Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2010 Innviðaráðuneytið

Keflavíkurflugvöllur með besta þjónustu evrópskra flugvalla 2009

Keflavíkurflugvöllur er besti flugvöllur í Evrópu að mati þátttakenda í viðamikilli þjónustukönnun sem fram fer á 140 helstu flugvöllum um heim allan, þar af 48 í Evrópu. Keflavíkurflugvöllur hefur tekið þátt í könnuninni frá árinu 2004 og jafnan verið í efstu sætum evrópskra flugvalla.

Könnuninni fer fram á vegum alþjóðasamtaka flugvalla, Airports Council International, og svara farþegar spurningum um gæði rúmlega 30 þjónustuþátta en niðurstöður eru birtar ársfjórðungslega og heildarárangur árlega. Flugvöllurinn náði þriðja sæti á heimsvísu árið 2004 í flokki flugvalla með undir fimm milljónir farþega á ári.

Keflavíkurflugvöllur skarar jafnan framúr í heildaránægju farþega, kurteisi og hjálpsemi starfsfólks, auðveldu tengiflugi, notalegu andrúmslofti og hreinlæti. Einnig eru farþegar mjög ánægðir með skjóta afgreiðslu farangurs, aðgengi að farangurskerrum, bankaþjónustu og veitingastaði í flugstöðinni. Næst á eftir Keflavíkurflugvelli í flokki evrópskra flugvalla eru Zurich í Sviss, Porto í Portúgal og Möltuflugvöllur.

„Forsenda þess að ná slíkum árangri er að hlusta á viðskiptavininn og leitast við að mæta þörfum hans með frábæru starfsfólki. Þessi árangur nú er því merkilegri að nýliðið ár var nokkuð erfitt ár í rekstri flugvallarins,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Keflavíkurflugvallar ohf.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fagnaði þessari viðurkenningu Keflavíkurflugvallar ohf.: „Þessi niðurstaða staðfestir að hjá Keflavíkurflugvelli er hæft og gott starfsfólk sem leggur sig fram um að veita góða þjónustu. Það er lykilatriði í rekstri slíkrar starfsemi að sinna farþegum og að þeim sé auðveldað að fara um flugvöllinn og komast leiðar sinnar á þægilegan hátt. Ég óska starfsfólkinu til hamingju með þennan árangur og er sannfærður um að þau muni öll halda áfram á sömu braut."

Aðstaða og þjónusta við farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið bætt mikið  undanfarin ár og þægindi aukist í kjölfar umfangsmikillar stækkunar og endurbóta. Tveir veitingastaðir, þrjú kaffihús, bar, banki og þrjár fríhafnarverslanir eru reknar á biðsvæði farþega auk tíu sérverslana með tískufatnað, skartgripi, gleraugu, útivistarvörur, minjagripi, snyrtivörur, bækur og tímarit, raftæki, hönnunarvörur og matvörur. Í komusal á fyrstu hæð flugstöðvarinnar er kaffihús, banki og matvöruverslun auk afgreiðslu Upplýsingamiðstöðvar Ferðamála, Kynnisferða, bílaleiga og bílastæða flugvallarins.

Allir flugvallarstarfsmenn sinna á einhvern hátt þjónustu við flugfarþega á Keflavíkurflugvelli. Fagmennska og samstillt átak þeirra tryggir að afgreiðsla verði ávallt með skjótum og öruggum hætti. Forráðamenn og starfsmenn Keflavíkurflugvallar ohf. og rekstraraðila fagna þessum frábæra árangri.

Keflavíkurflugvöllur með með besta þjónustu

Björn Óli Hauksson forstjóri færði starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli viðurkenningu fyrir verðlaunasætið í þjónustukönnun ACI.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum