Hoppa yfir valmynd
4. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin þjónusta við langveik og ofvirk börn

Frá undirritun samstarfssamningsinsStuðnings- og nærþjónusta við langveik börn og börn sem greind hafa verið með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) verður aukin með nýjum samstarfssamningi ráðuneyta og sveitarfélaga um tilraunaverkefni í þessu skyni til þriggja ára. Samningurinn var undiritaður í dag. Áttatíu milljónir króna renna til verkefnisins árið 2009.

Samstarfssamningurinn er gerður samkvæmt heimild í fjárlögum ársins 2009 þar sem fé er veitt til þjónustu við þessi börn á grundvelli aðgerðaáætlunar í þágu barna og ungmenna sem Alþingi samþykkti árið 2007. Fjárhæðinni er skipt milli félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis en samstarfssamningurinn er milli þessara ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga í landinu.

Samkvæmt samstarfssamningnum geta sveitarfélög eða stofnanir á þeirra vegum sótt um styrki vegna verkefna sem ætluð eru til þess að auka þjónustu við börn með athyglisbrest og ofvirkni og þjónustu við langveik börn og fjölskyldur þeirra. Sveitarfélög geta einnig sótt um styrki vegna verkefna sem unnin eru í samstarfi við einstaklinga eða félagasamtök. Gert er ráð fyrir að verkefnum sem hljóta styrk af fjárlögum ársins 2009 verði lokið fyrir 1. júlí 2011.

Ráðherrar við undirritun samningsinsSkilvirkari og aðgengilegri þjónusta þrátt fyrir dreifða ábyrgð

Ítrekað hefur verið sýnt fram á að börn og foreldrar langveikra barna og barna með ofvirkni og athyglisbrest hafa liðið fyrir óljósa og dreifða ábyrgð milli ráðuneyta og sveitarfélaga þegar kemur að því að veita nauðsynlega þjónustu. Þessi hópur þarf á fjölbreyttum úrræðum og þjónustu að halda en oft er óljóst hvort ábyrgð á framkvæmd og kostnaði heyri undir mennta- félags- eða heilbrigðiskerfið eða sveitarfélögin. Með samstarfssamningnum er áhersla lögð á að tryggja þjónustu í samræmi við þarfir barnanna og fjölskyldna þeirra, óháð því hver ber ábyrgð á þjónustunni. Ráðuneytin sem koma að samningnum leggja öll fé til verkefnisins í sameiginlegan sjóð sem sveitarfélögin sækja í til tiltekinna verkefna. Sveitarfélögin bera ábyrgð á einstökum verkefnum og taka að sér skipulagningu og framkvæmd þjónustunnar.

Auglýst eftir umsóknum um styrki

Á næstu dögum mun stjórn verkefnisins auglýsa eftir umsóknum sveitarfélaga um styrki til verkefna í samræmi við samkomulagið. Í samkomulaginu er gerð grein fyrir því hvers konar verkefni koma til greina en í öllum tilvikum er miðað við aukna og eflda nærþjónustu sem unnt er að veita í heimabyggð. Við skilgreiningu verkefna og forgangsröðun þeirra var horft til skýrslu faghópa sem fjallað hafa um bætta þjónustu við þennan hóp. Einnig var byggt á rýnihópakönnun þar sem rætt var við foreldra langveikra barna og barna með ofvirkni og athyglisbrest um viðhorf þeirra til fyrirkomulags þjónustunnar og nauðsynlegra úrbóta.

Stjórnun verkefnisins

Stjórn verkefnisins verður í höndum nefndar um aðgerðir til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem félags- og tryggingamálaráðherra skipar. Verkefnisstjórnin hefur eftirlit með rekstri og fjárreiðum verkefnisins, auglýsir eftir umsóknum um styrki og sér um að meta umsóknir og úthluta styrkjum í samræmi við samstarfssamninginn.

Samstarfssamningurinn gildir til ársloka 2011 en framlög til verkefna árin 2010 og 2011 ráðast af fjárlögum.

Samstarfssamningur um tilraunaverkefni til styrktar langveikum börnum og börnum með ADHD greiningu.

 

                       

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum