Hoppa yfir valmynd
23. október 2009 Innviðaráðuneytið

Skora á ráðherra að fækka ekki ferðum Baldurs

Bæjarstjóri Vesturbyggðar afhenti nýverið samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirskriftir þar sem skorað er á ráðherra að sjá til þess að fallið verði frá fyrirætlun um fækkun ferða Breiðafjarðaferjunnar Baldurs. Undirskriftum var safnað síðustu vikur meðal íbúa og farþega Baldurs.
Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar afhendir ráðherra undirskriftirnar.
Skorað á ráðherra


Í skjalinu, sem Ragnar Jörundsson bæjarstjóri afhenti, kemur fram að Baldur sé oft á tíðum eina samgönguleið íbúa á suðursvæði Vestfjarða á vetrum og fram á vor. Bent er á nauðsyn þess að halda uppi reglulegum ferðum eins og verið hafi vegna vöruflutninga heim í hérað, vegna flutnings á útflutningsafurðum og annarra ferða til og frá heimabyggð meðal annars vegna skólasóknar framhaldsskólanema á Snæfellsnes.

Í lok áskorunarinnar eru ráðherra, þingmenn og æðstu stjórnendur Vegagerðarinnar hvattir til að koma akandi um Vestfjarðaveg og kynnast af eigin raun því ástandi sem íbúar þessa svæðis búi við í samgöngumálum í dag og halda síðan fund með íbúum þar sem fjallað yrði um samgöngumál.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók við áskoruninni. Ráðherra segir að samningur við Sæferðir um styrki vegna siglinga Baldurs verði framlengdur en ekki í óbreyttri mynd. Upphaflega var gert ráð fyrir að samningur um styrki myndi renna út í lok þessa árs um leið og vegasamband væri orðið viðunandi á sunnanverðum Vestfjörðum. Hins vegar hefði ekki tekist að halda þeirri áætlun og því ljóst að framlengja verður samninginn.

Ráðherra segir að verið sé að fara yfir öll mál varðandi ríkisstyrktar samgöngur og fleira hjá Vegagerðinni. Niðurstaða liggi ekki fyrir í þeim efnum en ljóst sé að Baldur muni sigla áfram yfir Breiðafjörð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum