Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Drög að starfshæfnismati til umsagnar

Faghópur framkvæmdanefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar hefur skilað skýrslu með drögum að nýju starfshæfnismati. Drögin eru byggð á tillögum nefndar sem forsætisráðherra skipaði um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar árið 2005. Einnig var horft til reynslu nágrannaþjóða, einkum Noregs og Danmerkur, af innleiðingu róttækra breytinga á þessu sviði innan velferðarkerfa sinna.

Nýju starfshæfnismati er ætlað að leysa af hólmi núverandi vinnulag við mat til endurhæfingar og örorku vegna skertrar starfshæfni. Áhersla er lögð á skjót inngrip þannig að þeir sem af einhverjum ástæðum hafa skerta starfshæfni, hvort sem er af heilsufarslegum eða félagslegum ástæðum, fái aðstoð sem fyrst við að auka virkni sína til þátttöku á vinnumarkaði og í samfélaginu. Í nýju starfshæfnismati er sjónum beint að getu fólks og hæfni í stað þess að horfa fyrst og fremst til vangetu fólks og færniskerðingar.

Vinnan við mótun nýs starfshæfnismats er hluti af stærra verkefni á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem felst í stefnumótun á sviði starfsendurhæfingar og eflingu úrræða með áherslu á einstaklingsmiðaða endurhæfingu í samræmi við vilja, getu og þarfir einstaklingsins sem í hlut á.

Óskað umsagna um drög að nýju starfshæfnismati fyrir 18. desember

Eins og fram er komið er hér um drög að nýju starfshæfnismati að ræða. Ljóst er að þróa þarf ýmsa þætti þess nánar og í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun að höfðu samráði við ýmsar aðrar stofnanir og hagsmunaaðila ásamt Starfsendurhæfingarsjóði.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að nýju starfshæfnismati og þurfa þær að berast ráðuneytinu fyrir lok föstudagsins 18. desember. Umsagnir skal senda ráðuneytinu á netfangið [email protected]

Skjal fyrir Acrobat Reader Drög að starfshæfnismati

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum