Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurður 14. janúar 2010

 

 

Úrskurður mannanafnanefndar 14. janúar 2010 í tilefni af endurupptöku ákvörðunar í máli 71/2009.

 

Mál nr. 71/2009.

Eiginnafn: Hávarr (kk.).

Á fundi mannanafnanefndar 20. júlí 2009 var tekin fyrir beiðni [?] og [?] um eiginnafnið og ritháttinn Hávarr (kk.). Með tölvupósti frá þáverandi formanni mannanafnanefndar, dags. 25. júlí sama ár, var þeim tilkynnt að nefndin hefði synjað beiðninni.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 14. desember 2009, var mannanafnanefnd upplýst um að borist hefði kvörtun frá [?], þess efnis að hann hefði ekki fengið formlegt bréf um úrskurð nefndarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Gögn málsins staðfesta þetta. Af gögnum málsins verður heldur ekki ráðið að [?] hafi með umræddum tölvupósti, 25. júlí 2009, verið kynntur rökstuðningur mannanafnanefndar fyrir niðurstöðu sinni.

Í lögum um mannanöfn segir að mannanafnanefnd skuli úrskurða í málum sem henni berast og lúta að viðurkenningu nafna á grundvelli nafnalaga. Í samræmi við þetta telur nefndin rétt að ákvarðanir í málum séu rökstuddar og rökstuðningur birtur aðila máls um leið og ákvörðun nefndarinnar er birt. Þessa var ekki gætt í máli [?] og [?]. Með vísan til þess telur nefndin rétt að taka mál þeirra fyrir að nýju.

Af hálfu mannanafnanefndar var haft samband við [?] símleiðis þann 10. janúar 2010. Honum var þá tilkynnt um fyrirhugaða endurupptöku málsins og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum eða sjónarmiðum teldi hann þörf á því. Hann var jafnframt upplýstur um að hann gæti fengið frest til að setja þær athugasemdir fram ef hann kysi svo. Athugasemdir sínar setti [?] fram þá þegar í umræddu símtali. Fullnægjandi gagna hefur því verið aflað. Með vísan til þess er beiðni [?] og [?] nú tekin fyrir að nýju og kveðinn upp eftirfarandi rökstuddur úrskurður.

Til úrlausnar er hvort fallast beri á eiginnafnið og ritháttinn Hávarr. Mannanafnanefnd hefur áður í úrskurði vegna beiðni sem lögð var fram af aðilum þessa máls hafnað umbeðnum rithætti, með vísan til þess að hann sé hvorki í samræmi við ritreglur íslensks máls né sé fyrir hendi hefð um þennan rithátt nafnsins, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Vísast hér til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 32/2007 frá 9. júlí 2007.  Einnig má vísa til enn eldri úrskurða um sama rithátt, þó í málum annarra málsaðila, þ.e. úrskurðar nr. 134/1993, dags. 14. september 1993, og úrskurðar nr. 92/1999, dags. 7. október 1999.

Um mannanöfn gilda ákvæði laga nr. 45/1996. Af þeim leiðir að sé nafn sem gefa á barni við skírn eða við skráningu nafns í þjóðskrá ekki á mannanafnaskrá skal málið borið undir mannanafnanefnd. Hlutverk hennar er að kveða upp úrskurð um það hvort það eiginnafn og/eða millinafn sem um ræðir samræmist skilyrðum laganna. Ef svo er skal færa nafnið á mannanafnaskrá.  Hið sama getur átt við um breytingu á nöfnum manna.

Samkvæmt 5. gr. þeirra laga um mannanöfn skal eiginnafn geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi, og það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Eiginnafnið Hávar er til á mannanafnaskrá. Nafnið sem slíkt brýtur ekki í bága við íslenskt málkerfi. Á hinn bóginn hefur verið litið svo á að sá ritháttur sem sótt er um í máli þessu, að nafnið endi á –arr, sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Á 14. öld virðist „langt r“ í bakstöðu (þ.e. aftast í orði) í áherslulitlum endingum hafa styst. Dæmi: Ragnarr > Ragnar, hamarr > hamar, jöfurr > jöfur. Slík orð eru ævinlega rituð með einu r-i skv. stafsetningu nútímamáls. „Langt r“ kemur hins vegar fyrir í bakstöðu í áhersluatkvæðum í ýmsum orðum, sbr. kjarr og kurr. Dæmi um rithátt sem fallist hefur verið á af hálfu mannanafnanefndar í samræmi við framangreint er millinafnið Gnarr, sem beiðandi hefur vísað til í erindi sínu um skráningu á eiginnafninu Hávarr.

Beiðandi hefur í erindum sínum til mannanafnanefndar bent á að nefndin hafi nú þegar fallist á að færa allnokkur karlkyns eiginnöfn sem enda á –arr á mannanafnaskrá. Þessi ábending beiðanda er rétt. Dæmi eru nöfnin Hnikarr, Heiðarr, Sævarr og Ísarr. Vísast hér til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 101/2005, 29/2006, 40/2006 og 2/2007. Sú staðreynd leiðir hins vegar ekki ein sér til breytingar á þeim almennu ritreglum íslensks máls sem lýst var hér að ofan. Í öllum tilvikum var fallist á rithátt þessara nafna með vísan til hefðar, sem þá heimilar undantekningu frá þeirri meginreglu að ritháttur íslenskra eiginnafna sé í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

Með vísan til ofangreinds kemur því næst til athugunar hvort fallast beri á ritháttinn Hávarr á grundvelli hefðar, sbr. 5. gr. laga um mannanöfn. Einnig í þessu sambandi verður að hafa í huga fyrri úrskurðarframkvæmd mannanafnanefndar um rithátt eiginnafna með –arr.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast íslensku málkerfi eða almennum ritreglum íslensks máls. Þessi nöfn eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrst.

Túlkun mannanafnefndar á hugtakinu hefð, bæði í 5. og 6. gr. mannanafnalaga, styðst við eftirfarandi vinnureglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

 

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.       Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.       Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.       Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.      Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.       Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.

2.  Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Þrátt fyrir þessar vinnulagsreglur hefur nefndin litið svo á að henni beri að meta það hverju sinni hvort eiginnafn eða ritháttur þess sé hefðaður í skilningi 5. og 6. gr. laga um mannanöfn. Þessar vinnulagsreglur eru m.ö.o. ekki að öllu leyti bindandi um það hvað felst í hugtakinu hefð skv. lögunum. Þannig hefur nefndin, í þeim tilvikum að reynt hefur á rithátt með –arr, líkt og hér gerir, litið til þess hvort viðkomandi nafn og ritháttur þess komi fyrir í forníslensku, og jafnframt að viðkomandi ritháttur á því tiltekna nafni hafi einnig verið notaður af nokkrum Íslendingum og það skráð með endingunni –arr í þjóðskrá. Við það mat skiptir, að mati nefndarinnar, ekki meginmáli hvort rithátturinn hefur verið notaður í fjölskyldu þess sem óskar eftir viðkomandi rithætti, þó það sjónarmið hafi stundum verið dregið inn í mat nefndarinnar til frekari stuðnings niðurstöðu. Mestu skiptir að lög um mannanöfn gera það að skilyrði fyrir því að fallist sé á rithátt nafns, sem ekki er í samræmi við almennar reglur íslensks máls, að hann sé hefðaður. Jafnvel þó að viðkomandi skilyrði laganna um hefð sé túlkað beiðanda nafns í hag getur nefndin ekki fallist á að ritháttur teljist hefðaður séu einvörðungu til dæmi um hann í forníslensku. Væri á það fallist væri ennfremur, í ljósi jafnræðisreglu, opnað á fjölda skráninga á rithætti annarra nafna sem ekki eru í samræmi við ritreglur íslensks máls. Dæmi er Hávarðr.

Eiginnafnið Hávar er á mannanafnaskrá. Nafnið kemur fyrir í fornum heimildum með rithættinum Hávarr en þá var gerður sá greinarmunur að nefnifall endaði á –rr en þolfallið og önnur föll í orðum af þessu tagi höfðu aðeins eitt r. Þessi hljóðlega aðgreining er löngu horfin úr íslensku máli og nútímastafsetning endurspeglar hana ekki. Samkvæmt Guðrúnu Kvaran og Sigurði Jónssyni í „Nöfn Íslendinga“ (1999) virðist nafnið hafa verið sjaldgæft til forna og var ekki notað að nýju fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar. Eftir að nafnið var tekið upp á 20. öld hefur enginn Íslendingur verið skráður með rithættinum Hávarr, skv. upplýsingum frá Þjóðskrá. Rithátturinn Hávarr styðst því ekki við hefð, þrátt fyrir að dæmi um hann megi finna í fornum íslenskum ritum.

Nafnið Hávarr uppfyllir ekki skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Með vísan til þess er mannanafnanefnd skylt að hafna nafninu.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Hávarr (kk.) er hafnað.

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn