Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2009 Innviðaráðuneytið

Reglugerð um rekstrartakmarkanir á flugvöllum vegna hávaða til umsagnar

Drög að nýrri reglugerð um rekstrartakmarkanir á flugvöllum vegna hávaða er nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þeir sem vilja koma á framfæri umsögn um reglugerðardrögin geta gert það til 2. desember næstkomandi á netfangið [email protected].

Með reglugerðinni er innleidd tilskipun EB nr. 2002/30 þess efnis að koma á fót reglum og málsmeðferð um rekstrartakmarkanir vegna hávaða á flugvöllum Evrópubandalagsins.

http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/A1E4DDEAEB418A0500256CDB004AEEA6/$file/302L0030.pdf

Ástæða þess að gerðin hefur ekki verið innleidd fyrr, en hún öðlaðist gildi 28. mars 2002 í ESB, er sú að upphaflega var afstaða íslenskra stjórnvalda sú að ekki væri þörf á að innleiða gerðina hér á landi þar sem gildissvið hennar væri þannig að það tæki ekki yfir þá flugvelli sem eru í rekstri á íslensku yfirráðasvæði, þ.e. flugvelli með fleiri en 50.000 flughreyfingar þotna í almenningsflugi mælt á almanaksári, að teknu tilliti til meðaltals síðustu þriggja almanaksára.

Komið hefur í ljós í kjölfar dóma Evrópudómstólsins í máli framkvæmdastjórnarinnar gegn Grikklandi, Írlandi, Bretlandi og Belgíu (Case C-214/98; Case 372/00; Case C-441/00 og Case C422/05) að tilvísun til fjölda flughreyfinga dugir ekki til sem ástæða fyrir að innleiða ekki gerðina. Ljóst er í framhaldi af því að íslenska ríkið er skuldbundið til að innleiða umrædda gerð og er því lagt til að það verði gert með þeim reglugerðardrögum sem hér eru til umsagnar.

Markmiðið með reglugerðinni er að:

a) samræma rekstrartakmarkanir á flugvöllum í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða;

b) kveða á um ramma sem uppfyllir kröfur innri markaðarins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið;

c)   stuðla að því að afkastageta flugvalla þróist á vistvænan hátt;

d)   auðvelda að á hverjum flugvelli náist þau sérstöku markmið sem sett hafa verið um að draga úr hávaða; og

e)   gera kleift að velja milli fyrirliggjandi ráðstafana í því skyni að ná mesta mögulega ávinningi í umhverfismálum með sem mestri kostnaðarhagkvæmni.

Reglugerðin gildir um flugvelli í þéttbýli þar sem flughreyfingar (flugtak/lending) þotna í almenningsflugi eru fleiri en 50.000 á almanaksári, að teknu tilliti til meðaltals síðustu þriggja almanaksára.

Flugmálastjórn Íslands er lögbært stjórnvald samkvæmt reglugerðinni en eftirlit með framkvæmd hennar er í höndum heilbrigðisnefnda undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Haft var samráð við umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun við undirbúning reglugerðardraganna.

Þess er óskað að umsagnir varðandi reglugerðardrögin berist ráðuneytinu eigi síðar en 2. desember næstkomandi á netfangið [email protected].

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum