málsástæður og lagarök séu óljós.

Að mati kærða verði að telja að 2. kröfuliður kæranda sé í andstöðu við 100. gr. laganna. Ennfremur sé 4. kröfuliður kæranda verulega vanreifaður. Vísa beri kröfum kæranda frá á þessum grundvelli.

Kærði byggir á því að félagið geti ekki, að þess mati, talist falla undir lög nr. 84/2007, að minnsta kosti ekki í því samhengi sem umþrættur samningur taki til. Slíkt varði einnig frávísun á kröfum kæranda. Kærði leggur áherslu á að ekki hafi sérstaklega verið til félagsins stofnað í þeim tilgangi að „þjóna almannahagsmunum“ heldur hafi félaginu verið ætlað að taka yfir tiltekna einkaréttarlega starfsemi sem áður var rekin undir merkjum Flugmálastjórnar Íslands. Slíkt hafi einmitt verið meginmarkmið aðgreiningarinnar. Ljóst sé því að um sé að ræða starfsemi „sem jafnað verði til starfsemi einkaaðila“. Hlutverk kærða sé þannig að annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi, annarra en Keflavíkurflugvallar. Aukinheldur annist kærði alla flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veiti fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Flugmálastjórn Íslands fari hins vegar með stjórnsýslu og eftirlit á sviði loftferða hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði. Þá bendir kærði á lög nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands, þar sem gerður sé sérstakur greinarmunur á annars vegar stjórnsýsluþættinum, sem telja verði opinbers réttar eðlis og sé í höndum Flugmálastjórnar, og hins vegar rekstrarþættinum sem slíkum, sem sé í höndum kærða, og telja verði í grunninn einkaréttarlegs eðlis. Í öllu falli megi jafna slíkri starfsemi til starfsemi einkaaðila.

Kærði leggur áherslu á að krafa kæranda, um að ákvörðun kærða um að fela Mýflugi hf. að annast rekstur flugvélar hans og framkvæmd flugverkefna sem henni fylgja verði felld úr gildi, sé í engu rökstudd, þannig skorti til dæmis tilvísun til viðeigandi lagaákvæða. Ætla verði að umrædd krafa sé grundvölluð á ákvæði 97. gr. laga nr. 84/2007. Telur kærði að tilvísuð krafa sé í skýrri andstöðu við ákvæði 100. gr. laganna, þar sem í því ákvæði sé sérstaklega tiltekið að eftir að bindandi samningur sé kominn á, sbr. einnig 76. gr. laganna, svo sem hér sé ástatt verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Þegar af þeim ástæðum verði að hafna tilvísaðri kröfu.

Þá bendir kærði á að samningur kærða og Mýflugs hf. hafi ekki verið gerður á grundvelli opinberra innkaupa. Af því leiði jafnframt að ákvæði 97. gr. laganna um heimild til að fella úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa eigi ekki við, þar eð ákvæðið taki til einstakra ákvarðana kaupanda á grundvelli útboðsferlis samkvæmt lögunum. Verði jafnframt af þessum ástæðum að hafna umræddum kröfulið.

Kærði telur ennfremur að krafa kæranda um málskostnað sé í engu rökstudd. Ætla verði að hún byggi á 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Að mati kærða séu engin efni til að fallast á þessa kröfu, þar sem hann telji að hafna verði öllum kröfum kæranda í málinu, að svo miklu leyti sem þeim verði ekki vísað frá.

Loks telur kærði málatilbúnað kæranda þess eðlis að ekki verði ráðið af honum hver hin meinta bótaskylda háttsemi sé heldur virðist kærandi eftirláta kærunefndinni að leggja allt mat á það. Kærða sé því ekki stætt að taka afstöðu til kröfu kæranda um álit nefndarinnar á skaðabótaskyldu kærða vegna meintra brota.

Hvað sem öðru líður hafnar kærði því að skilyrði skaðabótaábyrgðar geti almennt talist uppfyllt. Nægi í þessu sambandi að vísa til þess að ekkert bendi sérstaklega til þess að kærandi hefði fengið umþrætt verk, fremur en einhver annar, hefði það verið boðið út. Þvert á móti verði það að teljast ólíklegt ekki síst í ljósi þess að Mýflug hf. hafi verið eina hérlenda flugfélagið með sams konar flugvél og kærði. Því hefði ekki verið nauðsynlegt að þjálfa sérstaklega flugmenn. Slíkt kostnaðarhagræði hefði ekki fylgt samningnum við kæranda og hann því aldrei, þannig að líklegt mætti teljast, fengið verkið. Grunnskilyrði skaðabótaábyrgðar um tjón, orsakatengsl og fleira teljist þannig ekki uppfyllt í málinu og verði þegar af þeim ástæðum að hafna kröfum kæranda hér að lútandi.

IV.

Kærði byggir meðal annars á því að lög nr. 84/2007 taki ekki til hans á þeim grundvelli að hann reki ekki starfsemi sem jafnað verði til starfsemi einkaaðila, sbr. 3. gr. laga nr. 84/2007. Kærunefnd útboðsmála telur að af lögum nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, frumvarpi til sömu laga og samþykktum kærða megi ráða að til hans hafi verið stofnað í því skyni að þjóna almannahagsmunum. Þannig er í 1. mgr. 10. gr. laganna kveðið á um að samgönguráðherra sé heimilt að gera samninga við félagið um uppbyggingu og rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu til að tryggja að uppbygging, rekstur og þjónusta á þessum sviðum sé í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum á hverjum tíma.
Ennfremur segir í 2. mgr. sömu greinar að óski stjórnvöld eftir því að félagið veiti þjónustu, leggi í framkvæmdir eða rekstur, svo sem vegna þjónustu á tilteknu landsvæði, til almannaheilla, í öryggisskyni eða vegna annarra ástæðna, sem ljóst sé að ekki skili arði, skuli gera um það samning milli samgönguráðherra og félagsins. Þá er samgönguráðherra veitt heimild í 11. gr. laga nr. 102/2006 til þess að fela félaginu að fara með réttindi og annast skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktum, alþjóðasamningum eða samningum við önnur ríki, þar með talið vegna Alþjóðaflugþjónustunnar, enda samrýmist slíkt tilgangi félagsins. Er félaginu skylt að fara að fyrirmælum framangreindra stjórnvalda þar að lútandi sem og öðrum fyrirmælum þeirra er varða framkvæmd og efndir slíkra samninga og annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga. Þá er á heimasíðu kærða greint frá því að hann annist alla flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veiti fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Telur kærunefnd útboðsmála að framangreind atriði bendi frekar til þess að til hans hafi verið stofnað í því skyni að þjóna almannahagsmunum og hann reki ekki starfsemi sem jafnað verði til starfsemi einkaaðila. Verður málinu því ekki vísað frá af þessum sökum.

Kærunefnd útboðsmála fellst ekki á röksemdir kærða um að mál kæranda sé það vanreifað að það varði frávísun. Kærandi tiltekur að málatilbúnaður hans beri þess merki að hann hafi ekki haft nægilegar upplýsingar til þess að byggja á. Að mati kærunefndar er mál þetta tækt til efnislegrar meðferðar og ber því að hafna kröfu kærða um frávísun vegna vanreifunar.

Ákvæði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 veitir kærunefnd útboðsmála heimild til að fella úr gildi með úrskurði ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa að hluta eða í heild. Við notkun þeirrar heimildar ber nefndinni hins vegar að gæta að ákvæði 100. gr. sömu laga, þar sem segir að samningur verði ekki felldur úr gildi eða honum breytt eftir að bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laganna er kominn á, jafnvel þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið óheimil. Samkvæmt þessu getur nefndin eingöngu fellt úr gildi eða breytt ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa áður en samningur er gerður. Eina undantekningin frá skýru ákvæði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 er að nefndinni er veitt heimild til að ógilda samning og leggja fyrir kaupanda að bjóða út tiltekin innkaup, auglýsa útboð á nýjan leik eða fella niður tiltekna ólögmæta skilmála í útboðsgögnum ef kaupandi gerir samning í trássi við ákvörðun nefndarinnar um stöðvun um stundarsakir, sbr. 2. mgr. 100. gr. laganna.

Kærði undirritaði samning við Mýflug hf. 1. febrúar 2008. Samningurinn var tilraunaverkefni og þar sem kærði taldi nauðsynlegt að reynslutíminn yrði lengri var samningurinn framlengdur 30. janúar 2009 til 1. október 2009. Að þeim tíma loknum fyrirhugar kærði að gera nýjan samning á grundvelli opinbers útboðs. Að mati kærunefndar útboðsmála hefði verið æskilegra ef kærði hefði í upphafi boðið verkið út í samræmi við lög nr. 84/2007 og gert samning eftir niðurstöðu þess útboðs. Telja verður að við aðstæður sem þessar sé hætta á að jafnræði væntanlegra bjóðenda sé raskað og einn aðili öðlist mikilvægt forskot umfram aðra meðan á tilraunaverkefninu standi. Engu að síður telur kærunefnd útboðsmála sér ekki heimilt lögum samkvæmt að ógilda samning kærða við Mýflug hf. í samræmi við það sem að framan er rakið. Verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar kærða um að fela Mýflugi hf. að annast rekstur flugvélar kærða og framkvæmd flugverkefna sem henni fylgja og að lagt verði fyrir hinn kærða að bjóða verkið út í samræmi við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Kærunefnd útboðsmála telur kæranda ekki hafa sýnt fram á það með nægilegum röksemdum að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kærða og möguleikar hans hafi skerst við brotið, sbr. 101. gr. laga nr. 84/2007. Er það álit nefndarinnar að kærði sé því ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laganna vegna þeirrar háttsemi sem deilt er um.

Kærunefndin getur ákveðið að varnaraðili greiði kæranda málskostnað vegna reksturs máls fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Slík ákvörðun kemur að jafnaði aðeins til greina þegar varnaraðili tapar máli fyrir nefndinni í verulegum atriðum. Fyrrnefnt ákvæði ber þó að skilja svo að þegar sérstaklega stendur á og rík sanngirnisrök mæla með því megi bregða frá meginreglunni og úrskurða kæranda hluta málskostnaðar hafi hann haft ærna ástæðu til þess að reyna á rétt sinn með kæru til nefndarinnar. Nefndin telur að eins og hér stendur á sé rétt að úrskurða kæranda hluta málskostnaðar síns, þannig að kærða verði gert að greiða honum 200.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Flugfélags Vestmannaeyja ehf. um að sú ákvörðun kærða, Flugstoða ohf., að fela Mýflugi hf. að annast rekstur flugvélar Flugstoða og framkvæmd flugverkefna sem henni fylgja verði felld úr gildi og lagt verði fyrir kærða að bjóða verkið út í samræmi við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er hafnað.

Kærði greiði kæranda 200.000 krónur vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

Kærunefndin lætur uppi það álit sitt að kærði sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda á grundvelli 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007.

                                            

                                     Reykjavík, 10. júní 2009.

                                                         

                                                            Páll Sigurðsson

                                                            Sigfús Jónsson

                                                            Stanley Pálsson

 

                                                              

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 10. júní 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum