Hoppa yfir valmynd
24. mars 2010 Dómsmálaráðuneytið

Almennar sveitarstjórnarkosningar verða haldnar laugardaginn 29. maí 2010

Almennar sveitarstjórnarkosningar verða haldnar laugardaginn 29. maí 2010. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst þriðjudaginn 6. apríl en frestur til að skila framboðslistum til yfirkjörstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi er til kl. 12 á hádegi laugardaginn 8. maí.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur nú í fyrsta sinn umsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, eftir að forræði þessa málaflokks fluttist til ráðuneytisins frá samgönguráðuneytinu 1. október 2009. Ráðuneytið annast því framkvæmd allra almannakosninga hér á landi.

Kosningarréttur
Samkvæmt lögum um sveitarstjórnarkosningar eiga eftirtaldir, sem fæddir eru 29. maí 1992 og fyrr, kosningarrétt til sveitarstjórnar 29. maí 2010:

  • íslenskir ríkisborgarar sem skráðir eru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 8. maí 2010.
  • íslenskir ríkisborgarar sem flutt hafa lögheimili sitt til hinna Norðurlandanna vegna náms á grundvelli Norðurlandasamnings um almannaskráningu og eru þar enn skráðir 8. maí 2010.
  • danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt hér á landi í þrjú ár samfellt frá 29. maí 2007 og eru skráðir með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi 8. maí 2010.
  • aðrir erlendir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt hér á landi í fimm ár samfellt frá 29. maí 2005 og eru skráðir með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi 8. maí 2010.

Kjörgengi
Hver sá sem á kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningar getur boðið sig fram til setu í sveitarstjórnum, hafi hann ekki verið sviptur lögræði.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst þriðjudaginn 6. apríl 2010. Kjósanda sem ekki getur kosið á kjördag er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með þeim degi til kjördags. Hægt verður að kjósa hjá öllum sýslumönnum á landinu, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Atkvæðagreiðsla á erlendri grundu hefst sama dag á vegum utanríkisráðuneytisins sem mun kynna fyrirkomulag þar að lútandi. Kjósanda er heimilt
að greiða atkvæði á kjördag þótt hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæðaseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.

Kjörskrá
Þjóðskrá sér um gerð kjörskrárstofna fyrir allar almannakosningar hér á landi. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna mun Þjóðskrá, eins og gert var í fyrsta sinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars 2010, veita rafrænan aðgang að kjörskrá á kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, kosning.is, eins fljótt og verða má eftir viðmiðunardag kjörskrár 8. maí 2010. Þar munu kjósendur geta, með því að slá inn kennitölu sína, fengið upplýsingar um lögheimili og sveitarfélag og Reykvíkingar fá að auki upplýsingar um kjörstað og kjördeild. Sveitarfélög auglýsa kjörstaði hvert fyrir sig.

Helstu dagsetningar
6. apríl

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst.

 8. maí

  • Viðmiðunardagur kjörskrár.
  • Framboðsfrestur rennur út kl. 12 á hádegi.

 19. maí
Kjörskrá skal lögð fram í síðasta lagi þennan dag og skal framlagning hennar auglýst fyrir þann tíma.

29. maí
Kjördagur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum