Hoppa yfir valmynd
5. október 2009 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða forsætisráðherra 5. október 2009

Virðulegi forseti.

Góðir Íslendingar.

Þing kemur nú saman eftir óvenjulega stutt hlé - á ári sem aldrei mun líða okkur úr minni. Þessi tími hefur verið þjóðinni afar erfiður því við urðum öll fyrir miklu áfalli þar sem svo margt brást sem við höfðum treyst á. Það er því ekki nema eðlilegt að fólk sé ýmist reitt eða óöruggt, vonsvikið eða uppgefið og upplifi sig svikið.

Sérfræðingar tala um að Ísland hafi orðið fyrir stærstu gjaldeyris- og fjármálakreppu sem nokkurt land hafi lent í á friðartímum. Við séum að glíma við vanda sem sé umfangsmeiri og flóknari en aðrar þjóðir hafi glímt við áður.

En við skulum engu að síður þakka fyrir það, að frá því að hörmungarnar dundu yfir höfum við sem þjóð staðið okkur betur en svörtustu spár gerðu ráð fyrir.

Við höfum tekist á í lýðræðislegri umræðu - við höfum efnt til kosninga - við höfum tekið stórar og stefnumarkandi ákvarðanir og okkur hefur tekist að halda uppi atvinnulífi og þjónustu umfram allar áætlanir. Ég hika ekki við að segja að víða í okkar stjórnkerfi; í stofnunum, fyrirtækjum, skólum, heilbrigðis- og velferðarþjónustu og sveitarfélögum hafa verið unnin afrek við að halda hlutunum gangandi.

Verum þakklát fyrir að við Íslendingar erum upp til hópa dugandi fólk og staðráðin í að vinna okkur út úr hverjum þeim vanda sem við okkur blasir.

Við þurfum nú að gera upp, endurreisa það sem fallið er og stokka upp okkar mál þannig að íslenskt samfélag verði betra en það var fyrir hrun. Við stöndum á tímamótum í íslensku samfélagi. Hugmyndakerfi frjálshyggjunnar og óhefts markaðar er hrunið. Framundan er uppbygging samfélags á nýjum grunni jafnaðarstefnu og félagshyggju.

Við erum þegar í miðju sársaukafullu uppgjöri. Rannsóknarnefnd Alþingis skilar skýrslu sinni um ástæður hrunsins að mánuði liðnum. Henni mun verða fylgt fast eftir. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að styðja rannsóknaraðila eftir mætti í vandasömu verki og það hefur verið gert með fjárframlögum, lagabreytingum og ýmsum öðrum ráðstöfunum.

Það traust sem farið hefur forgörðum verður ekki endurheimt nema uppgjörið eigi sér stað á fullnægjandi hátt og þeir sem bera ábyrgð verði látnir axla hana. Sækja verður þá til saka sem sannað þykir að hafi framið misgjörðir og lögbrot. Það verður ekki hægt að ná sáttum í samfélaginu nema allt sé gert til þess að leiða sannleikann í ljós. Þar má ekkert undan draga.

Fólk vill óráðsíuna og græðgina burt og völdin úr höndum þeirra sem grófu undan heilbrigðu viðskiptalífi og stjórnsýslu. Það vill ekki að sömu klíkurnar og hagsmunahóparnir sitji að kjötkötlunum eins og ekkert hafi í skorist. Almenningur, sem nú býr við atvinnuleysi og skert kjör, vill sjá breytingar eiga sér stað og sú krafa er fyllilega réttmæt. Þessi krafa snýr meðal annars að bönkunum.

Ég hef sem forsætisráðherra skrifað skilanefndum bankanna bréf þar sem ég krefst þess að fá svör við því hvort farið sé eftir skráðum reglum og gegnsæju ferli í ákvörðunum um það hvaða fyrirtækjum, sem mörg eru tæknilega gjaldþrota, verði leyft að ganga í endurnýjun lífdaga. Ríkisstjórnin sættir sig ekki við annað en þarna sé allt uppi á borðinu og að jafnræði sé tryggt.

Icesave-málið er hluti af uppgjörinu. Það hefur reynst mér og öllum þungbært. Sett í samhengi við aðrar byrðar hrunsins, sem þjóðin þarf að glíma við á næstu misserum og árum, er það því miður ekki okkar stærsta vandamál.

Hallarekstur ríkissjóðs og tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans, vegna afskrifta lána til fallinna fjármálafyrirtækja, eru stærri í sniðum þegar horft er á áætlaðar raunstærðir. Vegna þeirra fjármuna þurfum við þegar í dag að bera gríðarlegan kostnað sem kallar á niðurskurð og skattahækkanir.

Þegar spurt hefur verið hvort mér finnist sanngjarnt að Íslendingar gangi í ábyrgð fyrir meinta fjárglæframenn, sem með Icesave nýttu sér hið góða nafn þjóðarinnar á óábyrgan hátt, hef ég svarað því neitandi. Það er ekki réttlátt að Íslendingar séu látnir gjalda fyrir gallaða löggjöf Evrópusambandsins.

Það er ekki réttlátt að Bretar og Hollendingar hreinsi hendur sínar af því að þeirra eigið fjármálaeftirlit hafi brugðist, ekki síður en okkar, í Icesave málinu og það er afar ósanngjarnt að þeir skuli torvelda samstarf Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Við urðum fórnarlömb þess að allar þjóðir sem við eigum helst samskipti við, bæði austan hafs og vestan, töldu nauðsynlegt að verja gallaðar fjármálareglur til þess að forða áhlaupi á banka víða um heim.

Við stóðum ein og gerum það enn í Icesave-málinu.

Kalt hagsmunamat segir mér að við eigum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave reikningana. Ef við fáum ekki lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða vinaþjóðum og fjármagn á næstunni til þess að styrkja gjaldeyrisforðann, mun afnám gjaldeyrishafta frestast, gengi haldast veikt, vaxtalækkun tefjast, botninn detta úr lánshæfismati ríkisins sem hafa mun í för með sér mun dýrari endurfjármögnun lána.

Þá mun endurreisn atvinnulífsins verða teflt í tvísýnu, atvinnuleysi stóraukast og þar með vandi heimlanna í landinu. Ef við viljum ekki einangrast sem þjóð og loka öllum samskiptaleiðum við alþjóðasamfélagið þá er okkur nauðugur einn kostur að leiða Icesave-málið til lykta.

Það er þetta mat og hagsmunir fólksins í landinu sem ræður minni afstöðu. Þeir sem hrópa nú hæst og bjóða aðrar lausnir eru að stefna hagsmunum almennings hér á landi í hættu til lengri og skemmri tíma litið. Hér höfum við ekkert val. Þetta bið ég fólk að hafa í huga.

Alþingi komst að sömu niðurstöðu þegar það fól framkvæmdavaldinu með þingsályktun að ljúka málinu með samningum fyrir tæpu ári síðan. Þrjár ríkisstjórnir með þátttöku Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs hafa staðfest í samskiptum við alþjóðasamfélagið að við Íslendingar ætlum að standa við skuldbindingar okkar þótt okkur sé það óljúft.Þetta eru staðreyndir málsins og við þær verðum við að glíma.

Við verðum að beina sjónum okkar fram á veginn.

Ríkisstjórnin stendur nú fyrir mestu uppstokkun í stjórnkerfi og stjórnsýslu hins opinbera á lýðveldistímanum. Umdæmaskipting þjónustu verður stokkuð upp, landið verður gert að einu skattaumdæmi og embætti ríkisskattstjóra og skattstofur landsins verða sameinuð.

Lögregluumdæmum, dómstólum og sýslumönnum verður fækkað. Heilbrigðisstofnanir, vinnu- og velferðarstofnanir og ýmsar stofnanir á sviði samgöngumála, umhverfismála og atvinnumála verða samþættar eða sameinaðar.

Umfangsmikil enduskipulagning á Stjórnarráðinu er þegar hafin og ráðuneytum verður fækkað úr 12 í 9 á kjörtímabilinu. Fyrir lok þessa árs verður lagt fram frumvarp um atvinnuvegaráðuneyti sem komi í stað sjávarúvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Einnig mun umhverfisráðuneytið verða eflt sem auðlindaráðuneyti.

Úrbætur í lýðræðismálum verða áfram ofarlega á verkefnaskrá ríkissjórnarinnar. Stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör, fjármál stjórnmálaflokka, aukið gegnsæi í stjórnsýslunni, lög um ráðherraábyrgð og fleira eru allt lýðræðisumbætur sem þokað verður áfram.

Vinnubrögðum verður breytt með siðareglum ráðherra og embættismanna, nýjum lögum um skipan dómara, nýjum upplýsingalögum og endurskoðun á lögum um skipan embættismanna Endurreisn bankanna er nú loks á lokastigi og horfur eru á að erlendir lánadrottnar og kröfuhafar kjósi að gæta hagsmuna sinna með þátttöku í bankarekstri og uppbyggingu íslensks atvinnulífs að nýju. Ef fram fer sem horfir þá munu vel fjármagnaðir bankar með víðtæk alþjóðleg tengsl geta tekið virkan þátt í endurreisn íslenskra fyrirtækja samfara því að verðbólga og vextir fara ört lækkandi næstu misserin.

Í umsókn Íslands að Evrópusambandinu felst einnig stefnumörkun um stöðu Íslands og styrk til lengri tíma litið. Sjálf umsóknin og viðtökurnar við henni fela í sér skýr og traustvekjandi skilaboð til umheimsins. Ég tel fullvíst að sem umsóknarríki muni Ísland öðlast sterkari stöðu en ella hefði verið.

Þær sársaukafullu og harkalegu aðgerðir sem fjárlagafrumvarpið boðar eru óhjákvæmilegar. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er í húfi og þar með grundvöllur þess að hér verði hægt að halda uppi nauðsynlegri velferðar- og samfélagsþjónustu á komandi árum.

Þjóðin spyr, hverjar eru þessar skuldir ríkisins? Ég skal svara því skýrt: Skuldir ríkisins munu vaxa úr rúmum 300 milljörðum króna árið 2007 í rúma 1700 milljarða árið 2010 eða um nærri eina landsframleiðslu - 1400 milljarða króna. Þar er ekki ein króna vegna Icesave-málsins.

Um 350 milljarðar eru vegna halla ríkissjóðs, um 350 milljarðar vegna lána vinaþjóða til þess að styrkja gjaldeyrisforðann, um 300 milljarðar vegna endurfjármögnunar banka og fjármálafyrirtækja, um 150 milljarðar vegna gengisþróunar á eldri lánum og um 300 milljarðar vegna Seðlabanka Íslands, til að forða gjaldþroti hans. Skuld ríkisins vegna afskrifaðra lána Seðlabanka Íslands jafngildir þreföldum niðurskurði fjárlagahallans á milli áranna 2009 og 2010.

Vegna þessara vaxandi skulda er vaxtakostnaður ríkisins orðinn næst stærsti liður fjárlaga á eftir útgjöldum til félags- og tryggingamála, um 100 milljarðar króna. Þessi vaxtabyrði ríkisins mun að lokum verða stærsti útgjaldaliður fjárlaga ef ekkert er gert. Útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og annarra bótagreiðslna hafa jafnframt vaxið um tugi milljarða eins og við vitum og tekjur hrunið vegna minnkandi umsvifa í hagkerfinu.

Ef við rekum ríkissjóð með 200 miljarða króna árlegum halla á næstu árum, eins og við höfum gert um tveggja ára skeið mun gífurleg vaxtabyrði draga allan þrótt úr velferðarkerfinu. Við munum ekki hafa neina fjármuni til þess að byggja það þjóðfélag sem við viljum búa í.

Þessi bráðavandi hefur ekkert með Icesave að gera og ekkert með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að gera. Þeir sem því halda fram eru að blekkja fólk. Það er sama hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er eða fer, sama hvort við borgum Icesave eða ekki.

Við verðum að draga mjög hratt úr hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins. Fjárhagsleg framtíð barna okkar og komandi kynslóða er í húfi. Glíman við fjárlagahallann á næstu árum snýst um hvort við Íslendingar höldum okkar efnahagslega sjálfstæði eða ekki. Ætlum við tapa þeirri glímu? Nei, segi ég. Ekki á minni vakt.

Ríkisstjórnin mun óhikað breyta skattkerfinu til þess að auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu. Þar er um mikla stefnubreytingu að ræða frá stjórnartímabili Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá leyfðist ríkustu fjölskyldum landsins að hrifsa til sín sístækkandi hlut í ráðstöfunartekjum landsmanna.

Á árunum 1993 til 2007 fimmfölduðu ríkustu fjölskyldur landsins hlut sinn í ráðstöfunartekjum, 1% ríkustu fjölskyldna fóru úr 4% í 20% af heildarráðstöfunartekjum landsmanna. Þetta var óheillastefna fyrir Íslendinga, stefna markvissrar misskiptingar sem leiddi til ófarnaðar. Þessari stefnu hefur nú verið kastað fyrir róða. Þeir sem gagnrýna skattastefnu ríkisstjórnarinnar verða að segja hvort þeir vilji skera meira niður og þá hvar eða hvort þeir vilji auka skuldir ríkissjóðs.

Stefna ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að létta greiðslubyrði og greiða úr skuldavanda einstaklinga og heimila liggur nú fyrir. Saman fari almenn leiðrétting og ný sértæk úrræði þar sem allt kapp er lagt á að greiða úr vanda sem flestra með sanngirni, jafnræði og hófsemi að markmiði.

Með þessu mun fjöldi heimila og einstaklinga ná tökum á fjármálum sínum. Þeir sem annars hefðu átt alvarleg vanskil yfir höfði sér ná vopnum sínum og fólk hefur meira fé til ráðstöfunar. Hjá þeim sem virtust allar bjargir bannaðar opnast leiðir til að greiða úr vandanum og fólk getur litið framtíðina bjartari augum.

Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur verið efldur til þess að hækka grunnframfærslu námslána um 20 af hundraði. Þetta er mikilvægur áfangi í að beina fólki í nám meðan á samdráttarskeiði stendur til þess að það komi betur undirbúið inn á vinnumarkað þegar hann tekur við sér að nýju. Tillögur um vinnumarkaðs- og starfsnámsúrræði fyrir ungt fólk án atvinnu sem hefur stutta skólagöngu að baki eru væntanlegar innan skamms.

Verkaskipting heilbrigðisstofnana á landinu öllu verður endurskilgreind og stjórnsýslustofnanir samhæfðar, haldið verður áfram að ná niður lyfjakostnaði og dregið úr kostnaði við sérgreinalækningar og þjálfun.

Ríkisstjórnin mun móta orkustefnu þar sem áhersla er lögð á að efla græna atvinnustarfsemi með því að nýta endurnýjanlega orku á sjálfbæran og samfélagslega ábyrgan hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar.

Stefnt er að því að setja rammlöggjöf um ívilnanir vegna erlendrar fjárfestingar hér á landi og styðja við nýsköpun í atvinnulífinu með löggjöf um ívilnanir. Aukin fjárframlög síðustu ára í samkeppnissjóði verða varin. Aldrei hefur verið varið jafn miklu fé á föstu verðlagi og í ár til ferðaþjónustunnar. Haldið verður áfram að efla hana með samstarfi um fjármögnun markaðs- og kynningarverkefna erlendis og með því að ýta undir ný sóknarfæri.

Ríkisstjórnin hyggur á verulegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um bankaleynd, lögum um innistæðutryggingar, lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þessar breytingar eru allar taldar nauðsynlegar til þess að koma böndum á fjármálamarkaðinn eftir hrunið og til þess að koma í veg fyrir endurteknar ófarir í fjármálageiranum.

Ríkisstjórnin hefur efnt til víðtæks samstarfs um gerð sóknaráætlunar fyrir alla landshluta í samræmi við nýja svæðaskiptingu landsins, sem miðar að því að Ísland verði í hópi þeirra landa sem hafa bestar forsendur til þess að tryggja góð og eftirsóknarverð lífskjör fyrir aldna sem unga.

Ríkisstjórnin undirbýr tillögur um næstu strandveiðivertíð í ljósi reynslunnar af strandveiðum liðins sumar sem færðu nýtt líf í mörg byggðarlög. Tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu verða kynntar á Alþingi í vetur þegar endurskoðunarnefnd hefur komist að niðurstöðu.

Ríkisstjórnin mun styrkja stöðu náttúruverndar með endurskoðun náttúruverndarlaga. Þess er vænst að rammaáætlun um vernd- og nýtingu vegna vatnsafls og jarðvarma verði lögð fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi. Ríkisstjórnin vinnur jafnframt að því að setja saman aðgerðaáætlun í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Góðir landsmenn

Hverjum þeim sem stendur í baráttu er hollt að einblína ekki eingöngu á það sem honum er mótdrægt. Allt í kringum okkur eru jákvæð teikn úr atvinnulífi, menningu, félagsstarfi og stjórnsýslu sem ættu að örva okkur og hvetja. Jákvæð teikn um samtakamátt, samheldni, áræðni og dugnað sem áður en langt um líður mun skila okkur breyttu og betra samfélagi. Við þurfum að rækta og hlúa að þessum jákvæðu sprotum í okkar samfélagi.

Við getum fagnað því að meiri afgangur er á vöruviðskiptum við útlönd í haust en verið hefur, álverð hefur hækkað, aflaverðmæti úr sjó hefur aukist, verð ýmissa fiskafurða hefur hækkað, útlitið er gott í sjávarútvegi, tekjur af erlendum ferðamönnum hafa aukist verulega og spár OECD gera ráð fyrir að hagvöxtur aukist þegar á næsta ári og að aukning verði á ný í heimsverslun. Það er gott fyrir Íslendinga vegna þess að okkar bati verður drifinn áfram af útflutningi.

Gengi krónunnar hefur verið stöðugt síðastliðinn mánuð þótt dregið hafi á sama tíma verulega úr inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Velta á gjaldeyrismarkaði virðist einnig vera að aukast og uppsöfnun á gjaldeyrisinnistæðureikningum fyrirtækja í bönkunum hefur stöðvast.

Skuldatryggingarálag heldur áfram að lækka og þess er vænst að verðabólga muni hjaðna ört í vetur og vextir lækka. Þá er ljóst að bæði hefur atvinnuleysi orðið minna en spáð var á Íslandi það sem af er og samdráttur er ekki eins mikill og óttast var.

Mörg jákvæð teikn eru á lofti og fjöldi stórverkefna í augsýn. Ég nefni Búðarhálsvirkjun, endurbyggingu álversins í Straumsvík, álver í Helguvík, gagnaver og tónlistarhúsið sem nú er að rísa. Ég nefni stórverkefni sem rætt hefur verið um við lífeyrissjóðina svo sem við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, nýjan Landspítala, stækkun flugstöðvar á Akureyri og samgöngumiðstöð í Reykjavík. Að öllu þessu er nú unnið hörðum höndum m.a. á grundvelli stöðugleikasáttmálans.

Framundan eru erfiðar tíma þar sem við, hvar á vettvangi sem við stöndum, munum glíma við uppgjör, endurreisn og uppstokkun í okkar eigin lífi og þjóðlífinu. Ríkisstjórnin hefur lagt fram stefnu og áætlanir sem munu leiða landsmenn út úr vandanum. Við erum að taka til í ríkisfjármálunum sem er í raun mikilvægasta sjálfstæðismál okkar Íslendinga í dag.

Við erum að stokka upp stofnanakerfið hjá hinu opinbera sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Við erum að knýja fram lýðræðisumbætur og margvísleg réttindamál sem hafa verið að velkjast í kerfinu um árabil án niðurstöðu. Við erum að leiðrétta margskonar misrétti og afnema forréttindi sem alltof lengi hafa liðist. Það á ekki að bíða með þessar úrbætur þótt á móti blási. Þær eru nauðsynlegar ef við ætlumst til þess að betra og heilbrigðara velferðarsamfélag verði til úr rústum hrunsins.

Ég er sannfærð um að það er vilji meginþorra landsmanna og að því skulum við vinna saman.

Góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira