Hoppa yfir valmynd
8. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 8. desember 2009

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Héðinn Unnsteinsson frá heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Matthías Halldórsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Stefán Stefánsson, tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, og Þorbjörn Guðmundsson, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir, starfsmenn.

Í upphafi bauð formaður Þorhildi Þorleifsdóttur formann Jafnréttisráðs velkomna í stýrihópinn.
Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar, var gestur fundarins.

1. Fundargerðir 18. og 19. fundar

Fundargerðir voru samþykktar.

2. Tillögur í ljósi niðurstaðna barnaverndarkönnunar

  • Nýju eintaki af niðurstöðum barnaverndarkönnunarinnar var dreift. Lára fór yfir tillögur höfundar könnunarinnar sem skiptast í A- og B-hluta.
  • Samþykkt að beina tillögum til úrbóta við skráningu barnaverndarmála til Barnaverndarstofu, sbr. A-hluta tillagnanna.
  • Samþykkt að kalla til ráðgjafahóp, þar með talinn höfund skýrslunnar, ásamt starfsfólki Barnaverndarstofu þar sem metið yrði til hvort og til hvaða þátta framhaldsrannsókn ætti að taka, sbr. B-hluta tillagnanna.
  • Samþykkt að endurtaka talningu á tilkynningum til barnaverndarnefnda að sex mánuðum liðnum.

3. Hjálparstarf kirkjunnar

Vilborg Oddsóttir greindi frá Hjálparstarfi kirkjunnar innanlands undanfarna mánuði þar sem fram kom meðal annars aldur fólksins, atvinnustaða og hvaða aðstoð hefur verið veitt. Breytingar milli ára voru einnig kynntar. Fram kom að á bilinu 4.000 til 5.000 fjölskyldur og einstaklingar hafi fengið aðstoð á þessu ári, sem er umtalsverð fjölgun frá 2008 og miklu meiri en gert var ráð fyrir. Fjölskyldustærð er að meðaltali 2,7 en um er að ræða allt frá einum einstaklingi upp í barnmargar fjölskyldur sem njóta aðstoðar. Stýrihópurinn mun fá glærurnar sendar.

4. Eftirfylgni ályktunar um úrræði og aðgerðir fyrir ungt fólk án atvinnu

Runólfur Ágústsson greindi frá aðgerðum stjórnvalda til að virkja ungt atvinnulaust fólk 16–24 ára til náms og starfs, en um 2.400 manns er á þeim aldri. 71% hópsins hefur einungis grunnskólapróf. Gert er ráð fyrir að verja 1,3 milljarði til þessa verkefnis á árinu 2010 og mun fjármagnið einkum tilkomið vegna hertra reglna á rétti sjálfstætt starfandi til atvinnuleysisbóta. Tíu ráðgjafar verða ráðnir til Vinnumálastofnunar, allir verða kallaðir í viðtöl og boðið upp á einstaklingsmiðuð vinnumarkaðsúrræði eða tækifæri til náms. Er gróflega áætlað að 1/4 hluti hópsins geti sótt almennan framhaldsskóla, en biðlistar eru nú í framhaldsskólana, 1/4 gæti notfært sér úrræði símenntunarstöðvanna og um helmingur hópsins mun þurfa á sértækum úrræðum að halda sem á eftir að útfæra nánar í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og þriðja geirann. Einnig er gert ráð fyrir aðkomu stéttarfélaga.

Rætt var um skilyrðingu greiðslna atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og komu fram áhyggjur af þeim hópi atvinnulausra sem, þrátt fyrir fjölbreytt úrræði í boði, muni ekki geta nýtt sér þau, en gert er ráð fyrir að þátttaka unga fólksins í úrræðunum sé skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum og sveitarfélög hafi einnig heimild til að skerða fjárhagsaðstoð til þeirra. Þar sem hér er um lágmarksframfærslu að ræða er hætta á að þessi hópur ungmenna einangrist enn meir og varast beri að ganga of nærri viðkvæmasta hópnum.

5. Ályktun um frestun greiðslna í foreldra- og fæðingarorlofi

Rætt var um fyrirhugaða frestun stjórnvalda á greiðslu vegna síðasta mánaðar fæðingarorlofs sem er níundi mánuður þar sem báðir foreldrar taka orlof, en sjötti mánuður þar sem einungis móðir tekur orlofið, sem er veruleg skerðing gagnvart þeim börnum. Rætt um að betri leið væri að lækka enn frekar þakið á hámarksgreiðslum en að ganga inn í grunnréttinn til níu mánaða orlofs sem greitt er fyrir. Samþykkt að Stýrihópurinn sendi félags- og tryggingamálaráðherra og félags- og tryggingamálanefnd Alþingis ályktun þar sem varað er við áformum um að fresta greiðslu orlofsins að hluta til, eins og gert sé ráð fyrir í frumvarpi til breytinga á lögum. Einnig sé ljóst að þrátt fyrir miklar réttarbætur í þágu barna sem urðu við setningu laga um foreldra og fæðingarorlof árið 2000 þá er orlofið með því stysta sem gerist hjá Norðurlandaþjóðunum. Minnt var á að lokum að velferðarvaktin hefur í öllum sínum störfum lagt ríka áherslu á velferð barna og ungmenna og ungra barnafjölskyldna. IB og ME falið að ganga frá ályktun sem send verði út samdægurs.

ATH: Á dagskrá fundarins var áætlað að Landlæknir kynnti tölulegar upplýsingar frá embættinu undir heitinu „Kreppa, heilsa og heilbrigðisþjónusta“. Vegna tímaskorts féll þessi liður niður en stýrihópurinn mun fá glærurnar um viðfangsefnið sendar.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 12. janúar 2010 kl. 14.00–16.00.

Fundargerð skráði Ingibjörg Broddadóttir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum