Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefnur um atvinnumál í víðu samhengi

Atvinnumál verða til umfjöllunar í víðu samhengi á tveimur norrænum ráðstefnum sem haldnar verða í Reykjavík dagana 9.-10. nóvember. Íslendingar sem fara með formennsku á þessu ári í Norrænu ráðherranefndinni standa fyrir ráðstefnunum, en efnt hefur verið til fjölda annarra ráðstefna og funda hér á landi á formennskuárinu, sem varða velferð á tímum kreppu, atvinnumál og jafnréttismál.

Að morgni mánudags 9. nóvember kl. 9.00 hefst ráðstefnan Áhrif atvinnuþátttöku eldra fólks á heilsu og lífsgæði á Hótel Nordica með ávarpi Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra. Fjallað verður um breytingar á aldurssamsetningu þjóða og samfélagsleg áhrif þess og stöðu eldra fólks á vinnumarkaði. Áhersla verður lögð á mikilvægi þess að eldra fólk haldi virkni sinni, jafnt fyrir samfélagið í heild og fyrir einstaklingana sjálfa. Því sé nauðsynlegt að skapa fólki sem hefur til þess getu og vilja, raunveruleg tækifæri til þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu almennt.

Í framhaldi af ráðstefnunni um áhrif atvinnuþátttöku eldra fólks hefst önnur ráðstefna sem ber yfirskriftina Virkjum fjölbreyttari mannauð og fer einnig fram á Hótel Nordica. Ráðstefnan hefst á síðdegis á mánudag (17:30 til 19:30) og verður fram haldið á þriðjudag frá kl. 9:00 til 16:30.

Á ráðstefnunni verður meðal annars kynnt ný skýrsla um þróun atvinnuástands í aðildarríkjum OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar). Þar kemur mm.a. fram að atvinnuleysi í aðildarríkjunum hefur ekki verið meira síðan í seinni heimsstyrjöldinni, eða 8,6% í ágúst 2009. Paul Swaim, hagfræðingur hjá OECD sem kynnir skýrsluna mun fjalla um margvíslegar samfélagslegar afleiðingar atvinnuleysis og leiðir til að verjast atvinnuleysi og afleiðingum þess.  

Á ráðstefnunni mun fjöldi erlendra og íslenskra sérfræðinga fjalla um nýsköpun í starfsendurhæfingarmálum. Kynnt verða norræn fyrirmyndarverkefni þar sem vel hefur tekist til að virkja fólk sem af ýmsum ástæðum hefur verið lengi utan vinnumarkaðar og býr við skerta starfsgetu. Sjónum verður sérstaklega beint að ungu fólki, 30 ára og yngra og verða meðal annars kynntar niðurstöður nýrrar eigindlegrar rannsóknar á högum ungs fólks á Íslandi sem hefur verið án atvinnu í meira en sex mánuði.

Ráðstefnurnar fara báðar fram á ensku.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Skráning fer fram á vefsíðunni: http://yourhost.is/arbejde-til-alle-2009/registration.html

Nánari upplýsingar um ráðstefnurnar:

Tenging frá vef ráðuneytisins Áhrif atvinnuþátttöku eldra fólks á heilsu og lífsgæði

Tenging frá vef ráðuneytisins Virkjum fjölbreyttari mannauð

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum