Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 7/2009B. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. nóvember 2009

í máli nr. 7/2009B:

Húsasmiðjan hf. vegna Ískrafts

gegn

Landsneti hf.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 2009, óskaði Landsnet hf. eftir endurupptöku á máli kærunefndar útboðsmála nr. 7/2009, Húsasmiðjan hf. vegna Ískrafts gegn Landsneti hf. Í bréfinu var krafa Landsnets hf. orðuð með eftirfarandi hætti: „Landsnet óskar eftir því að mál nr. 7/2009 verði endurupptekið hvað varðar þann úrskurð kærunefndar útboðsmála að Landsnet hf. skuli greiða kæranda kr. 350.000 vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi. Fallist kærunefnd útboðsmála á beiðnina gerir Landsnet þá kröfu við endurupptökuna að kröfu kæranda um að Landsnet greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi verði hafnað.“

      Varnaraðila, Húsasmiðjunni hf. vegna Ískrafts, var kynnt endurupptökukrafan og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Varnaraðili skilaði athugasemdum, dags. 6. október 2009, og með ódagsettu bréfi gerði sóknaraðili athugasemdir við greinargerð varnaraðila.

 

I.

Kærunefnd útboðsmála kvað 16. júní 2009 upp úrskurð í máli nr. 7/2009. Í málinu kærði varnaraðili meðal annars útboð sóknaraðila á jarðstreng. Útboðið hafði farið fram í lokuðu útboðsferli með forvali í gegnum hæfismatskerfið Sellicha. Útboðstilkynning var birt á Evrópska efnhagssvæðinu og birtist á TED (www.ted.europa.eu). Í málinu komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn ákvæðum tilskipunar nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu (veitutilskipunin) og reglugerð nr. 1300/2007. Þá var sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.

      

II.

Sóknaraðili fer fram á endurupptöku málsins þar sem niðurstaða kærunefndar útboðsmála hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Um lagastoð fyrir beiðninni vísar hann til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt ákvæðinu eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

       Sóknaraðili telur að niðurstaða kærunefndarinnar hafi byggst á því að útboðstilkynning hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þetta sé ekki rétt, þar sem útboðstilkynning hafi verið send til Publications Office of the European Union, sem birti tilkynninguna á www.ted.europa.eu. Telur hann að sá misskilningur sé fyrir hendi að TED sé ekki hluti af Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Staðreynd málsins sé hins vegar að á TED birtist tilkynningar varðandi opinber innkaup („Public procurement notices“).

       Sóknaraðili leggur áherslu á að TED standi fyrir „Tenders Electronic Daily“ og sé sú útgáfa sem birtist á Internetinu á viðaukum við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, sem sé helguð opinberum innkaupum. Þá telur sóknaraðili mikilvægt að hafa í huga að Publications Office haldi uppi vefsíðunni www.ted.europa.eu en tilgangurinn með henni sé að auka aðgengi að upplýsingum um opinber innkaup.

       Með vísan til þessa telur sóknaraðili ljóst að hann hafi engin lög og reglur brotið þar sem útboðstilkynning, sbr. b) lið 42. gr. veitutilskipunarinnar hafi verið send til Publications Office og birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þá hafi útboðstilkynningin verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í lögum og reglum. Kærunefnd útboðsmála beri því skylda til að endurskoða ákvörðun sína um að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað þar sem hún hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

       Sóknaraðili leggur áherslu á mikilvægi þess að fá þessa niðurstöðu kærunefndar útboðsmála endurupptekna. Ljóst sé að á meðan úrskurður kærunefndar nr. 7/2009 standi sé alger óvissa uppi um það hvernig sóknaraðili og önnur veitufyrirtæki hér á landi eigi að eða geti uppfyllt kröfur um birtingu útboðstilkynninga.

       Sóknaraðili bendir á að samkvæmt lögum skuli kærunefnd útboðsmála ekki dæma kærða til greiðslu málskostnaðar þegar kærandi tapi í öllum verulegum atriðum máli fyrir nefndinni og vísar hann til skýringa í greinargerð með lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup því til stuðnings. Staðreynd málsins sé hins vegar sú að kröfum varnaraðila hafi verið hafnað, auk þess sem það var álit nefndinnar að sóknaraðili væri ekki skaðabótaskyldur gagnvart varnaraðila. Því sé það í ósamræmi við ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og greinargerð þeirra að úrskurða að sóknaraðili skuli greiða varnaraðila málskostnað.

       Í athugasemdum við greinargerð varnaraðila mótmælir sóknaraðili því að hann sé ekki aðili máls í skilningi stjórnsýsluréttar í máli kærunefndar útboðsmála nr. 7/2009 og geti því ekki krafist endurupptöku. Bendir hann á að úrskurður nefndarinnar beinist að honum en samkvæmt stjórnsýslurétti sé aðili máls sá sem ákvörðun beinist að. Þá eigi sóknaraðili einstaklegra hagsmuna að gæta í máli þessu. Loks mótmælir sóknaraðili ennfremur fullyrðingum varnaraðila um að skilyrði til endurupptöku séu ekki til staðar. 

 

 

III.

Varnaraðili ber því við að sóknaraðili sé ekki aðili máls. Endurupptökuákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga mæli fyrir um rétt fyrir „aðila máls“. Varnaraðili hafi verið aðili máls í skilningi stjórnsýsluréttar í máli nr. 7/2009. Það sé aftur á móti almenn regla í stjórnsýslurétti að þegar um stjórnsýslukæru sé að ræða teljist stjórnvaldið, sem tók hina kærðu ákvörðun, ekki „aðili“ að kærumálinu. Landsnet teljist þannig ekki aðili máls og geti ekki krafist endurupptöku.

       Þá leggur varnaraðili áherslu á að engar nýjar upplýsingar hafi komið fram frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp. Sóknaraðili hafi haldið því fram við meðferð málsins allt frá upphafi að tilkynning og auglýsing hefðu verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í veitutilskipuninni. Kærunefndin hafi kannað ítarlega hvort sóknaraðili hefði staðið rétt að tilkynningu og óskað meðal annars eftir viðbótargögnum og upplýsingum frá sóknaraðila til að leggja mat á tilkynninguna með sem bestum hætti. Engar nýjar málsástæður eða lagarök hafi þannig verið leiddar í ljós og ekkert nýtt hafi komið fram eða breyst frá því að kærunefnd útboðsmála kvað upp úrskurðinn að undangenginni vandaðri rannsókn.

       Varnaraðili bendir á að sóknaraðila beri að fara eftir úrskurðum kærunefndar útboðsmála og þar sem nefndin hafi þegar fjallað um þetta álitaefni sé engin óvissa um þær kröfur sem gerðar séu til fyrirtækisins.

IV.

Ákvæði 95. gr. laga nr. 84/2007 fjallar um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laganna gilda stjórnsýslu­lög um meðferð kærumála að öðru leyti en kveðið er á um í 95. gr. laga nr. 84/2007. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

       Telja verður að sóknaraðili sé aðili máls í skilningi framangreinds lagaákvæðis, enda beindist úrskurður í máli nr. 7/2009 að honum, auk þess sem hann eigi einstaklegra hagsmuna að gæta í máli þessu. Telur nefndin því að hann geti sem málsaðili farið fram á endurupptöku málsins ef svo ber undir.

       Sóknaraðili hefur fært ítarleg rök fyrir beiðni um endurupptöku máls nr. 7/2009 og einnig lagt fram nokkur gögn í því sambandi. Kærunefnd útboðsmála telur með hliðsjón af þessum atriðum að nægur vafi sé fyrir hendi, um að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sem haft geta áhrif á niðurstöðu málsins, að réttlætt geti endurupptöku málsins. Verður beiðni sóknaraðila um endurupptöku máls nr. 7/2009 því samþykkt.

 

Ákvörðunarorð:

Mál nr. 7/2009, Húsasmiðjan hf. vegna Ískrafts gegn Landsneti hf., er endurupptekið.

 

                        Reykjavík, 16. nóvember 2009.

 

 

 Páll Sigurðsson,

  Stanley Pálsson,

        Inga Hersteinsdóttir

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 16. nóvember 2009.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn