Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 28/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. nóvember 2009

í máli nr. 28/2009:

Síminn hf.

gegn

Ríkiskaupum

          

Með bréfi, dags. 9. september 2009, kærði Síminn hf. ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um að bjóða út að nýju kaup á þeirri þjónustu sem útboð kærða nr. 14644 tók til. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Síminn gerir eftirfarandi kröfur:

1.      Aðallega, að kærunefndin felli úr gildi þá ákvörðun Ríkiskaupa, dags. 7. september 2009, að bjóða kaup á þeirri þjónustu sem útboð 14644 tók til út að nýju.

2.      Til vara, að kærunefndin láti í ljós álit sitt um skaðabótaskyldu Ríkiskaupa vegna þeirrar ákvörðunar að heimila framlengingu gildistíma tilboða vegna útboðs nr. 14644 „Gagnaflutningsþjónusta, fastlínu- og farsímaþjónusta fyrir Landspítala (þjónustuflokkur 2)“, lengur en til og með 25. maí 2009.

3.      Að Símanum verði dæmdur málskostnaður úr hendi Ríkiskaupa, samkvæmt mati nefndarinnar, við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi, dags. 1. október 2009, krafðist kærði þess að kröfum kæranda yrði hafnað og að kærandi yrði úrskurðaður til að greiða varnaraðila kærumálskostnað í ríkissjóð. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð kærða með bréfi, dags. 19. október 2009.

 

Hinn 23. október 2009 barst kærunefnd útboðsmála krafa kæranda um stöðvun innkaupaferlis og voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

 „Síminn gerir eftirfarandi kröfur:

1.      Að kærunefndin stöðvi innkaupaferli vegna útboðsins „14765, gagnaflutningsþjónusta, fastlínu- og farsímaþjónusta fyrir Landspítala“ þar til endanlega hefur verið skorið úr stjórnsýslukæru Símans á hendur Ríkiskaupum, dags. 9. september 2009.

2.      Að Símanum verði dæmdur málskostnaður úr hendi Ríkiskaupa samkvæmt mati nefndarinnar vegna stöðvunarkröfu þessarar, en ella að tekið verði tillit til kostnaðarins við ákvörðun málskostnaðar í úrskurði vegna stjórnsýslukærunnar, dags. 9. september 2009.“

 

Kærða var kynnt stöðvunarkrafan og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Með bréfi, dags. 29. október 2009, krafðist kærði þess að kröfu kæranda yrði hafnað og að kærandi yrði úrskurðaður til að greiða varnaraðila kærumálskostnað í ríkissjóð.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferli hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í janúar 2009 auglýsti kærði útboð nr. 14644 „Gagnaflutningsþjónusta, fastlínuþjónusta- og farsímaþjónusta fyrir Landspítala“. Í útboðslýsingu sagði m.a. að opnunartími tilboða væri 18. mars 2009 og að tilboð skyldu gilda í 8 vikur eftir opnun þeirra. Kærði, Ríkiskaup, framlengdi gildistíma tilboða í útboðinu. Kærandi var einn bjóðenda í útboðinu og kærði ákvörðun um framlengingu á gildistíma tilboðanna til kærunefndar útboðsmála. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála nr. 19/2009, dags. 29. ágúst 2009, voru úrskurðarorð svohljóðandi:

„Ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um að heimila framlengingu gildistíma tilboða vegna útboðs nr. 14644 „Gagnaflutningsþjónusta, fastlínu- og farsímaþjónusta fyrir Landspítala (þjónustuflokkur 2)“ lengur en til og með 25. maí 2009, er felld úr gildi.

 

Kærði, Ríkiskaup, greiði kæranda, Símanum hf., kr. 400.000 vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

 

Kröfu kærða, Ríkiskaupa, um að kærandi, Síminn hf., greiði málskostnað í ríkissjóð, er hafnað.“

 

Hinn 7. september 2009 tilkynnti kærði bjóðendum í útboði nr. 14644 að kærði hefði ákveðið að bjóða að nýju út kaup á þeirri þjónustu sem útboð nr. 14644 tók til.

 

 

II.

Kærandi telur að að ákvörðun kærða um að hafna öllum tilboðum og bjóða kaupin út að nýju eigi sér ekki málefnalegan grundvöll. Kærandi telur að réttaráhrif úrskurðar nr. 19/2009 séu þau að tilboð kæranda sé enn í gildi. Kærandi telur að kærða hafi borið að taka tilboði kæranda.

 

III.

Kærði segir að réttaráhrif úrskurðar nr. 19/2009 séu þau að tilboð sem bárust í útboðinu, m.a. tilboð kæranda, séu fallin úr gildi. Kærði lítur því svo á að hann hafi hafnað öllum tilboðum og útboðinu sé þar með lokið. Kærði telur að kærufrestur sé liðinn til að setja fram stöðvunarkröfu.  

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum.

Sú háttsemi sem kærandi telur brjóta gegn réttindum sínum er ákvörðun kærða um að bjóða að nýju út kaup á þeirri þjónustu sem útboð nr. 14644 tók til. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með tölvupósti, hinn 7. september 2009. Krafa kæranda um stöðvun barst kærunefnd útboðsmála hinn 23. október 2009 en þá var kærufrestur skv. 1. mgr. 94. gr. laganna liðinn. Verður því að vísa frá kröfu um að stöðvað verði innkaupaferli í útboði „14756 gagnaflutningsþjónusta, fastlínu- og farsímaþjónusta fyrir Landspítala“.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Símanns hf., um að stöðvað verði innkaupaferli útboðsins „14756 gagnaflutningsþjónusta, fastlínu- og farsímaþjónusta fyrir Landspítala“, er vísað frá.

 

                                                   Reykjavík, 6. nóvember 2009.

                                                   Páll Sigurðsson

                                                   Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,             nóvember 2009.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn